Frumvörp um Sementsverksmiðju ríkisins og Síldarverksmiðjur ríkisins

129. fundur
Miðvikudaginn 29. apríl 1992, kl. 13:48:57 (5657)


     Páll Pétursson :
    Herra forseti. Hv. formanni iðnn. urðu í morgun á alvarleg mistök við stjórn nefndarinnar þegar hann neitaði að kveðja til aðila sem nefndarmenn óskuðu eftir að þangað kæmu og ætlaði að hespa þetta mál út úr nefndinni. Sem betur fer hefur hann leiðrétt þessi mistök því að fyrir nokkrum mínútum barst mér bréf þar sem hann leiðréttir. Þetta bréf er stílað á nefndarmenn í iðnn. og þar fellst hann á að kalla þá fulltrúa til viðtals við nefndina sem við óskuðum eftir og þar með verður málið ekki afgreitt úr nefndinni strax. Ég lít svo á að hann hafi gert yfirbót. Hann hefur ástundað gott samstarf við nefndarmenn í vetur og ég vil að það komi fram. Ég fyrir mitt leyti hef ekkert yfir hans fundarstjórn að klaga. Ég lít svo á að honum hafi orðið á mikil mistök í morgun og það urðu mér vonbrigði. Mér fannst þetta vera nýlunda í starfsháttum hans. En nú hefur hann annaðhvort tekið leiðbeiningum eða áttað sig og ég treysti því að um frambúðarbata sé að ræða hjá honum. Málið verður væntanlega tekið fyrir aftur á næsta fundi og fær þá umfjöllun sem farið var fram á í nefndinni að það hlyti með tilliti til breyttra aðstæðna sem skapast af yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, þó það sé út af fyrir sig ekki mikið með hana að gera.
    Ég ætla ekki að ræða efnisatriði þessa máls en mér þætti vænt um að fá það upplýst, vegna þess texta sem formaðurinn las upp í ræðustól rétt áðan um að bjóða mönnum sambærilegt starf, hvaða sambærilega starf á Akranesi er átt við. Nú veit ég ekki til þess að ríkið eigi nema eina sementsverksmiðju á Akranesi. Ég er að vísu ekki þaulkunnugur samanburðarfræði í störfum milli einstakra ríkisfyrirtækja á Akranesi. Mér er ekki ljóst hvaða sambærilega starf hjá ríkinu er átt við að hlutaðeigandi starfsmenn Sementsverksmiðjunnar geti gengið í. Þó þeim væri boðið sama starf hjá hlutafélagi er það ekki sama starf og hjá ríkinu og þar af leiðandi ekki sambærilegt. En ég ætla að vona að ekki verði

farið að hrekja þessa menn, ég veit ekki hve margir þeir eru, frá aðsetri sínu á Akranesi.