Samningur um Evrópskt efnahagssvæði og þingleg meðferð hans

128. fundur
Þriðjudaginn 28. apríl 1992, kl. 18:43:00 (5652)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Við Íslendingar lútum í vaxandi mæli leiðbeiningum sérfræðinga. Við höfum falið þeim margs konar völd, bannað öðrum að vinna störf sem við teljum að séu svo hættuleg að það sé ekki á annað treystandi en að hafa starfsréttindi til að koma í veg fyrir að einhver afglapi fari að fikta við hluti sem hann hefur ekki þekkingu á. Þetta kannast allir við og við erum með heila herdeild af eftirlitsstofnunum sem senda menn út um allt land til að fylgjast með því að lýðurinn fari að lögum. Allt þetta kerfi höfum við verið að byggja upp með því að samþykkja lög á Alþingi Íslendinga.
    Samt er það svo að nokkur atriði í lögum eru talin svo einföld að sú krafa er gerð til manna að vitsmunir þeirra eigi að duga til þess að taka ákvarðanir í málum. Nú hefur það vafalaust verið svo að stundum eru þessar kröfur of miklar og vitsmunirnir duga ekki til þess að standa undir ákvörðununum. Engu að síður er krafan skýlaus. Ég vil vekja á því athygli að maður sem hefur ekki kynnt sér lögin og segir í réttarsal: Ég vissi þetta ekki, er dæmdur engu að síður. Það er engin afsökun að hafa ekki kynnt sér lögin.
    Nú er það svo með þá sem hér eru inni að þeir hafa allir orðið að vinna eið að stjórnarskránni. Það merkilega við þennan eiðstaf að þar var enginn fyrirvari eins og vit leyfir eða eitthvað því um líkt eða eins og sérfræðingar gera ráð fyrir, enginn einasti fyrirvari. Þess var beinlínis krafist að hver og einn yrði að notast við það vit sem hann hefði. Ég verð að segja eins og er að mér þótti þetta nokkuð stór stund að þurfa að skrifa undir þennan eiðstaf á sínum tíma og kallaði á það að ég læsi stjórnarskrána og stóð mig svo seinna að því að hafa lesið hana illa. En nú kemur í ljós að þeir sem undir þennan eið hafa skrifað varpa bara ábyrgðinni á einhverja fjóra úti í bæ og segja við landslýðinn: Við sem skrifuðum undir þennan eiðstaf á sínum tíma höfum bara ekki hugmynd um hvað það var sem við vorum að samþykkja, en þessir fjórir vita það, þið getið treyst því. Sumir af þessum fjórum höfðu ekki það traust þjóðarinnar fyrir að þeir yrðu kosnir á þing. Þeir höfðu ekki það traust þjóðarinnar, höfðu þó kannski áhuga á því. Þá spyrjum við: Er hægt samkvæmt eiðstafnum að afsala sér á þennan hátt ábyrgðinni, þvo hendur sínar eins og Pílatus gerði forðum þegar hann sendi vandasamt dómsmál beint til Heródesar til úrlausnar og Heródes hafði ekkert upp úr manninum? Frægasta vörn allra tíma var að þegja og gefst vel í réttarsölum enn en hann dæmdi svo um síðir og dæmdi hann eftir lögum sem þá giltu í Ísrael.
    Hér stendur í 2. gr. stjórnarskrárinnar: ,,Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið.`` Þarna er tekið skýrt fram að aðeins tveir aðilar fara með þetta vald: Það er forsetinn og það er þingið. Þetta leiðir hugann að því að til forna var það ákvæði í lögum að þar sem guðs lög og manna greindi á þar skyldu guðs lög ráða. Þótti nú engum mikið miðað við þá samtíð að drottinn fengi einhverju að ráða á jörðinni og hann skyldi ráða þegar guðs lög og manna greindi á. En afleiðingin af þessu var sú að menn stóðu allt í einu frammi fyrir því að drottinn átti ekkert heima á Íslandi, hann var erlendis og hann túlkaði lög guðs erlendis og við töpuðum sjálfstæðinu. Svona getur nú búsetan skipt miklu máli. En hér standa menn frammi fyrir því að allt í einu eru orðnir þrír aðilar sem eiga að ráða lögum á Íslandi. Það er forsetinn, Alþingi Íslendinga og það er EB. Stendur nú hvergi í stjórnarskránni en það er komið þriðja hjól undir vagninn og það merkilega er að völd EB í þessum efnum eiga að vera nákvæmlega þau sömu og drottinn hafði til forna, þ.e. þegar greinir á um íslensku lögin og lögin hjá EB er það EB sem ræður og sama vandamálið: EB er búsett erlendis. Ég vil biðja hæstv. utanrrh. að hafa það sjálfstraust að notast við eigin dómgreind, eigin vitsmuni og eigin ályktunarhæfileika og hugleiða það án aðstoðar nokkurra sérfræðinga hvort þetta geti samrýmst 2. gr. stjórnarskrárinnar. Mér er ómögulegt að sjá að það geti samrýmst henni. Auðvitað veit ég að við eigum eftir að lifa þá daga að þó við stöndum í ausandi rigningu á Austurvelli þá neitum við að trúa því að það sé rigning nema veðurfræðingarnir staðfesti það. En svo langt leiddir erum við ekki enn þá. Í trausti þess að þeir sem sömdu þessa stjórnarskrá og settu þessar fyrirvaralausu kvaðir á þingmenn þjóðarinnar án þess að taka nokkurt tillit til þess að auðvitað eru þeir misjafnlega gerðir hvað gáfur snertir, að þeir ættu að hafa vit til að geta lesið stjórnarskrána og farið eftir henni og sætu uppi með fyrirvaralausa kvöð í þessum efnum að hvaða skoðanir sem menn hafa á samningnum

þá láti menn sér ekki detta í hug að það séu eðlileg vinnubrögð að loka augunum og neita að horfa á það hver texti er í íslensku stjórnarskránni og reyni með því að fela sig á bak við einhverja fjóra og koma sér undan því að bera ábyrgð á því sem þeir eru að gera og þeir eru að leggja til.