Frumvörp um Sementsverksmiðju ríkisins og Síldarverksmiðjur ríkisins

129. fundur
Miðvikudaginn 29. apríl 1992, kl. 14:42:00 (5675)


     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég sé í sjálfu sér ekki ástæðu til að ræða þessi mál mikið lengur við hæstv. fjmrh. Það er kostulegt sem upp er komið. Það liggur fyrir yfirlýsing frá ríkisstjórninni. Ríkisstjórnin segir þar eitt og opinberir starfsmenn segja annað. Þetta er ekki sameiginleg yfirlýsing aðilanna. Þeir tala þar út og suður. Það er alveg einstök snilld í samningsniðurstöðu verð ég að segja, að menn séu svo að segja lóðrétt hver á annan í einstökum setningum eða töluliðum í þessum yfirlýsingum. Það er kostulegt að samningsaðili annars skuli segja: Þetta er bara svona, ég er með öðru, þeir eru með hinu, móti hinu, móti öðru.
    En svo sagði hann annað sem var mjög athyglisvert en það var að ekki var hægt að skilja orð hans öðruvísi en svo að hann liti ekki á yfirlýsinguna sem hluta af miðlunartillögu. Það er afar fróðlegt og alvarlegt umhugsunarefni. Ég held að það sé óhjákvæmilegt í framhaldi af umræðunni að fá ýmsa hluti á hreint hjá fjmrh., aðra og fleiri en þá sem unnt er að ná fram í utandagskrárumræðu eða þingskapaumræðu vegna þess að þetta síðastnefnda, um að yfirlýsingin sé eins og sett fyrir innan sviga í dæminu, er stórsérkennilegur hlutur. Ég hef ekki spurt forustumenn opinberra starfsmanna hvað það er sem þeir taka mark á í þessari yfirlýsingu og hvað ekki. Er þetta samningsniðurstaðan? Þvílík snilld. Til hamingju með þennan fjmrh., hv. Alþingi og herra forseti.