Frumvörp um Sementsverksmiðju ríkisins og Síldarverksmiðjur ríkisins

129. fundur
Miðvikudaginn 29. apríl 1992, kl. 13:52:47 (5658)

     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ótrúlegur atburður átti sér stað í iðnn. í morgun þegar tillaga sem borin var upp formlega um að kalla fulltrúa opinberra starfsmanna á fund nefndarinnar var felld. Þetta var gert þó að ljóst sé að þetta snerti mjög ákveðið þá miðlunartillögu sem ríkissáttasemjari lagði fram og nú er verið greiða atkvæði um. Auk þess hefur nú verið upplýst að sá texti sem formaður nefndarinnar vitnaði í er alls ekki sá texti sem ríkisstjórnin sendi frá sér heldur einhvers konar vinnuplagg sem hefur væntanlega verið til meðferðar áður. Ég tel víst að í ljósi þess texta sem lesinn var upp í nefndinni og þess texta sem er réttur að um þetta atriði hafi verið rætt og þetta fellt út að kröfu opinberra starfsmanna og enn þá meiri ástæða til þess að málið verði tekið upp aftur í nefndinni og kannað frekar.
    Það er alveg rétt sem komið hefur fram að mikið hefur verið fjallað um frv. í iðnn. og ég vænti þess að hið eina ákvæði sem hér er til umræðu hafi verið rætt á sama hátt í öðrum nefndum. Ljóst er af þeim umræðum sem fram hafa farið að ef þetta verður samþykkt óbreytt mun skapast mjög mikil réttaróvissa. Það hlýtur að þurfa að gera einhverjar breytingar á greininni svo hægt verði að afgreiða frv. frá Alþingi.
    Hv. 1. þm. Norðurl. v. minntist á bréf sem okkur hefur borist og talaði um yfirbót. Í því bréfi sem ég fékk, sem ég vænti að sé hið sama og hv. 1. þm. Norðurl. v. fékk og formaður nefndarinnar las upp úr áðan, stendur að fallist hefur verið á að fá fulltrúa BSRB til fundar við nefndina til þess að ræða 4. gr. frv. til laga um Sementsverksmiðju ríkisins milli 2. og 3. umr. ef nefndarmenn óska þess. Það er allt annað mál en við erum að tala um. Við erum að tala um að fjallað verði um málið eins og eðlilegt er áður en það verður tekið til 2. umr. í þinginu. Mér þykir mjög mikill munur þar á og tel nauðsynlegt að það sé gert nú þegar, þ.e. að málið verði ekki tekið fyrir fyrr en búið er að fjalla um það með eðlilegum hætti í nefndinni.