Frumvörp um Sementsverksmiðju ríkisins og Síldarverksmiðjur ríkisins

129. fundur
Miðvikudaginn 29. apríl 1992, kl. 14:03:46 (5662)


     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Við erum að ræða um ákaflega mikilvæga þætti sem lúta að starfsemi og starfsháttum í þinginu og starfsemi og vinnubrögðum í þingnefndum. Ég held að það sé á hárréttum stað og geti ekki annars staðar verið að menn geri athugasemdir við slíkt ef nauðsyn krefur undir liðnum þingsköp.
    Ég held að það hljóti að hafa verið mismæli hjá hv. formanni sjútvn. að ríkið sé ekki aðili að þessum kjarasamningum því að miðlunartillaga ríkissáttasemjara er jafnframt til lausnar kjaradeilu aðildarfélaga Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og Kennarasambands Íslands við fjmrh. eins og hún er miðlunartillaga um kjarasamninga milli aðila á hinum almenna vinnumarkaði. Þannig er ríkið eða ríkisstjórnin aðili að þessu máli í tvöföldum skilningi. Annars vegar er ríkið viðsemjandi við opinbera starfsmenn og hins vegar er yfirlýsing ríkisstjórnarinnar hluti af því að greiða fyrir lausn þessara samninga ef svo mætti

verða.
    Í 6. tölul. yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar stendur, með leyfi forseta:
    ,,Ríkisstjórnin staðfestir að á samningstímanum verði ekki gerðar breytingar á lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna.``
    Ég tel að ekki þurfi að lesa neitt lengra. Það er verið að breyta lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna þó að það sé gert með þeim hætti að ákveðin ákvæði eru afnumin gagnvart tilteknum hópum opinberra starfsmanna. Auðvitað er það breyting á réttaráhrifum gildandi laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Hvernig í ósköpunum dettur nokkrum manni í hug að halda öðru fram? Ef maður les yfirlýsinguna og tekur mark á henni, sem að vísu læðist nú þegar að manni að ekki beri að gera í of miklum mæli, hlýtur að vera kominn upp mjög alvarlegur árekstur milli þeirrar yfirlýsingar sem ríkisstjórnin hefur gefið annars vegar og efndarinnar hins vegar.
    Í sambandi við að fá fulltrúa opinberra starfsmanna á fund þingnefndanna, vek ég athygli á að í umsögn lögmanns Starfsmannafélags ríkisstofnana, Gests Jónssonar, er einmitt hnykkt á því í lokin að vegna þess hvers eðlis málið sé og viðkvæmt, sé óhjákvæmilegt að fulltrúar opinberra starfsmanna fái að koma til viðtals við þingnefndir. En með því að sjútvn. var að fjalla um málið og hafði óskað eftir viðbótarlögfræðigreinargerð og það var aldrei komið á dagskrá fyrr en í morgun að afgreiða málið út úr nefndinni, þá hafði ekki komið til þess að óskað væri eftir fulltrúum opinberra starfsmanna á fund nefndarinnar. Með öðrum orðum, það var fyrst í morgun sem við vissum að til stæði að afgreiða málið út. Reyndar höfðum við gert okkur góðar vonir um það vegna umræðna í nefndinni að þessu ákvæði yrði breytt. Þegar til að mynda lögfræðiálit Almennu málflutningsstofnunnar kom í hendur okkar, þá satt best að segja trúði maður ekki öðru en að meiri hlutinn mundi hugsa sig mjög vandlega um áður en anað yrði út í þá ófæru að halda áfram við afgreiðslu á óbreyttum frumvörpum og þegar ítrekuð lögfræðiálit rökstyðja það mjög vandlega að þarna sé um verulega skerðingu á lögbundnum réttindum opinberra starfsmanna að ræða og um eignaupptöku samkvæmt skilningi stjórnarskrárinnar. Þannig höfðum við ástæðu til að ætla í raun hvort tveggja, í fyrsta lagi að ekki væri komið að afgreiðslu málsins og í öðru lagi að þegar að því kæmi að það yrði afgreitt yrði því breytt þannig að opinberir starfsmenn gætu vel við unað. Það er ekki fyrr en í morgun að í ljós kemur hvort tveggja að afgreiða eigi málið út og að ekki eigi að breyta neinu um þá ósk okkar að fá að ræða við talsmenn opinberra starfsmanna sem þeir höfðu sjálfir með umsögn sinni óskað eftir að fá að gera, að fá að koma fyrir sjútvn. og flytja mál sitt. Því er hafnað og það jafngildir ekki jákvæðu svari við slíkri ósk að bjóða upp á að löngu síðar verði hægt að fá þessa menn til viðtals milli 2. og 3. umr.
    Að lokum er svo ljóst, eins og margoft hefur komið fram, að samhengi þessa máls við nýgerða málamiðlunartillögu ríkissáttasemjara og loforð ríkisstjórnarinnar í því sambandi verður að komast á hreint. Ég held að öllum sé fyrir bestu að afstýra því klúðri sem það væri að taka þessi mál fyrir áður en þetta lægi skýrt fyrir. Ég skora þess vegna á forsvarsmenn stjórnarmeirihlutans að hugsa sig nú vandlega um hvort það sé ekki þeim sjálfum fyrir bestu sem og öllum öðrum að láta af þessari stífni og halda aukalega fundi í sjútvn. og iðnn., fá þar til viðtals fulltrúa opinberra starfsmanna og reyna að taka þannig málefnalega á þessum þáttum.