Frumvörp um Sementsverksmiðju ríkisins og Síldarverksmiðjur ríkisins

129. fundur
Miðvikudaginn 29. apríl 1992, kl. 13:35:00 (5654)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Á fundi iðnn. Alþingis í morgun gerðust þau fáheyrðu tíðindi að meiri hluti nefndarinnar neitaði ósk minni hlutans um að kalla á fund nefndarinnar fulltrúa Bandalags starfsmanna ríkis og bæja vegna ákvæða í frv. til laga um Sementsverksmiðju ríkisins sem gerir ráð fyrir að breyta mjög verulega kjörum þess fólks sem starfað hefur hjá Sementsverksmiðju ríkisins og hefur verið í samtökum opinberra starfsmanna.
    Frv. um Sementsverksmiðju ríkisins hefur verið til meðferðar á Alþingi nú um nokkurt skeið í iðnn. Menn hafa farið rækilega yfir það og fengið umsagnir frá ýmsum aðilum. Greinilegt er að um er að ræða eitt viðkvæmasta málið sem Alþingi hefur til meðferðar um þessar mundir og snertir ekki aðeins frv. um Sementsverksmiðju ríkisins heldur líka frv. til laga um Staðlaráð Íslands, frv. til laga um Síldarverksmiðjur ríkisins og e.t.v. fleiri mál. Í frv. um Sementsverksmiðju ríkisins segir svo í 4. gr., með leyfi forseta:
    ,,Fastráðnir starfsmenn Sementsverksmiðju ríkisins skulu hafa rétt til starfa hjá hinu nýja hlutafélagi og skal þeim boðið sambærilegt starf hjá félaginu og þeir gegndu áður hjá Sementverksmiðju ríkisins. Ákvæði 14. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, á því ekki við um þá starfsmenn.``
    Meðal álita sem borist hafa um þetta mál er álit frá Almennu málflutningsstofunni hf. þar sem starfandi eru fjórir lögfræðingar. Þeir segja m.a. um þessa tillögu:
    ,,Okkar skoðun er sú að 4. gr. frv. feli í sér óhæfilega skerðingu á lögbundnum starfskjörum þessara umræddu starfsmanna og af þeim ástæðum sé hún andstæð ákvæði 67. gr. stjórnarskrárinnar.``
    Þetta á einnig við frv. um Síldarverksmiðjurnar og frv. um Staðlaráð ríkisins.
    Á fundi iðnn. í morgun óskaði ég eftir því að málinu, frv. um Sementsverksmiðju, yrði frestað til þess að unnt yrði að ræða við fulltrúa Bandalags starfsmanna ríkis og bæja um málið vegna þess að biðlaunaréttur opinberra starfsmanna var eitt meginátakamál þeirra kjarasamninga sem nú eru nýlega gengnir yfir og ríkisstjórnin sendi frá sér tilteknar yfirlýsingar.
    Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar var tekið fram að það væri ekki ætlunin að skerða eða breyta lögum um réttindi opinberra starfsmanna á þeim samningstíma sem hér er um að ræða, eða eins og segir í 6. tölul.: ,,Ríkisstjórnin staðfestir að á samningstímanum verði ekki gerðar breytingar á lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna eða reglugerðum sem settar eru með stoð í þeim lögum. Ekki verða gerðar breytingar á lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna á samningstímanum,`` segir hér líka.
    Á fundi iðnn. í morgun bar formaður iðnn., hv. þm. Össur Skarphéðinsson, það fyrir sig að ríkisstjórnin hefði við undirritun kjarasamninganna gefið út yfirlýsingu með öðru ákvæði. Þar segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Ekki eru á samningstímanum fyrirhugaðar breytingar á ákvæðum laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna hvað biðlaun varðar. Ríkisstjórnin telur hins vegar óeðlilegt að starfsmenn njóti biðlauna auk fullra launa verði formbreyting á rekstri stofnana eða fyrirtækja ríkisins.``
    Þetta ákvæði úr drögum að yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem eru dags. 24. apríl var fellt út að kröfu opinberra starfsmanna í samningsmeðferðinni. Það birtist aldrei sem niðurstaða sem sýnir að það var bein samningsniðurstaða að hafa þar ekki inni að ríkisstjórnin áskildi sér rétt til þess að skerða biðlaunarétt opinberra starfsmanna. Þess vegna er það þannig að ef nú yrði farið út í að skerða þennan rétt með þeim frumvörpum sem eru til umræðu, er augljóslega verið að koma aftan að samningsniðurstöðunni sem átti sér stað á síðustu dögum áður en svokölluð miðlunar- eða sáttatillaga var samþykkt og send út.
    Hér er um stóralvarlegan atburð að ræða, virðulegi forseti, vegna þess að meiri hluti iðnn. Alþingis og mér skilst einnig sjútvn. er að taka ákvörðun um að blanda sér með beinum hætti í þá atkvæðagreiðslu sem nú stendur yfir um sáttatillögu sáttasemjara. Af þessu tilefni er óhjákvæmilegt að gera kröfu til þess að meiri hluti iðnn. fallist á að kalla þessa aðila, fulltrúa opinberra starfsmanna fyrir, áður en málið er tekið úr nefnd til 2. umr. Einnig er óhjákvæmilegt að það komi alveg skýrt fram í dag eða hið allra fyrsta hver afstaða ríkisstjórnarinnar er. Stendur hún á bak við þessi vinnubrögð meiri hluta iðnn. eða ekki? Ætlar ríkisstjórnin að beita sér fyrir því að brjóta strax, meðan tillögurnar eru til meðferðar í allsherjaratkvæðagreiðslum, rétt á opinberum starfsmönnum? Það lofar ekki góðu um hegðun ríkisstjórnarinnar gagnvart opinberum starfsmönnum á komandi mánuðum þegar þessi mál voru þar til meðferðar.
    Ég fordæmi þessi vinnubrögð, virðulegi forseti, og hvet til þess að meiri hluti nefndarinnar endurskoði afstöðu sína og ríkisstjórnin grípi tafarlaust í taumana.