Samningur um Evrópskt efnahagssvæði og þingleg meðferð hans

128. fundur
Þriðjudaginn 28. apríl 1992, kl. 16:35:46 (5640)

     Steingrímur Hermannsson :
    Herra forseti. Ég bjóst að vísu við því að fleiri kæmu upp áður en ég kæmi í ræðustólinn aftur en þar sem svo er ekki skal ég koma að nokkrum þeim atriðum sem voru í svarræðu hæstv. utanrrh. og e.t.v. nokkrum fleiri atriðum sem ég sleppti í minni fyrstu ræðu. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir svörin en hlýt þó að taka undir með ýmsum öðrum sem hafa talað að þar þótti mér mörgu ábótavant.
    Hæstv. utanrrh. sagði að fyrirvörum væri öllum skilað en sjálfur viðurkenndi hann, eða a.m.k. heyrði ég ekki annað í því sem hann sagði þar á eftir, að a.m.k. ýmsu á því sviði væri ólokið. Það er alveg hárrétt hjá hæstv. utanrrh. að fyrirvari um full yfirráð Íslendinga yfir fiskveiðum og frumvinnslu sjávarafurða er í höfn. Af hverju er hann í höfn? Hann er í höfn vegna þess að ég flutti frv. á síðasta Alþingi um fjárfestingar erlendra aðila í íslensku efnahagslífi þar sem skýrt er tekið fram að erlendir aðilar hafi ekki heimild til að fjárfesta í íslenskri útgerð og frumvinnslu. Ég hef satt að segja ekki orðið var við að aðrir fyrirvarar séu í höfn. Reyndar sagði hæstv. ráðherra að um orkulindirnar þyrfti enn að setja lög. Það er alveg hárrétt. Hv. 1. þm. Norðurl. v. hefur út af fyrir sig svarað þeim ásökunum sem hæstv. ráðherra var með í garð okkar framsóknarmanna í þessu sambandi. Framsfl. gerði athugasemdir við það frv. sem undirbúið var á síðasta þingi en lagðist alls ekki gegn því að slíkur einkaréttur væri tryggður. Hitt er svo annað mál að þar þurfti m.a. að athuga betur, og þarf eflaust enn, ákvæði stjórnarskrárinnar um eignarrétt. En þarna er fyrst og fremst um að ræða réttinn til að nýta þennan jarðhita. Alveg eins og í lögum er réttur hins opinbera til að virkja fallvötn sem gefa yfir 2.000 kílóvött má skilgreina í lögum slíkan rétt til að virkja jarðhita fyrir neðan ákveðna dýpt og yfir ákveðinni orku. Svo ég er þeirrar skoðunar að það sé auðvelt ef vilji er fyrir hendi að setja lög sem allir geta fullkomlega sameinast um. Mér heyrðist hins vegar hæstv. ráðherra telja að í þeim lögum þyrfti að vera fjölmargt fleira sem ég skal ekki segja á þessari stundu hvort samkomulag næst um eins og yfirráð yfir almenningi o.s.frv. sem lengi hefur verið deilumál og er að sjálfsögðu óskylt því sem hér um ræðir.
    Hæstv. ráðherra viðurkenndi einnig að það liggja ekki fyrir neinar girðingar, eins og nú er gjarnan kallað, sem koma í veg fyrir að erlendir aðilar geti eignast hér hlunnindajarðir eða land í stórum stíl og sem er umfram það sem eðlilegt er til að setja á stofn fyrirtæki sem leyfð eru. Mér kom satt að segja nokkuð á óvart það sem hæstv. ráðherra taldi í þessu sambandi eins og t.d. ákvæði um búsetu á jörðum. Nú eru fjölmargar jarðir hér ekki setnar og vekur vitanlega upp spurningar um hvernig með þær jarðir verður farið. En hann minntist hins vegar ekkert á ákvæði, sem t.d. Írar hafa sett í sín lög, um búsetu í landinu í ákveðinn árafjölda. Ég hygg að í Írlandi sé krafist sjö ára búsetu auk ábúðar á jörðum.
    Mér virðist, af því sem hæstv. ráðherra sagði, að lítið hafi verið í þessu unnið. Þó vil ég meta það að þetta er í fyrsta sinn sem ég hef fengið einhver svör um hvað líður þeim undirbúningi sem nauðsynlegur er til að setja slíkt frv. og sem hæstv. ráðherra hefur m.a. gagnrýnt að ekki skyldi vera gert í síðustu ríkisstjórn og að nokkru leyti með réttu. Við náðum því ekki að ljúka gerð þeirrar girðingar, ef ég má kalla það svo. Þarna eru þegar mjög stórir fyrirvarar sem hefur ekki verið skilað, eru ekki í höfn, þ.e. um orkulindirnar og hvort sem menn vilja kalla það hlunnindajarðir eða umtalsverða landeign.
    Um yfirþjóðlegar stofnanir má eflaust lengi deila. Ég hygg að það sé út af fyrir sig rétt hjá hæstv. ráðherra að meirihlutaákvarðanir EES-ráðsins eru einkum um tæknileg atriði sem vel má vera að erfitt sé að vísa til einstakra þjóðþinga. Það er út af fyrir sig rétt hjá hæstv. ráðherra. Ég hef kynnt mér þessi mál nokkuð en vildi gjarnan heyra hvernig hann túlkar sum þessi ákvæði. Hins vegar sýnist mér miklu óljósara í raun hvort tilskipanir EB eða úrskurðir dómstólsins, þ.e. EB-dómstólsins, verða de facto, verða í raun ráðandi innan alls EES. Hæsv. ráðherra svaraði ekki beinlínis eða lýsti ekki áliti sínu á þeirri lýsingu sem talsmaður Evrópuráðsins, Van der Pas, gaf sjálfri utanríkismálanefnd Evrópuþingsins. Hins vegar var allt annar tónn í því sem kom fram í ræðu hæstv. ráðherra, allt annar en í orðum Van der Pas, sem sagði, eins og ég las áðan í þeim tilvitnunum sem ég fór yfir, skýrt og skilmerkilega að í raun væri aðeins ein stoð í þessu EES-samkomulagi. Mér þótti mjög miður að sjá ræðu Van der Pas því það er rétt, sem hæstv. ráðherra sagði, að ég styddi það að ganga til þess samkomulags í þeirri góðu trú að báðir aðilar væru jafnir. Ég get ómögulega séð það af lýsingu sem þessi háttsetti embættismaður gefur að svo sé. Þar er beinlínis gert lítið úr, ef ekki gert gys, að hlut EFTA-ríkjanna í þessu EES-samkomulagi, því miður. Það er afar illt. Og ég er sannfærður um það að ef slíkt hefði komið fram hér á landi hefði hæstv. utanrrh. verið fljótur til og krafist skýringa af þeim manni sem slíka lýsingu hefði gefið. Ég held að það væri full ástæða til þess áður en skrifað verður undir í Portúgal að hæstv. utanrrh., sem hefur eintak af þessari ræðu eða þessari skýrslu, taki málið upp þar og spyrji hverju sæti að háttsettur starfsmaður Evrópuráðsins gefi slíka lýsingu á þeim samningi sem hann í góðri trú, vil ég vona og trúi, hefur gert.
    Ég held að fleirum hljóti að bregða í brún þegar þeir lesa þá lýsingu sem þarna er og gera sér grein fyrir, ef satt er, því sverði sem á að hanga yfir höfði EFTA-ríkjanna samkvæmt lýsingu þessa embættismanns.
    Mér sýnist því því miður að ýmsir af þessum fyrirvörum séu ekki komnir í höfn og hafi ekki skilað sér. Það er þungt að þurfa að þola það að hæstv. utanrrh. skrifi undir samninginn og skuldbindi hæstv. ríkisstjórn þar með, eins og hér hefur komið fram, án þess að þessir hlutir liggi fyrir og við höfum getað fengið að sjá þá og fullvissa okkur um það á hinu háa Alþingi að þeir séu fullnægjandi. Ég tel það ekki vinnubrögð sem unnt er að mæla með.
    Ég gat ekki í fyrri ræðu minni komið inn á liðinn um breytingar á EES-samningnum í tvíhliða samning, eins og ég hefði viljað, þegar og ef EFTA-ríkin gerast aðilar að EB. Ég vildi gjarnan fara um það nokkrum orðum. Því miður hefur hugsanleg umsókn um aðild að EB tengst þessu máli. Ég segi því miður, því hún hefur mjög spillt fyrir allri meðferð málsins. Ég vil hins vegar trúa því sem hæstv. forsrh. hefur sagt að umsókn um aðild EB sé ekki á dagskrá og ég treysti því, ég vil láta það koma skýrt fram, að hann fái ráðið því en ekki hæstv. utanrrh. og ungir jafnaðarmenn að sótt verði um aðild að Evrópubandalaginu. Ég er sannfærður um að ef það yrði gert yrði fóturinn fljótlega kominn í þá gildru að hann yrði ekki til baka dreginn.
    Það er vitanlega alrangt hjá hæstv. utanrrh., og tengist þessu máli að vissu leyti, að ekki hafi orðið gífurlega miklar breytingar bæði á EB og EFTA frá því að við ákváðum að ganga til samninga um EES. Þetta var rakið áðan af hv. 8. þm. Reykn. og vísaði hann þar til ítarlegrar skýrslu hæstv. utanrrh. þar sem stór kafli fjallar um EB af einhverjum ástæðum. Þótt við séum ekki aðilar að EB þá fjallar stór kafli, margar síður, í skýrslu utanrrh. um EB, kannski af einhverri innbyggðri ást á því fyrirbæri. En hvað um það. Þar hefur, eins og hæstv. ráðherra hefur lýst, orðið gífurleg breyting með Maastricht-samkomulaginu. Það stefnir allt, ekki í bandalag, heldur í samruna þjóða. Það er viðurkennt. Það er dálítið merkilegt að hér á landi skuli ekki hafa verið rætt um þær upplýsingar sem komu fram í dönskum blöðum að fram undan væru

mjög róttækar breytingar á Evrópubandalaginu sem fælust í því m.a. að útiloka litlu ríkin frá þátttöku í ákvörðunum, eða a.m.k. í neitunarvaldi, hætta að þýða ýmislegt yfir á slík tungumál. Ég man ekki betur en að í Politiken sé sagt að þessar upplýsingar muni koma fram ítarlegar í júní.
    Ég ætti kannski ekki að þurfa að vera að rekja þessa hluti hér af því, eins og ég sagði áðan, að hæstv. forsrh. hefur hafnað því að sótt verði um aðild að EB. En engu síður virðist það þó búa undir orðum og gerðum sumra ráðamanna og ekki síst sumra sérfræðinga að þetta beri að athuga. Þarna er vitanlega að gerast sú breyting í EB sem í raun og veru gjörbreytir líka annarri stoðinni svokallaðri þess EES-samnings sem verið er að ganga til. Og svo að sjálfsögðu hefur EFTA gjörbreyst því allar þjóðir EFTA nema Íslendinga og Liechtenstein hafa lýst því yfir að þær sjái sér ekki annað fært en að sækja um aðild að EB hvort sem það verður samþykkt hjá þeim öllum eða ekki. Einhverjar vöflur munu vera komnar á suma í því sambandi og skil ég það vel. Þetta eitt hefur gjörbreytt öllum grundvallareiginleikum þessa samnings. EFTA-ríkin ganga því miður ekki heilsteypt til samningsins lengur. Það hefur margsinnis komið fram. Í raun og veru kom þetta fram þegar, t.d. í síðustu ríkisstjórn, gagnvart Austurríki. Við urðum báðir varir við það á alþjóðlegum fundum að Austurríki vildi helst stökkva yfir þennan áfanga og fá beina aðild að EB en fékk það ekki. Að sjálfsögðu hefur allt breyst mikið eftir að önnur EFTA-ríki hafa ákveðið að taka þetta sama skref, breyst mjög mikið. Svo þarna hafa orðið slíkar grundvallarbreytingar og ég sé ekki betur en það lýsi sér mjög í því sem Van der Pas útlistar með þeim skýringum sem hann gefur utanríkismálanefnd EB-þingsins að samningurinn sé orðinn nánast einhliða, þ.e. stoðin sé ein en EFTA sé aðeins orðin hækja.
    Ég tel því að það sé mjög vítavert að á sama tíma og aðrar EFTA-þjóðir hafa þegar hafið viðræður við Brussel um aðildarumsókn skuli ekki vera kannað af hálfu íslenskra stjórnvalda hvort þessi samningur okkar getur orðið --- ekki áfangi inn í EB heldur áfangi að tvíhliða samningi við EB. Ég sagði í umræðu fyrr í vetur þegar þessi samningur strandaði eitt sinn að við Íslendingar ættum að taka upp tvíhliða viðræður vegna þeirra breyttu aðstæðna sem væru orðnar og mér sýnist allt benda til þess að það sé rétt. Ég er sammála því að menn eiga ekki að hlaupa frá þessum samningi. Ef hægt er að ná öllum fyrirvörum og tryggja sig í bak og fyrir þá getur vel komið til greina að gera þennan samning, alveg sérstaklega að sjálfsögðu ef hann er samþykktur í þjóðaratkvæðagreiðslu sem ég ætla að koma að hér síðar. En í mínum huga er orðið mjög tímabært að gera sér glögga grein fyrir því hvaða breytingar þarf að gera og hvort unnt er að gera þær breytingar. Mér þóttu svör hæstv. utanrrh. við því afar haldlítil og alls ekki taka á kjarna málsins. Hann sagði í gamansömum tón að við Íslendingar yrðum orðnir einir í dómnum og við Íslendingar yrðum orðnir einir í eftirlitsstofnuninni. Það er alveg hárrétt. Og það sem er rétt í þessu hjá hæstv. utanrrh. er að þessi kafli samningsins yrði að gerbreytast. Ég hefði gjarnan viljað vita og vil reyndar hvetja hæstv. utanrrh. til þess að hann kanni nú þegar, t.d. áður en hann skrifar undir í viðræðum sínum við utanrrh. og ráðamenn Evrópubandalagsins, hvort þeir sjái á þessu stigi eitthvað því til fyrirstöðu að þessi samningur breytist í tvíhliða samning með þeim nauðsynlegu breytingum á eftirlitsstofnun, dómstóli og úrkurði deilumála sem hlýtur að þurfa að gera þegar um samning á milli tveggja þjóða er að ræða. Ég tel satt að segja fullvissu um að þetta sé hægt hvað mikilvægasta nú þegar við metum hvort ganga eigi til þessa samnings.
    Ég get út af fyrir sig tekið undir með leiðarahöfundi Morgunblaðsins frá 13. okt. sem segir, með leyfi forseta: ,,Þátttaka í Evrópsku efnahagssvæði ræður engum úrslitum um afkomu okkar Íslendinga. Við komumst af án þess.`` Þetta er alveg hárrétt hjá leiðarahöfundi Morgunblaðsins. En ég verð hins vegar að taka undir það með hæstv. utanrrh. að það kann að vera, ég segi kann að vera, að þrýstingurinn á aðild að EB verði enn meiri ef við erum fullkomlega fyrir utan og njótum ekki þeirra tollfríðinda sem t.d. Norðmenn koma að sjálfsögðu til með að njóta og ekki síst þegar þeir eru orðnir aðilar að EB. Það kann að vera að skammsýnir menn hugsi ekki eins og leiðarahöfundur Morgunblaðsins og telji að fyrir okkur sé það lífsspursmál að komast inn fyrir þessa tollmúra. Ég endurtek: Ég er ekki þeirrar skoðunar. Ég held að við eigum marga markaði og góða fyrir okkar sjávarafurðir en ég tel hins vegar að góður samningur og vel frágenginn í bak og fyrir með öllum fyrirvörum og ekki einhliða, þ.e. ekki þannig að framtíðarákvarðanir EB hafi áhrif á okkur og verði okkur til góðs ef við höfnum því sem við ekki viljum en tökum því sem við teljum vera gott án þeirra hótana sem felast t.d. í lýsingum Van der Pas. Ég tel að ef ætti að gera slíkan samning og ef unnt er að tryggja að hann verði áfangi að tvíhliða samningi þá fyrst kunni að vera töluvert unnið við þennan samning. Þess vegna tel ég að könnun á þessu atriði sé afar mikilvæg einmitt á þessari stundu.
    Ég var að fá í hendurnar fréttaskeyti sem gefur til kynna að alls ekki séu öll kurl komin til grafar. Það kemur t.d. fram í fréttaskeyti frá Ritzau að í Noregi þar sem utanríkismálanefndin fer með málið --- það kemur skýrt fram að það er utanríkismálanefndin, utanríkismálanefnd norska stórþingsins, sem fer með forræði EES-umræðunnar þar --- undirbýr sig með kynnisferð í höfuðborg EB í Brussel í dag. Hún hélt blaðamannafund um það áðan og frá því er nákvæmlega skýrt. Það er alveg ljóst að þessi þing ætla að taka málið eins og alvörumálum ber að taka og ætla að kynna sér þau í bak og fyrir. Ég tel einmitt að íslenska utanrmn. þurfi að gera svipað. Hún þarf að kanna allar hliðar þessa máls og ef hæstv. utanrrh. hefur ekki þegar kannað möguleika á að breyta þessum samningi þá teldi ég það mjög viðeigandi að við svipað og Norðmenn heimsæktum nú Brussel og við þingmenn ræddum sjálfir við ráðamenn þar einmitt um

hluti eins og t.d. hugmyndina um það að breyta þessum samning í tvíhliða samning. Er einhver fyrirstaða fyrir því? Ég mun ræða þetta í utanrmn. á næsta fundi hennar. Reyndar kemur fram í öðru fréttaskeyti, frá Reuter, að menn eru farnir að efast um að það náist að skrifa undir samninginn á laugardaginn því að enn munu standa deilur um magnflutninga um Alpana, þ.e. Austurríkismenn hafa ekki viljað samþykkja svo mikla flutninga sem þar er farið fram á og þar segir talsmaður EB í þýðingu minni: ,,Á þessari stundu get ég ekkert sagt um það hvort samningurinn verður undirritaður.``
    Ég veit satt að segja ekki hvers vegna við erum að flýta okkur svona mikið. Ég lít á undirskrift samningsins allalvarlegum augum og, eins og komið hefur fram hjá öðrum ræðumönnum, þar með er ríkisstjórnin að setja sitt lóð sem slík á vogarskálina. Hún bindur sig með því að skrifa undir og ég er þeirrar skoðunar að hæstv. utanrrh. og forustumenn EFTA hefðu átt að leggjast gegn því að undir samninginn væri skrifað nú af þeirri einföldu forsendu sem m.a. kom fram í ágætri ræðu hjá hæstv. utanrrh. á EB-fundi sem haldinn var hér á Hótel Sögu þar sem kvað við allt annan tón en svo hér í Alþingi skömmu síðar. Þar kom fram að í raun væri tíminn að hlaupa frá okkur vegna þess að við þyrftum mikinn tíma til umræðu um samninginn og þinglegrar meðferðar á samningnum.
    Hæstv. utanrrh. sagði í upphafi síns máls að umræðan væri í raun óþörf. Ekki hefur mér fundist það af þessari umræðu sem hér hefur orðið. Menn verða að gæta að því að við erum ekki aðeins að hefja þessa umræðu okkar sjálfra vegna. Við erum að hefja þessa umræðu til þess að upplýsingar um þennan samning megi komast til þjóðarinnar og ég er þeirrar skoðunar að hæstv. utanrrh. ætti að þakka okkur fyrir að hann hefur fengið tækifæri til þess að skýra sín sjónarmið sem ég vil síður en svo að gera lítið úr. Þau eru hans og þó að mér sýnist því miður hæstv. utanrrh. orðinn of mikill fangi þeirrar gerðar sem hann hefur staðið að, þ.e. gerð þessa samnings, þá á hann að sjálfsögðu rétt á sínum skýringum og er nauðsynlegt að þær komi fram. Ég tel því að þessi umræða hér sé mjög þörf og ég er þeirrar skoðunar sem ég sagði reyndar við umræðu um þáltill. þá sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson er 1. flm. að og ég stend að líka að nú væri mikilvægast í þessu máli öllu að kynna það nægilega vel fyrir þjóðinni, kynna það hlutlaust fyrir þjóðinni, gera henni grein fyrir kostum þess og göllum, gera henni grein fyrir því hvert framhaldið gæti orðið, fyrir þeim breytingum sem verða þegar aðrir ganga inn í EB o.s.frv. Og ég er þeirrar skoðunar að til þess eigum við að nota sumarið.
    Ég heyri miklar efasemdir víða um það að meðferð þessa samnings verði lokið fyrir áramótin. T.d. eiga Svisslendingar eftir að fjalla um hann í þjóðaratkvæðagreiðslu og þær taka mikinn tíma og jafnvel eru einhverjar efasemdir komnar upp hjá Svíum svo að ég vil segja það að lokum að við skulum ekki flýta okkur um of. Við skulum fjalla um málið mjög ítarlega í utanrmn. og þeim öðrum nefndum þingsins sem samninginn fá til meðferðar. Við skulum skoða hvert atriði hans. Við skulum krefjast svara frá Brussel við öllum þeim vafaatriðum sem við kunnum að hafa. Við skulum skoða framtíðina. Við skulum ekki hugsa til eins eða tveggja ára sem í raun og veru er verið að gera með þessum samningi. Þetta er skammtímasamningur. Við skulum hugsa til lengri tíma og hugsa til þess hvernig við getum treyst fullveldi og sjálfstæði þjóðarinnar í heimi sem er mjög að breytast og breytist mjög hratt.