Frumvörp um Sementsverksmiðju ríkisins og Síldarverksmiðjur ríkisins

129. fundur
Miðvikudaginn 29. apríl 1992, kl. 13:41:41 (5655)


     Össur Skarphéðinsson :
    Virðulegi forseti. Það er hárrétt hjá hv. þm. Svavari Gestssyni að um afar viðkvæmt mál er að ræða. Þess vegna er það svo að í iðnn. þingsins, ég hygg líka í sjútvn., hefur verið tekinn geysilega mikill tími í að þaulræða þetta mál. Fjöldamargir hafa verið kallaðir til til þess að gefa álit sitt á þessum málum.
    Ég tek fram að það er rétt hjá hv. þm. Svavari Gestssyni að þegar við ræddum málið í iðnn. þingsins í morgun var ég með útgáfu af yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar vegna kjarasamninganna sem var eldri en sú endanlega niðurstaða. Ég hafi fengið hana í þeirri góðu trú að þetta væri hin endanlega niðurstaða.
    Hvað varðar ósk hv. þm. Svavars Gestssonar, um að fá fulltrúa BSRB og e.t.v. annarra aðila til viðræðu, er rétt að það komi líka fram að eftir að mér varð þetta ljóst skrifaði ég bréf til félaga í iðnn. þar sem ég lýsti því yfir að ég mundi beita mér fyrir því að fulltrúarnir yrðu kallaðir til fundar við nefndina á milli 2. og 3. umr. þar sem þeir ættu kost á að gefa álit sitt á þessu máli.
    Virðulegi forseti. Að lokum langar mig að geta þess að í þeirri umræddu lagagrein sem er til umræðu og fjallar um biðlaun segir eftirfarandi í lögum nr. 38 14. apríl frá 1954, 1. mgr. 14. gr. og það skiptir talsverðu máli:
    ,,Nú er staða lögð niður, og skal þá starfsmaður jafnan fá föst laun, er starfanum fylgdu, greidd í 6 mánuði frá því að hann lét af starfi, ef hann hefur verið í þjónustu ríkisins skemur en 15 ár, en í 12 mánuði, eigi hann að baki lengri þjónustualdur, enda hafi hann þá ekki hafnað annarri sambærilegri stöðu á vegum ríkisins.``
    Í 4. gr. grein í frv. til laga um stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðjuna er tekið alveg skilmerkilega og fortakslaust a þessu. Þar er sagt, með leyfi forseta:
    ,,Fastráðnir starfsmenn Sementsverksmiðju ríkisins skulu hafa rétt til að starfa hjá hinu nýja hlutafélagi og skal þeim boðið sambærilegt starf hjá félaginu . . .  ``
    Hér er með öðrum orðum kveðið fortakslaust upp úr með það að ekki á að leitast við að bjóða þeim sambærilegt starf heldur skal þeim, það er skipun. Löggjafarsamkundan mun með öðrum orðum, verði frv. að lögum, gefa þá skipun til Sementsverksmiðjunnar að starfsmönnum verði boðið sambærilegt starf. Væntanlega mun þetta fyrirtæki verða við því að bjóða starf sem það telur sambærilegt. Fari svo að viðsemjandinn telji þar ekki um sambærilegt atriði að ræða hlýtur auðvitað að koma til kasta dómstóla að skera úr um þetta viðkvæma atriði.