Samningur um Evrópskt efnahagssvæði og þingleg meðferð hans

128. fundur
Þriðjudaginn 28. apríl 1992, kl. 16:59:37 (5641)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Ég held að það hafi reyndar legið fyrir og sannast enn betur í þessari umræðu í dag að það var nauðsynlegt og óhjákvæmilegt að Alþingi tæki þetta mál til umræðu nú áður en laugardagurinn 2. maí rennur upp og satt best að segja furðulegt að menn skuli hreyfa efasemdum um að ástæða sé til þess að Alþingi bæði nú og á næstu vikum verði með þetta mál á dagskrá sinni meira og minna samfellt.
    Það er ekki síst nauðsynlegt að mínu mati að ræða málsmeðferðina, hvernig Alþingi fer með málið og þær aðstæður sem uppi eru einmitt nú til þessa samnings. Það liggur í hlutarins eðli að hér eru ekki aðstæður til að fara út í efnislega umræðu um samninginn, enda bíður það í sjálfu sér betri tíma. Það sem mestu máli skiptir held ég er að ræða stöðuna í málinu nú, væntanlega undirritun hæstv. utanrrh. undir samninginn fyrir hönd ríkisstjórnar nk. laugardag og aðra þætti málsins sem lúta beint að stöðu þess nú og meðferð þess á næstu vikum.
    Ég vil í þessu sambandi byrja á því að ræða það lítils háttar hvað það er í raun og veru sem þarna stendur til að fara að undirrita borið saman við það sem lagt var upp með. Hæstv. utanrrh. reyndi að mínu mati á ákaflega ódýrum forsendum að gera lítið úr öllum spurningu og röksemdum sem leiddar voru fram til þess að spyrja og sýna fram á að sá samningur sem til stendur, að manni skilst, að undirrita nk. laugardag er allt annað en það sem lagt var upp með í byrjun, allt annað en upphaflegar samningskröfur Íslendinga og þeir fyrirvarar sem settir voru fram af okkar hálfu í byrjun þessa viðræðuferlis. Hin svonefnda tveggja stoða lausn, það að búa til samning úr tveimur jafnréttháum málsaðilum sem stæðu á tveimur traustum stoðum, Evrópubandalagsins annars vegar og EFTA-ríkjanna hins vegar, sú hugmynd er hrunin til grunna. Það liggur fyrir að það sem hér er verið að undirrita er, af öllum nema einum eða tveimur samningsaðilum EFTA-megin frá, einungis bráðabirgðalausn. Það liggur fyrir áður en utanríkisráðherrar hinna EFTA-ríkjanna setja stafi sína undir samninginn að þeir eru eingöngu að undirrita hann sem bráðabirgðaástand fyrir hönd sinna þjóða. Þar hafa menn tekið ákvörðun um að ganga í Evrópubandalagið og það var ljóst á síðari hluta síðasta árs svo að ég tali nú ekki um núna á síðustu mánuðum að hinar EFTA-þjóðirnar höfðu meira og minna misst áhugann á þessum samningi að Sviss þá helst undanskildu að öðru leyti en því sem hann væri áfangi á leið þeirra inn í Evrópubandalagið. Það t.d. varð alveg ljóst þegar Svíar söðluðu mjög skyndilega um frá því að vera sú EFTA-þjóðin sem var með langa lista af fyrirvörum og undanþágum í farteskinu í byrjun samningaviðræðnanna og yfir í það að missa í rauninni allan áhuga á slíku af skiljanlegum ástæðum þegar þeir höfðu tekið um það ákvörðun að hverfa yfir í Evrópubandalagið. Og það hefur aðeins skotið upp kollinum umræða um það í Svíþjóð, merkilegt nokk en ekki hér á Íslandi, að Svíar hafi í raun og veru svikið hinar EFTA-þjóðirnar með því að leika tveim skjöldum í viðræðunum um alllangt skeið hafandi misst á því áhugann í raun og veru að sækja nokkrar sjálfstæðar samningskröfur til handa Evrópska efnahagssvæðisins sem slíks af þeirri ósköp einföldu ástæðu að þeir töldu það ekki svara kostnaði og sneru sér að því og einbeittu öllum kröftum sínum að því að undirbúa inngöngu sína í Evrópubandalagið. Samt vill hæstv utanrrh. ekki aðeins láta eins og ekkert hafi í skorist heldur undirrita eins og ekkert hafi í skorist.
    Hæstv. utanrrh. reynir enn í ræðu sinni í dag að láta sem svo að hann sé í raun og veru að undirrita sambærilegan gjörning og þann sem til stóð að sækja í upphafi, búa til á grundvelli tveggja stoða hugmyndarinnar. Og maður hlýtur að spyrja sig að því hvað valdi þessari afstöðu hæstv. utanrrh. Tvennt virðist fyrst og fremst koma til greina. Það fyrra hefur auðvitað verið nefnt, að það sé fyrst og fremst orðið slíkt pólitískt og persónulegt keppikefli hæstv. utanrrh. að undirrita, eins og þeir hafa verið hallir undir, hæstv. ráðherrar Alþfl. að undirrita jafnvel í algeru tilgangsleysi, eins og frægt er orðið, að hæstv. utanrrh. kjósi að reyna að blekkja bæði sjálfan sig og aðra með því að hann sé enn að undirrita hinn gamla, góða EES-samning á tveimur stoðum sem til stóð að gera. Og þannig sé það að pólitískur og persónulegur áhugi hæstv. utanrrh. ráði meiru í huga hans heldur en gæta og sækja langtímahagsmuni Íslands því að það er hann auðvitað ekki að gera með því að undirrita þetta skammtímaplagg. Er ég þá ekki að taka þá afstöðu til innihaldsins heldur eingöngu þeirrar staðreyndar að hann ætlar að undirrita þennan skammtímagjörning, setja kíkinn upp að blinda auganum og láta sem hann sjái ekki þá staðreynd að hér er um hreinan skammtímasamning að ræða.
    Annaðhvort er það þetta sem veldur þessari ógæfulegu framgöngu hæstv. utanrrh. eða hitt að hann hugsar sér eitthvað annað í framhaldinu en hann lætur hér uppi að tveimur, þremur eða fjórum árum liðnum. Það verður að þora að ræða um hlutina eins og þeir koma manni fyrir sjónir og ég get ekki neitað því og get ekki leynt því að það leitar æ oftar á mig: Eru einhverjir ósagðir hlutir í sambandi við það að þennan samning á að undirrita og forðast að ræða þá augljósu staðreynd að hér er verið að tjalda til einnar nætur. Hvað á að gera þegar tjaldið fýkur, hrynur eða fellur að tveimur, þremur, fjórum árum liðnum? Hvers vegna er sú umræða ekki tekin upp nú? Ég held að hæstv. utanrrh. verði, ef hann vill reyna með einhverjum málefnalegum hætti að ræða þessa hluti og opinskátt, að gera það með einhverjum myndugri hætti en hann gerði áðan. Íslenska þjóðin er það upplýst og vonandi við hv. alþm. einnig að við krefjumst þess að umræðan sé ekki á jafnódýrum nótum og hæstv. utanrrh. reynir hvað þetta atriði málsins snertir að hafa hana, sem sagt að forðast að ræða þessa staðreynd, þessa stöðu sem þarna er komin upp. Að EES-samningurinn nú er allt annað annað en lagt var upp með í þessum skilningi en einnig hvað innihaldið snertir. Þeir sem ekki vilja trúa því ættu að taka ræðu hæstv. þáv. forsrh. frá því í mars 1989 sem flutt var í Ósló og bera hana og þá fyrirvara og þær kröfur sem þar voru settar fram fyrir Íslands hönd saman við samninginn. Og þeir sem þetta gera geta varla orðið í miklum vafa um það að niðurstaðan er allt önnur en lagt var upp með.
    Í þriðja lagi er auðvitað óhjákvæmilegt að nefna og ræða í samhengi við þetta mál þær breytingar sem eru að verða á högum eða eðli viðsemjandans, þ.e. Evrópubandalagsins sjálfs. Mér hefur fundist verulega á það skorta að reynt væri að ræða í samhengi við þennan samning og stöðu hans nú þá þróun sem er í gangi innan Evrópubandalagsins, niðurstöðuna þar eftir samninga í Maastricht og þá umræðu sem í gangi er á vettvangi Evrópubandalagsins um breytta stjórnskipun þess. Nú veit ég ekki hvort hæstv. utanrrh. finnur upplýsingar um þetta í The Economist sem hann er að lesa en vonandi heyrir hann það sem verið er að ræða við hann.
    Hefur hæstv. utanrrh. eitthvað að segja okkur sem honum finnst skipta máli og eðlilegt er að taka til umfjöllunar í þessu sambandi og varðar þær breytingar sem eru að verða á Evrópubandalaginu sjálfu og umræðuna sem þar fer nú fram um breytta stjórnskipun bandalagsins, ekki síst ef aðildarríkjum þess á að fjölga á næstu árum? En það er alveg ljóst að stórþjóðirnar þar munu illa sætta sig við að fleiri þjóðir bætist í safn Evrópubandalagsþjóðanna að óbreyttri stjórnskipan þannig að stórþjóðirnar fái í þeim skilningi enn sjaldnar að halda um stjórnartaumana og fleiri smáríki af stærð Íslands Lúxemborgar, Möltu, Noregs eða annarra slíkra kæmu til með að hafa jafngilda stöðu hvað snertir forræði fyrir málum Evrópubandalagsins og fara með stjórnartauma þar í bland við stórþjóðirnar.
    Auðvitað er óhjákvæmilegt að líta einnig á niðurstöðuna sem nú blasir við í þessum samningum, í hverju hún er breytt frá því sem upplýst hefur verið á fyrri stigum málsins. Ég tel t.d. að það sé enn mikið verk óunnið í því að fara ofan í hverjir hinir raunverulegu hagsmunir íslensks sjávarútvegs eru samkvæmt niðurstöðu samningsins að svo miklu leyti sem hún liggur fyrir. Ég tel að þar sé mörgum spurningum ósvarað og augljóslega er niðurstaðan að ýmsu leyti lakari en búið var að halda fram. Það vill svo til að ég er með fréttabréf Samstarfsnefndar atvinnurekenda í sjávarútvegi, 8. tölublað árgangsins 1991, í

höndunum og það er umhugsunarefni að þegar það bréf kom út er fjallað um niðurstöðuna eins og menn töldu þá að hún lægi fyrir. Eins og frægt er töldu forsvarsmenn atvinnurekenda í sjávarútvegi sig hafa ótvíræðar yfirlýsingar hæstv. utanrrh. um það. Í bréfinu segir m.a., með leyfi forseta, að í samkomulaginu sé gert ráð fyrir að floti Evrópubandalagsins fái að veiða sem svarar 3.000 tonnum af karfa í íslenskri lögsögu, en í raun aðeins 900 tonn af karfa og ígildi 2.100 tonna af langhala. Þetta var svo borðleggjandi í hugum atvinnurekenda í sjávarútvegi að þeir settu þetta á forsíðu í fréttabréfi sínu á sl. sumri eða hausti og síðan fór sem fór, eins og allir vita.
    Það mat á gildi samningsins fyrir íslenskan sjávarútveg sem ég hef séð, t.d. frá Þjóðhagsstofnun, byggir á miklu eldri upplýsingum en þetta. Mér er ekki kunnugt um að nein ný gögn hafi verið lögð fram um það hverjar hinar raunvegulegu hagsbætur eru sem íslenskur sjávarútvegur gæti átt í gegnum þær tollalækkanir eða niðurfellingar sem þarna eru. Síðast þegar ég frétti lék meira að segja enn stórkostlegur vafi á því um tilteknar tegundir framleiðsluvara hvort þær féllu undir tollfrelsi eða ekki, t.d. síldarflök af mismunandi toga. Þetta eru auðvitað óþolandi aðstæður og ekki gerir það stöðuna betri að sá samstarfssamningur um málefni sjávarútvegs sem á að fylgja þessu og er krafa og forsenda Evrópubandalagsins liggur ekki fyrir. Það þýðir ekki fyrir hæstv. utanrrh. að koma og segja að það skipti ekki máli, að það varði ekki samninginn beint þegar í honum sjálfum er vísað beint í þennan hliðarsamning milli Íslands og Evrópubandalagsins. Skiptir það þá ekki máli varðandi afstöðu til samningsins sjálfs eða er það ekki svo, hæstv. utanrrh., að í þessum samningi milli Íslands og Evrópubandalagsins eigi t.d. að kveða á um skilmála þeirra veiða sem Evrópuflotinn fær innan íslensku landhelginnar? Ákveða þau svæði í íslenskri lögsögu þar sem hann má veiða? Það hélt ég.
    Fjölmargt annað mætti nefna en tíminn leyfir ekki að fara út í það. Ég tel að samningsniðurstaðan sé á margan hátt miklu mun lakari en menn höfðu bundið vonir við og þar mætti nefna til fjölmargt annað en ég hef gert. Veiðiheimildir Evrópubandalagsins eru mönnum auðvitað mikill þyrnir í augum og sú staðreynd að þessi samskipti á að endurskoða á tveggja ára fresti sem þýðir að sjálfsögðu að menn geta verið opnir, fengið á sig kröfur um breytingar á þessum samskiptum.
    Að lokum vil ég svo, herra forseti, nefna að ég er eindregið þeirrar skoðunar, eins og aðrir talsmenn stjórnarandstöðunnar, að þennan samning beri að leggja undir dóm þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er engin leið að halda öðru fram en að samningurinn breyti stjórnskipun Íslands. Hvort það verður niðurstaða fræðimanna að hann brjóti með beinum hætti í bága við tilteknar greinar stjórnarskrárinnar skal ég ósagt látið, en hitt er ljóst að hann breytir stjórnskipun landsins. Hann breytir hlutverki dómstóla, hlutverki Alþingis og hlutverki framkvæmdarvaldsins. Hann breytir því umhverfi sem þessar valdastoðir íslenskrar stjórnskipunar starfa í. Þar með jafngilda þær breytingar að mínu mati og í mínum huga stjórnarskrárbreytingum. Þær eru ígildi stjórnarskrárbreytinga og væru án nokkurs vafa ígildi beinnar stjórnarskrárbreytingar ef íslenska stjórnarskráin væri jafnný og eins útfærð og stjórnarskrár annars staðar á Norðurlöndunum. Þess vegna tel ég, hvað sem öðru líður og hver sem niðurstaða sérfræðinga verður, að leggja skuli þennan samning í dóm þjóðarinnar. Annaðhvort með þjóðaratkvæðagreiðslu sem er auðvitað langeðlilegast, eða með því að breyta íslensku stjórnarskránni til samræmis við niðurstöður samninganna þannig að enginn vafi leiki á að þar séu ekki árekstrar á milli, rjúfa svo að sjálfsögðu þing og boða til kosninga í framhaldi af slíkri stjórnarskrárbreytingu. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á að það sé ætlun hæstv. ríkisstjórnar að keyra þetta mál í gegn án þess að standa að þessum afdrifaríku og örlagaríku breytingum með einhverjum slíkum hætti. ( Forseti: Ég ætla að benda hv. þm. á að hann hefur lokið tíma sínum og óska eftir að hann ljúki ræðu sinni.) Mér er þetta ljóst, herra forseti, enda hefur nýlega kviknað á mér rautt ljóst og ég var akkúrat að ljúka máli mínu. Forseti hefði þess vegna getað sparað sér ómakið að standa upp.
    Ég óska eftir því að hæstv. utanrrh., ef hann á eftir að kveðja sér hljóðs sem ég geri ráð fyrir, svari þessum spurningum sem ég hef lagt fyrir hann og fjalli um þau atriði sem ég hef bætt við í þessa umræðu.