Samningur um Evrópskt efnahagssvæði og þingleg meðferð hans

128. fundur
Þriðjudaginn 28. apríl 1992, kl. 16:19:39 (5639)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Því ber að fagna að hér fer fram umræða utan dagskrár um þetta stóra mál þó að hæstv. utanrrh. sé að kveinka sér yfir því að menn taki tíma til þess að ræða það áður en hann skrifar undir þennan samning og bindur Ísland þjóðréttarlega eins og til stendur að gera 2. maí nk. Í rauninni hefur Alþingi, þrátt fyrir nokkra umræðu á þess vettvangi, fjallað allt of lítið um þetta mál á þeim tíma sem liðinn er frá því í mars 1989. Ég er alveg viss um það að hefðu menn tekið sér betri tíma til þess að rýna í þau drög að samningi sem legið hafa fyrir í ýmsum myndum á liðinni tíð, þá væru menn kannski ekki

í þeim sporum sem hæstv. utanrrh. er í. Og við verðum að vænta þess að Alþingi beri gæfu til þess við athugun málsins að ýta frá þeim kaleik sem því er réttur í formi þessa samnings.
    Það er heldur engan veginn borin von að þær geti orðið málalyktir, ef marka má gagnrýni úr ýmsum áttum á þennan samning í vaxandi mæli nú upp á síðkastið, ekki aðeins úr röðum stjórnrandstöðuflokka heldur einnig úr röðum stjórnarliða. Það þarf 32 þingmenn á Alþingi Íslendinga til þess að greiða þessum samningi atkvæði sitt ef hann á að hljóta tilskilinn meiri hluta. Ég held að ef menn líta yfir sviðið, þá ættu þeir ekki að bóka það fyrir fram að slíkur meiri hluti sé fyrir hendi á Alþingi.
    Ég vil að sjálfsögðu ekki leiða getum að því hverjir úr röðum stjórnarliða kynnu að líta öðruvísi á þetta mál en hæstv. utanrrh. En ég hef þó ástæðu til að ætla að í þeim hópi séu nokkrir þingmenn sem séu vægast sagt mjög hugsi yfir þessu máli, fyrir utan það að frá áhrifamiklum þingmanni, formanni utanrmn. Alþingis, hefur komið fram eindregin andstaða við þennan samning nú þegar. Stjórnarandstöðuflokkarnir ráða yfir 27 þingsætum á Alþingi, 27 atkvæðum ef þeir leggja saman og ef þeir bera gæfu til að standa saman í örlagaríkum málum. Þetta mál er auðvitað eitt af þeim afdrifaríkustu málum sem Íslendingar hafa staðið frammi fyrir um aldir, sagði frummælandi þegar hann líkti þessum samningi við Gamla sáttmála og þeim sporum sem Íslendingar stóðu í á 13. öld þegar þeir stigu skref sem tók þjóðina margar aldir að leiðrétta. Við getum litið til okkar forfeðra ekki mjög langt undan sem stóðu í þeirri baráttu að hnekkja þeim gjörningi og endurheimta sjálfstæði þjóðarinnar.
    Ég ætla að vona að þegar menn fara að skoða þessi mál niður í kjölinn á Alþingi, þá fjölgi þeim sem meta þetta mál með líkum hætti og ég hef gert lengi vegna þess að ég tel að grundvöllurinn sem verið er að ganga inn á með þessum samningi sé ekki aðgengilegur fyrir okkur Íslendinga. Það væri mikið óheillaskref að ganga inn á þann grundvöll sem er lög, reglur og réttarkerfi Evrópubandalagsins á hinum þýðingarmestu sviðum efnahags- og atvinnumála og að nokkru leyti einnig félagsmála þar sem er spurningin um búseturétt og réttindi Íslendinga í eigin landi. Það verður auðvitað hver alþingismaður að gera það upp við sig að vandlega yfirlögðu ráði hvernig hann stendur að þessu máli en jafnframt er það krafa okkar, sem fram hefur komið sameinuð frá stjórnarandstöðunni, að þjóðin verði spurð álits áður en til þess kemur að Alþingi gefi þetta mál upp og undir þá kröfu taka áreiaðnlega fjölmargir sem hafa talið sig í stuðningsliði núverandi ríkisstjórnarflokka um allt land. Það ber ekki vott um mikið sjálfstraust í röðum ríkisstjórnarinnar ef hún ætlar ekki að taka undir þá sjálfsögðu kröfu í svo stóru máli að þjóðin verði spurð álits.
    Ég vil taka undir þessa kröfu. Alþb. gerði það samhljóða á landsfundi sínum í nóvember sl. og hér hefur hún verið borin fram af stjórnarandstöðunni allri. Samstaða um óháð Ísland, þverpólitísk samtök, sem hafa innan sinna vébanda fólk úr öllum stjórnmálaflokkum og utan flokka, hafa sett fram þessa kröfu, þau gerðu það myndarlega á síðasta sumri og bera hana enn fram. Við verðum að gera þær kröfur til íslenskra stjórnvalda að þau sinni því lýðræðislega kalli sem felst í kröfunni um þjóðaratkvæði um þetta afdrifaríka mál
    Ég vil, virðulegur forseti, nota þessar fáu mínútur sem hér eru til umráða til að víkja að fáeinum atriðum sem tengjast þessu máli og hafa kannski ekki verið mjög mikið í umræðunni. Ég hef oft talað um aðalatriði þessa máls, fjórfrelsið, hvað í því felst og hvaða afleiðingar það hefði að mínu mati fyrir íslenskt samfélag að lögfesta það á Íslandi eins og þessi samningur gerir ráð fyrir. Hér nefndi frummælandi það mat sem lægi fyrir hjá Evrópubandalaginu á ýmsum þáttum þessa máls og það var vel til fundið því að oft er það svo að gagnaðilinn segir margt sem þeir sem sitja hinum megin við borðið þyrftu að gaumgæfa. Þar koma oft fram óhlutdrægari upplýsingar og dómar en hjá þeim sem eru að reyna að sannfæra sitt lið, í tilfelli hæstv. utanrrh., um það að skrifa upp á þennan gjörning sem hann ætlar að ríða á vaðið með sjálfur innan skamms.
    Ég vil aðeins bæta örlitlu í þetta safn sem hv. þm. Steingrímur Hermannsson hafði uppi og vitna til orðsendingar frá fjandvini hæstv. utanrrh., danska utanríkisráðherranum Uffe Elleman-Jensen, sem hann sendi markaðsnefnd danska þingsins 26. febr. sl. og hefur reyndar verið birt í nýútkomnu fréttabréfi Samstöðu um óháð Ísland. Í þessu stutta erindi, sem kom á undan alllöngu erindi til markaðsnefndarinnar 5. mars sl., segir danski utanríkisráðherrann svo orðrétt í þýðingu:
    ,,Hið nýja form fyrir lausn deilumála hefur að markmiði að tryggja sem frekast má verða réttarlega einsleitni [homogenitet] svo að það víki ekki verulega frá þeirri tiltölulega einsleitu skipan sem ríkir inn á við í EB á umræddu réttarsviði. EFTA-ríkin verða með hinum nýju ákvörðunum að fallast í ríkum mæli á dómstilhögun [eða dómspraxis á dönskunni] EB-dómstólsins hingað til sem og í framtíðinni.``
    Þetta er túlkun danska utanrrh. á réttarfarskafla þessa samnings eins og frá honum var gengið 14. febr. sl.
    Ég held að menn ættu að taka eftir þessu og bera það saman við þær túlkanir sem hæstv. utanrrh. hafði uppi varðandi þennan þýðingarmikla þátt málsins.
    Ég hef lagt fram á Alþingi í dag fsp. til hæstv. ráðherra varðandi úrskurði dómstóls Evrópubandalagsins og EES-samninginn í því sambandi, þ.e. það sem snertir 6. gr. samningsins þar sem verið er að binda okkur Íslendinga, eins og önnur EFTA-ríki, við alla úrskurði EB-dómstólsins sem fallið hafa frá byrjun, 1957 eða 1958 til 14. febr. 1992. Eins og segir í þessari grein, með leyfi forseta:
    ,,Með fyrirvara um þróun dómsúrlausna í framtíðinni ber við framkvæmd og beitingu ákvæða samnings þessa að túlka þau í samræmi við úrskurði dómstóls Evrópubandalaganna sem máli skipta og kveðnir hafa verið upp fyrir undirritunardag samnings þessa . . .  ``
    Það er nú ekkert minna. Það er allt dómasafnið sem getur varðað þetta samningssvið. Ég spyr hæstv. utanrrh. og bið um skriflegt svar sem væntanlega berst okkur fljótlega: Hvaða athuganir og úttektir hafa verið gerðar á vegum íslenskra stjórnvalda eða EFTA á úrskurðum EB-dómstólsins frá upphafi, samanber 6. gr. EES-samningsins?
    Í öðru lagi: Með hvaða hætti verða þessir úrskurðir kynntir Alþingi og almenningi áður en umræða hefst á þingi um EES-samninginn?
    Auðvitað ættu þessar upplýsingar að liggja fyrir á Alþingi á íslensku, vönduð úttekt á þessu dómasafni öllu saman áður en hæstv. utanrrh. skuldbindur Ísland þjóðréttarlega með undirskriftinni undir þennan samning. Það er ekki tilvikið. Í rauninni hefur ekkert komið enn þá fram opinberlega, það fullyrði ég, að því er snertir þetta stóra svið sem getur þó skipt algjörum sköpum í sambandi við úrslit deilumála og túlkun á þessum samningi á hinum þýðingarmestu sviðum.
    Svona er undirbúningurinn í hinum mikilsverðustu málum að því er þennan samning varðar. Það er á mörgum sviðum. Ég hef borið fram fleiri fyrirspurnir og það hafa komið svör við nokkrum þeirra um svið sem af sumum eru kannski talin jaðarsvið í sambandi við þetta stóra mál. Ég vil aðeins nefna fáein atriði sem þar eru á ferðinni. Ég hef t.d. borið fram fyrirspurn til dómsmrh., sem er órædd hér á þingi, um áhrif EES-samningsins á innflutning og sölu áfengis. Þau mál komu einmitt til umræðu hjá hv. síðasta ræðumanni og þeir köstuðu einhverju á milli sín, hæstv. ráðherra og hann, í þessu máli. Við heyrðum það í ræðu hæstv. utanrrh. áðan að hann teldi að það væri tryggt að Áfengisverslun ríkisins gæti haldið einkaleyfi sínu og verið rekin með þeim hætti sem nú er þrátt fyrir þennan samning. Ég vil aðeins nefna í þessu sambandi að að mati aðila í Noregi sem hafa farið ofan í þetta mál er allt önnur túlkun uppi. Að vísu ekki af hálfu norska utanríkisráðuneytisins, það lætur svipað frá sér fara og hæstv. ráðherra, en það má lesa í EFTA-tíðindum, m.a. frásagnir úr Aftenposten sem ég hef hér: ,,EES brýtur gegn einokun [monopoli] á áfengi.``
    Sama er að finna í öðru eintaki þar sem það er rakið sem mat löglærðra manna sem fara ofan í málið og fullyrða að spurningin um þetta muni falla undir 37. gr. Rómarsáttmálans ef á reyndi. Svo koma menn hér léttúðugir og fullyrða eitthvað allt annað að óathuguðu máli. En ég spyr hæstv. ráðherra: Hvar liggur fyrir sú lögfræðilega úttekt á þessu atriði sem snertir auðvitað mjög stefnuna í áfengismálum hér á landi og hlýtur að varða marga? Hvar liggur það mat fyrir?
    Ég spurði hæstv. heilbrrh. tveggja spurninga. Önnur þeirra var tengd skyldu sviði, þ.e. áhrifum af þessum samningi á ávana- og fíknilyf, dreifingu þeirra og neyslu í landinu. Svarið liggur fyrir á þskj. 801 og ég bið menn um að fara yfir það. Það er ekki verið að gera mikið úr því að hætta sé á því að hér verði meira framboð og óheftara á ávana- og fíknilyfjum í kjölfar EES-samninga. En hvert er mat manna í Noregi á þessu sama sviði? Einmitt þar kemur fram hjá aðilum sem hafa verið að fara ofan í þessi mál að EES-samningur valdi aukinni hættu í sambandi við neyslu slíkra lyfja.
    Menn ættu að skoða inn í krókana á þessu máli. Frjáls vörudreifing, óhindruð og óheft, tengd við ákvæðin á sviði fjárfestinga og búseturéttar, leiðir af sér hluti sem mönnum eru duldir við fljóta athugun þessa máls.
    Virðulegur forseti. Það eru mörg fleiri svið sem þyrfti að ræða. Ég ætlaði að víkja að einu sviði sem hefur allt of lítið verið rætt í þessu samhengi sem varðar umhverfismálin. (Forseti hringir.) Ég ætla ekki að fara langt út á það eða ganga hér á tíma, en ég vek athygli á því að náttúruverndarsamtök Noregs með 60.000 meðlimi hafa látið gera vandlega úttekt á þessu máli, á áhrifum EES-samnings á umhverfismál og umhverfisvernd. Niðurstaðan er sú að það eru yfirgnæfandi neikvæð áhrif sem vænta má og þessi fjölmennu almannasamtök í Noregi hafa tekið afstöðu gegn þessum samningi.