Frumvörp um Sementsverksmiðju ríkisins og Síldarverksmiðjur ríkisins

129. fundur
Miðvikudaginn 29. apríl 1992, kl. 14:14:00 (5664)


     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki ábyrgjast að þetta efni sé nákvæmlega hægt að færa undir þingsköp og allra síst það sem hv. síðasti ræðumaður sagði áðan, en ég skal gjarnan reyna að skýra hvað felst í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Ég mun að sjálfsögðu ekki skipta mér af fundastörfum nefnda á þinginu en verði það ákvörðun þeirra sem taka skulu þær ákvarðanir að halda annan fund þá er að sjálfsögðu rétt að fulltrúar ríkisstjórnarinnar komi til þess fundar og fulltrúar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Það er auðvitað algerlega á valdi formanna nefndanna hvernig þeir haga fundastörfum í nefndunum og ætla ég ekki að skipta mér af því.
    Það er ljóst og lá fyrir og hefur legið fyrir um nokkurt skeið að texti, eins og sá sem er að finna í þeim frumvörpum sem hér hafa verið til umræðu, hefur verið í frumvörpum sem samþykkt hafa verið á Alþingi, þar á meðal í frv. sem nú eru orðið að lögum, um Ríkisprentsmiðjuna Gutenberg, og ég vil taka það fram að þessum texta, eins og hann er nú í bæði síldarverksmiðjufrv. og eins í sementsverksmiðjufrv., hefur verið vel tekið af starfsmönnum og ég veit ekki betur en starfsmannafélag Sementsverksmiðjunnar hafi ekki mótmælt þessum texta. Þegar að því kom fyrir skömmu þegar í athugun var hvort samflot yrði í kjarasamningum þá settu BSRB og KÍ ákveðna fyrirvara og skilyrði varðandi þátttöku í svokölluðu samfloti. Eitt af því sem þau félög lögðu áherslu á var að biðlaunaréttinum yrði ekki breytt. Það kom afar skýrt fram af hálfu ríkisstjórnarinnar þá þegar að við mundum halda áfram þeirri stefnu sem kemur fram í viðkomandi frumvörpum.
    Það er alveg hárrétt sem hér hefur verið lesið að í plöggum, sem lengi lágu fyrir og ætlunin var að kæmi fram í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, var að finnan þennan texta sem hv. síðasti ræðumaður las og aðrir hafa lesið fyrr á þessum fundi. Það hefur ekkert

breyst efnislega. Þetta ákvæði fór út úr yfirlýsingunni. 6. tölul. var breytt lítils háttar en það er alveg kristaltær skilningur beggja aðila að um enga efnislega afstöðubreytingu var að ræða, hvorki hjá ríkisstjórninni né hjá BSRB varðandi efni málsins. ( SvG: Ertu að segja að BSRB hafi samið um að ...) Ég er ekki að segja --- ég veit að hv. þm. Alþb. eru afskaplega vonsviknir yfir þeim samningum sem hugsanlega verða gerðir og þeir nota þetta tækifæri til þess að reyna að þyrla upp sínu moldvirði varðandi þá, en ég verð að hryggja þessa svekktu tvo þm., hv. 8. þm. Reykn. og hv. þm. Svavar Gestsson, með því að það er fullur skilningur á því hjá báðum aðilum að sú breyting sem gerð var á þessum plöggum sem lesin hafa verið upp hefur enga efnislega þýðingu. En ég vil jafnframt bæta því við að það er ágreiningur um þetta atriði og sá ágreiningur hefur verið þekktur allan tímann. Það er ljóst að BSRB veit hver er skilningur ríkisstjórnarinnar og það er jafnframt ljóst að ríkisstjórnin veit hvað BSRB vill gera í þessum málum. Mér finnst sjálfsagt og eðlilegt að þingmenn fái að kynnast því en það hefur engin efnisleg breyting átt sér stað frá drögunum og til lokayfirlýsingarinnar. Þetta eru eingöngu orðalagsbreytingar en hafa enga efnislega merkingu og ég tel það rétt, virðulegi forseti, að það komi fram á þessum fundi.
    Eins og ég sagði áðan, þá eiga þessar yfirlýsingar rætur að rekja til þess að BSRB og KÍ ákváðu að taka þátt í samflotinu. Við höfum ákveðið að breyta ekki sjálfum lagatextanum í þessum lögum sem hér er getið um, en við höfum áskilið okkur fullan rétt, og það veit forusta BSRB og KÍ, til þess að gera þær breytingar sem eru á lagafrumvörpum sem eru til umræðu. Og þeir hafa ekki samþykkt það. Ég skal láta það koma hér fram. Þeir hafa ekki samþykkt það og þeir hafa sagt að verði það gert gæti farið svo að málið fari til dómstóla. Við höfum, eins og svo margir aðrir, talið eðlilegt að menn, sem halda störfum sínum þrátt fyrir formbreytingar í fyrirtækjum, ættu ekki að eiga rétt á tvöföldum launum. Um það atriði snýst þetta mál og ég vænti þess að hér á þinginu sé fullur skilningur fyrir því að það er ekki eðlilegt að sami aðili, sem heldur sínu sama starfi hjá fyrirtæki, sem er nánast eins en eingöngu hefur orðið formbreyting í fyrirtækinu, eigi rétt á því að hafa helmingi hærri laun heldur en aðrir launþegar. Um þetta snýst þetta mál.