Lánasjóður íslenskra námsmanna

129. fundur
Miðvikudaginn 29. apríl 1992, kl. 20:37:00 (5678)

     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Hér höfum við til 2. umr. eitthvert stærsta mál þess þings sem nú starfar. Málið er mjög viðkvæmt, ekki síst vegna þess að það snýst um jafnrétti. Það snýst um fólk sem á sér framtíðardrauma og það snýst um framtíð þessarar þjóðar, bæði hvað snertir menningu og efnahag. Hvar ætlum við Íslendingar að skipa okkur sess í samfélagi þjóðanna? Hvar liggja okkar möguleikar í framtíðinni þegar framleiðslustjórnun er komin á í okkar framleiðslugreinum og við teljumst ekki lengur til veiðimannasamfélags í þess orðs fyllstu merkingu. Margir hafa séð okkar möguleika mesta í manneskjunni sjálfri, menntun hennar og þekkingu.
    Með samþykkt þessa frv., sem hér er til umræðu, frv. um Lánasjóð ísl. námsmanna ásamt brtt. frá meiri hluta menntmn., er vegið að möguleikum fólks til að afla sér menntunar án tillits til efnahags. Það þótti ekki vogandi af meiri hluta menntmn. að setja inn í 1. gr. frv. ákvæði um jafnrétti til náms sem markmið laganna. Það skyldi kallast tækifæri til náms. Þetta segir okkur það að hv. þm. Sjálfstfl. og Alþfl. sem mynda þennan meiri hluta vita ákaflega vel hvað samþykkt þessa frv. hefur í för með sér fyrir námsmenn í þessu landi, en einhvers staðar að ofan koma tilskipanir sem ber að hlýða.
    Það fór ekkert á milli mála í ræðu hæstv. menntmrh. sl. mánudag hver hans skoðun er á þessum málum. Hann telur að með þessu frv. sé verið að tryggja jafnrétti til náms eða svo talaði hann a.m.k. hvað sem hans innri hugsun segir. Verði frv. ekki að lögum verður lánasjóðurinn gjaldþrota, að hans sögn, og lán verði skert strax í haust vegna erfiðrar fjárhagsstöðu sjóðsins.
    Nú er það svo að þær breytingar sem verið er að gera á lánasjóðnum með frv. hafa ekki áhrif á fjárhag hans sem neinu nemur fyrr en á næstu öld, nema ef vera skyldi að áhrifin yrðu þau að fólk hætti að fara í langskólanám, ef það á ekki efnaða að. Þar komum við að jafnréttismálunum. A.m.k. er ljóst að möguleikar fólks á að fara í nám við erlenda skóla þar sem skólagjöld eru há verða einskorðaðir við þá ríku.
    Í framhaldi af þessu langar mig að spyrja hæstv. ráðherra um skólagjöldin. Verður lánað fyrir þeim? Ef svo er, mér skilst reyndar að hæstv. menntmrh. hafi lofað að svo verði, verður þá sú lánveiting líka greidd út eftir á, þ.e. eftir að námsmaður hefur sýnt fram á árangur?
    Maður sér fyrir sér námsmann í skóla erlendis sem sýnir ekki árangur fyrr en að vori en þarf að greiða há skólagjöld strax að hausti. Hann á ekki létt með það verði engin lán afgreidd fyrr en eftir á. Við þessu verða að fást svör.
    Ég ætla ekki, hæstv. forseti, að endurtaka núna efnislega umræðu um frv. í heild sem lagt var fram í lok síðasta árs og er ótrúlega róttækt. Þar að auki er það illa unnið og námsmönnum algjörlega vísað út í óvissuna. Sú umræða sem fór fram við 1. umr. og eins fjöldi umsagna sem borist hafa nefndinni hafa ekki alveg verið til ónýtis því vissulega eru þær brtt. sem lagðar eru fram af þingmönnum ríkisstjórnarflokkanna í menntmn. á þskj. 775 til bóta. Þær ganga hins vegar ekki nægilega langt. Sérstaklega ber að nefna eftirágreiðslur lánanna sem kveðið er á um í 6. gr., strangar endurgreiðslukröfur sem kveðið er á um í 8. gr. og vaxtatöku lánanna sem kveðið er á um í 7. gr.
    Fleiri brtt. en snerta þessi þrjú atriði eru gerðar við frv. af hálfu minni hlutans og mun ég e.t.v. gera örlitla grein fyrir þeim síðar.
    Samkvæmt tilkynningu frá ríkisstjórninni eiga vextir að verða 1% á lánum, a.m.k. fyrst um sinn. Þetta lét hæstv. ríkisstjórn út ganga sem ákvörðun þrátt fyrir að hv. Alþingi hafði alls ekki heimilað vexti á námslán. Í brtt. meiri hluta menntmn. er gerð tillaga um að vextirnir verði breytilegir en þó aldrei hærri en 3%. Slík vinnubrögð eru ekki til þess að bæta starfið á milli löggjafans og framkvæmdarvaldsins. Enn þá er það Alþingi sem setur lög en ekki ríkisstjórn og ætti ekki að þurfa að ræða það frekar hér.
    Víst er mikill munur á 1% vöxtum og 3% vöxtum þannig að brtt. meiri hlutans um

að vextir verði aldrei hærri en 3%, er til bóta. Hins vegar vil ég leyfa mér að stinga upp á því við meiri hlutann að ekki seinna en við 3. umr. taki hann ákvæðið um 3% vexti algjörlega út úr textanum og segi ,,aldrei hærri en 1%``. Heimildin upp á 3% er mjög til að óprýða þennan lagatexta og ég skil það svo að ríkisstjórnin ætli sér ekki að hafa vaxtatökuna svona háa. Þetta ákvæði virkar því eins og til þess að hræða námsmenn frá námi og spara fyrir sjóðinn, eða er svo? Spyrja þeir sem ekki vita.
    Ég er þeirrar skoðunar að fyrst sú ríkisstjórn sem nú situr ætlar sér ekki að hafa vextina hærri en 1% séu ekki miklar líkur á að við eigum eftir að fá ríkisstjórn sem vilji ganga lengra í þeim efnum.
    Þá má geta þess að vextirnir fara ekki að hafa áhrif á stöðu lánasjóðsins fyrr en árið 2007 séu þeir 1% og meira að segja nokkrum árum síðar séu þeir 2--3%. Ég verð að viðurkenna að ég átta mig ekki alveg á því, en þannig lítur þetta út á einni af þeim fjölmörgu töflum sem liggja fyrir í möppum nefndarmanna í hv. menntmn.
    Ákvæðið um eftirágreiðslur lána sem kveðið er á um í 6. gr. er algjörlega óásættanlegt að mati okkar framsóknarmanna. Slíkar fyrirætlanir eru svo ósanngjarnar að ég vil enn trúa því að hv. meiri hluti menntmn. vilji setjast niður með okkur í minni hlutanum og fara yfir það mál. Með samþykkt þess erum við ekki lengur að tala um framfærslulán til námsmanna, svo alvarlegt er málið. Þetta er ákvæðið sem skilur að þá efnameiri og hina efnaminni. Þeir sem eiga sterka að munu eflaust geta fleytt sér fram með aðstoð foreldra sinna þar til lán fæst að lokinni skólaönn sem annað hvort er í lok árs eða að vori. En það sem þarna mun ráða allra mestu er hvort viðkomandi nemandi getur búið í foreldrahúsum eða hvort hann þarf að vera á leigumarkaði sem hlýtur að vera það algengasta þegar um rígfullorðið fólk er að ræða.
    Við getum hugsað okkur ósköp venjulega stúlku frá Raufarhöfn, Reyðarfirði, Bolungarvík, Höfn í Hornafirði, Stykkishólmi. Hún stundar nám í Háskóla Íslands og leigir íbúð ásamt annarri stúlku úr sama byggðarlagi. Hún treystir ekki á að bíða til haustsins með að taka íbúð á leigu þar sem henni býðst ein slík vorið sem hún tekur stútentspróf. Þær stöllur fastsetja hana og borga 40.000 á mánuði en fá ekki vinnu í Reykjavík um sumarið heldur í frystihúsinu heima. Þær ná að safna sér svolitlum peningum um sumarið þar sem þær geta búið í foreldrahúsum en borga náttúrlega leiguna fyrir sunnan. Þær þurfa þó að taka bankalán þegar kemur fram í nóvember. Þær standast báðar prófið í desember og fá því lán í janúar, sem þær greiða bankalánið með og eiga peninga sér til framfærslu fyrst um sinn en þurfa aftur að fara í bankann og biðja um lán á útmánuðum. Þær standast prófin í maí og fá lán í júní, sem fer að verulegu leyti í að greiða lánið frá vetrinum. Um sumarið halda þær íbúðinni og fara út á land að vinna. En nú er litla vinnu að fá og sumarkaupið rétt til að skrimta af. Strax um haustið þurfa þær því í bankann og fá lán sem þær borga með námsláninu og taka nýtt lán sem þær borga með námsláninu o.s.frv. Þær eru því að borga 5--10% vexti öll námsárin.
    Þær fullyrðingar sem fram koma í brtt. meiri hlutans við 7. gr. þess efnis að vextir reiknist frá námslokum eru því ekki réttar. Námsmaðurinn er að greiða vexti allan námstímann auk lántökugjalds sem er 1,2%.
    Dæmið sem ég tók af stúlkunum tveimur er dæmi um tiltölulega þægilegar aðstæður námsmanna. Dæmið yrði að sjálfsögðu ólíkt erfiðara ef þarna væri um að ræða námsmann sem væri með maka og ung börn. Ég tala nú ekki um einstætt foreldri með börn.
    Hæstv. forseti. Eftirágreiðsla lána er fyrirkomulag sem verður að koma í veg fyrir að tekið verði upp hér á landi. Það er bara út í hött. Ekki síst vegna þess að það breytir engu fyrir sjóðinn þegar til lengri tíma er litið. Það breytir aðallega því að ríkissjóður getur sýnt betri afkomu á þessu ári upp á yfir 1 milljarð kr. með því að fresta öllum útborgunum úr sjóðnum fram yfir áramót.
    Hæstv. menntmrh. gerði mikið úr því sl. mánudag að það skipti tugum milljóna ár hvert sem greitt væri út í formi lána til námsmanna sem næðu svo ekki prófum. Auðvitað væri æskilegast að allir nemendur næðu prófum. Þar er ég alveg sammála hæstv. ráðherra, en þetta er ekki tapað fé. Flestir sem falla á prófum halda áfram námi. Þeir fá ekki

viðbótarlán fyrr en þeir hafa sýnt fram á árangur og má því segja að þetta breyti afar litlu fyrir sjóðinn.
    Ég skal ekki fullyrða að ekki séu einhverjir námsmenn sem reyna að misnota aðstæður sem þessar og auðvitað þarf að reyna að bregðast við því. En það má ekki láta það bitna á öllum fjöldanum. Lánin verða áfram að geta kallast framfærslulán.
    Ég vil velta því upp hér sem hugmynd hvort það kæmi til greina að lán þeirra nemenda sem ekki standast próf verði strax sett á skuldabréf og hafi viðkomandi nemandi ekki sýnt fram á árangur eftir næsta próf komi skuldabréfið til greiðslu. Þetta er eflaust harður kostur líka en einhverja leið verður að finna aðra en þá sem liggur fyrir af hálfu meiri hlutans og ríkisstjórnar.
    Í tilefni af þessum eftirágreiðslum langar mig, hæstv. forseti, að vitna í bréf sem borist hefur nefndarmönnum í hv. menntmn. frá félagi laganema. Þar sem mikilvægar upplýsingar koma hér fram ætla ég að lesa það, með leyfi forseta, en það hljóðar svo:
    ,,Virðulegi þingmaður. Mikilsmetinn maður í bandarísku efnahagslífi og mikill Íslandsvinur sagði eitt sinn á fundi með nokkrum íslenskum athafnamönnum að helsta auðlegð Íslands og framtíðarvon væri ekki fólgin í fiskimiðum eða rafmagni, heldur í vel menntuðu ungu fólki. Með sambærilega hugsun í farteskinu hefur Lánasjóður ísl. námsmanna starfað og greitt leið margra góðra manna til menntunar sem annars hefðu ekki átt á því kost. Nú ber það við í skammtímaniðursveiflu í íslensku efnahagslífi að horft er með eftirsjá til þess fjár sem fest hefur verið í menntun ungs fólks. Mótað hefur verið nýtt frv. til laga um Lánasjóð ísl. námsmanna og þrátt fyrir að þingmenn hafi að einhverju leyti tekið tillit til athugasemda námsmannahreyfinganna er enn í frv. ákvæði sem stjórn Orators, félags laganema, sér sig knúna til að mótmæla harðlega.
    Stjórn Orators hefur fengið af því fregnir að þingmeirihluti sé fyrir áðurnefndu frv. um Lánasjóð ísl. námsmanna, eins og það lítur út í dag.
    Í 6. grein þess er ákvæði sem segir að námslán skuli aldrei veitt fyrr en námsmaður hefur skilað vottorði um tilskilda skólasókn og námsárangur. Ljóst er af greinargerð með frv. að ákvæðið ber að skilja þannig að stúdent fær ekki námslán fyrr en hann hefur tekið tilskilin próf og skilað fullnægjandi árangri. Stúdentar þurfa þá að taka lán hjá bankakerfinu til að framfleyta sér fram að prófum í stað þess að fá mánaðarlegar greiðslur úr lánasjóðnum eins og núverandi kerfi gerir ráð fyrir.
    Stjórn Orators telur þetta ákvæði útiloka fjölmarga nemendur frá námi þar sem af hinu lága láni þyrfti að greiða háa bankavexti, greiðslur yrðu ótryggari og auk þess geti ekki allir útvegað sér ábyrgðarmenn vegna slíkra lána, eins og bankar áskilja eðlilega í viðskiptum sínum.
    En megintilefni þessa bréfs er að benda yður á að ákvæði þetta mun, verði það samþykkt af þingmönnum, koma sérlega harkalega niður á laganemum. Ástæða þess er sú að ákvæðið gerir í raun ráð fyrir því að stúdent fái ekki lán sitt greitt út fyrr en hann hefur skilað fullnægjandi árangri eftir missirið, þ.e. að stúdentinn fái fyrsta námslán vetrarins um áramót. Laganemar taka hins vegar ekki próf í desember eins og aðrir háskólanemar, heldur eru námskeiðin að jafnaði heilsársnámskeið og próf ekki tekin fyrr en í maí og því mundu laganemar ekki fá lán sín greidd út fyrr en á miðju sumri. Laganemar þyrftu því að framfleyta sér á dýrum bankalánum allan veturinn. Verði slíkt ákvæði samþykkt án þess að undanþágur verði veittar mun það óhjákvæmilega hrekja laganema, jafnt nýnema sem lengra komna, frá námi og gera þeim sem eftir verða mjög erfitt fyrir. Rökin með því að eftirágreiða námslán telur stjórnin vera afar léttvæg miðað við þær afleiðingar sem regla af þessu tagi mundi hafa í för með sér fyrir afkomu stúdenta og þá sérstaklega laganema eins og bent hefur verið á.
    Stjórn Orators vill því beina þeim tilmælum til yðar að þér sjáið til þess að ákvæði þetta verði fellt úr úr frv. áður en það verður afgreitt sem lög frá Alþingi.
    Fyrir hönd stjórnar Orators, Hjörtur Bragi Sverrisson.``
    Hæstv. forseti. Ég vildi að þetta kæmi fram því þetta segir nákvæmlega það sem okkur framsóknarmönnum er í huga í sambandi við eftirágreiðslurnar.

    Eitt af því sem fellt er út úr lögum við samþykkt frv. eru námsstyrkir eða ferðastyrkir. Um námsstyrki og aðstoð við námsmenn í löngu námi er hins vegar vísað með óljósum orðum greinargerðar á Vísindasjóð. Í umsögn Háskóla Íslands um frv. kemur m.a. fram að verkaskipting milli Vísindasjóðs og lánasjóðsins hafi alloft komið til umræðu í stjórnum sjóðanna og víðar á undanförnum tveimur áratugum. Menn hafi þó ævinlega komist að þeirri niðurstöðu að besti kosturinn felist í því fyrirkomulagi sem nú gildir. Ríkissjóður afsali sér þá ekki fyrir fram námsaðstoðinni til þessara aðila sem styrk, heldur ráðist það af heildarskuld námsmannsins að loknu námi og tekjum hans eftir það, hvort hann greiði alla aðstoðina til baka eða ekki. Þá segir enn fremur orðrétt í bréfi, í umsögn Háskóla Íslands um þetta málefni:
    ,,Enn fremur er þess að geta að menn vilja breyta lánum í styrki fyrir fram að eftirspurnin eftir aðstoðinni mundi aukast talsvert og hvatningin minnka til að afla annarra styrkja hér heima og erlendis. Má þó hafa í huga að erlendir styrkir, t.d. frá háskólum, skipta nú mjög miklu í fjárhag íslenskra námsmanna sem stunda framhaldsnám erlendis. Menn eru því hvorki að sinna hagsmunum ríkissjóðs í nútíð né framtíð þegar þeir velta þeirri breytingu fyrir sér. Hitt kann að vera æskilegt frá sjónarmiði allra aðila að Háskóla Íslands verði gert kleift að veita styrki til nemenda í framhaldsnámi e.t.v. gegn því að þeir veittu hóflega aðstoð við kennslu eða rannsóknir svipað og tíðkast t.d. við bandaríska háskóla. En af þessu hlytist því aðeins sparnaður hjá lánsjóði að í reglum hans sé tekið tillit til tekna námsmanna.
    Enn er því við að bæta varðandi Vísindasjóð að hann er allsendis vanbúinn að taka við því hlutverki að veita námsstyrki til langskólanáms, bæði að því er varðar fjárhag, þekkingu og aðstöðu. Rök fyrir því að fela honum þetta hlutverk í stað lánasjóðsins eru því afar vandfundin.``
    En mig langar einnig, hæstv. forseti, að lesa úr umsögn Vísindaráðs um þetta málefni. Ég les ekki alla umsögnina en hluta hennar, hún hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Í frv. til laga um LÍN er gert ráð fyrir að allt nám sé lánshæft, einnig framhaldsnám doktorsnema. Í greinargerðinni er þess þó getið að menntmrh. muni beita sér fyrir endurskoðun laga um Vísindasjóð í þeim tilgangi að hann geti veitt styrki til námsmanna í langskólanámi og til greiðslu skólagjalda. Bent er á að við það ætti þörf stúdenta í framhaldsnámi fyrir námslán að minnka. Ekki verður þó séð að breyting í þessa veru muni draga úr útgjöldum ríkisins, þvert á móti mundu þau væntanlega aukast. Vísindaráð telur mikilvægt að námsmenn í langskólanámi hafi aðgang að námsstyrkjum. Slíkum styrkjum mætti hæglega koma fyrir í nýju stuðningskerfi við námsmenn sem byggði á sambandi styrkja og lána. Mikilvægt er þó að ekki verði sjálfsafgreiðsla á styrkjum til framhaldsnáms. Þá styrki ætti aðeins að veita hæfari námsmönnum að undangengnu faglegu mati.
    Á Norðurlöndum hafa góðir námsmenn í framhaldsnámi aðgang að ágætum styrkjasjóðum. Má í því sambandi nefna að Danir hafa nýverið eflt sinn sjóð á þessu sviði verulega til þess að efla samkeppnishæfni dansks hugvits og iðnaðar í harðnandi samkeppni. Í fylgiskjölum með því frv. um LÍN segir að Danir veiti ekki styrki til rannsóknanáms. Rétt þykir að benda á að þetta á aðeins við um þann almenna sjóð er styrkir fyrrihlutanám. Í þessu sambandi þykir rétt að benda á að íslenskir námsmenn í framhaldsnámi í Danmörku og Svíþjóð hafa til skamms tíma getað sótt um styrki í námslandinu í faglegri samkeppni við heimamenn en þessir styrkir til Íslendinga hafa verið veittir vegna góðvildar nágrannaþjóðanna í okkar garð þrátt fyrir gamalt samkomulag Norðurlandanna um að hver þjóð skuli styrkja sína námsmenn hvar sem þeir kunni að vera við nám á Norðurlöndum.
    Á síðustu missirum hefur borið á því að Íslendingum hefur verið neitað um styrk vegna þjóðernis. Ástæðurnar eru væntanlega aukinn fjöldi stúdenta og minna fé til skiptanna. Þessi þróun gefur enn eitt tilefni til þess að stuðningur við íslenska námsmenn í framhaldsnámi verði tekinn til endurskoðunar hér á landi.
    Vísindaráð sér ekki sérstök rök fyrir því að styrkir til doktorsnáms verði felldir undir Vísindasjóð. Við það geti skapast nokkur hætta á að takmarkað fé sjóðsins mundi skerðast en það er einkum ætlað til styrktar vísindarannsóknum.

    Vísindaráð úthlutar styrkjum úr Vísindasjóði að undangengnu faglegu mati í vísindalegu gildi verkefna og hæfni umsækjenda til að stunda rannsóknir. Eðli starfsemi Vísindaráðs og LÍN er því ólíkt. Starfsmenn Vísindaráðs eru aðeins tveir. Við núverandi aðstæður er ráðið því engan veginn í stakk búið til að taka að sér þá vinnu sem felst í veitingu styrkja til stúdenta og eftirliti með framvindu námsárangurs.``
    Ég hirði ekki um að lesa lengra af þessari tilvitnun í Vísindaráð en þarna koma fram mikilvæg atriði sem gera það að verkum að maður verður efins um að verið sé að taka rétta stefnu.
    Ég sé að hæstv. menntmrh. er horfinn á brott --- hann er ekki langt undan --- hann heyrir vel.
    Í framhaldi af þessu vildi ég spyrja hæstv. menntmrh. hvort hann sé enn þeirrar skoðunar að þetta verkefni eigi að færast yfir á Vísindasjóð. Ég spyr hvort það liggi fyrir frekari útfærsla á því af hálfu ráðherra hvernig styrkveitingum verði háttað í framtíðinni.
    Eins er hitt að þó Vísindasjóður taki að sér þær styrkveitingar sem lánasjóðurinn hefur haft liggur það fyrir að ekki verða veittir styrkir úr þeim sjóði vegna ferðakostnaðar. Líklega er þá meiningin að leggja hann alveg af. Með því að fella niður ferðastyrki er enn verið að auka misrétti milli þeirra sem geta búið í foreldrahúsum á meðan á námi stendur, þ.e. fyrst og fremst Reykvíkinga og að litlu leyti Akureyringa, og hins vegar landsbyggðarmanna. Þetta hefur stundum verið kallað að jafna aðstöðumun. En slíkar ,,klisjur`` eiga líklega ekki upp á pallborðið hjá valdhöfum núna.
    Eitt er það sem er mjög gagnrýnivert við frv. og ekki var tekið á af meiri hluta menntmn. í brtt. Það er hvað gera skuli við þær eftirstöðvar sem auðsýnilega verða til staðar hjá ákveðnum starfsstéttum við 67 ára aldur. Það er algerlega á valdi stjórnar lánasjóðsins hvernig þær eftirstöðvar verða meðhöndlaðar. Það á sem sagt að meta hvern 67 ára einstakling og taka ákvörðun á þeim tímapunkti hvort hann hefur efni á og aðstæður til að greiða lánið eða ekki. Væntanlega þarf að skoða tekjur maka o.s.frv.
    Samkvæmt þeim töflum sem dreift hefur verið til menntmn. eru það fyrst og fremst hjúkrunarfræðingar og framhaldsskólakennarar sem vegna lágra launa ná ekki að endurgreiða lánin fyrir 67 ára aldur, a.m.k. ekki ef vextir verða hærri en 1%.
    Tökum nokkur dæmi. Fyrst af einhleypingi með 432.000 kr. árslán og vextir eru 1%. Heildarlán á lánstíma er 1.728.000 kr. og gert er ráð fyrir að nemandi fari í háskólanám strax að loknu stúdentsprófi, þ.e. við 21 árs aldur. Þá kemur það þannig út að viðskiptafræðingurinn endurgreiðir lánið að fullu 37 ára gamall, verkfræðingurinn 36 ára, hjúkrunarfræðingurinn 52, framhaldsskólakennarinn 47 og sálfræðingurinn 45 ára.
    Við skulum taka sams konar dæmi en nú erum við með einstætt foreldri með eitt barn og árslánið er 648.000 og heildarlánið liðlega 2,5 millj. kr. Viðskiptafræðingurinn endurgreiðir lánið að fullu 41 árs, verkfræðingurinn 39 ára, hjúkrunarfræðingurinn 67 ára, framhaldsskólakennarinn 58 ára og sálfræðingurinn 56 ára.
    Þá tökum við þriðja dæmið sem miðast við 1% vexti en nú erum við með einstætt foreldri með tvö börn. Árslánið er 864.000 og heildarlán tæpar 3,5 millj. kr. Þá er viðskiptafræðingurinn búinn að endurgreiða lánið 46 ára, verkfræðingurinn 43 ára, hjúkrunarfræðingurinn á vangreiddar 1,3 millj. kr. 67 ára, framhaldsskólakennarinn á vangreiddar rúmar 300.000 kr. 67 ára og sálfræðingurinn greiðir lánið upp nákvæmlega 67 ára.
    Ég sleppi því að taka dæmi sem miðast við 2% vexti en ég tek dæmi sem miðast við 3% vexti eins og heimilað er í frv.
    Þegar hæstv. menntmrh. lagði frv. fram og mælti fyrir því á hv. Alþingi áttu vextirnir að vera 3%, ég vek sérstaka athygli á því. Dæmin hér á eftir sýna hvað frv. var raunar fáránlegt eins og það var lagt fram.
    Fyrsta dæmið er einhleypingur í leiguhúsnæði. Árslán er 432.000, heildarlán 1,7 millj. kr. og vextir 3%. Viðskiptafræðingurinn endurgreiðir lánið að fullu 38 ára, verkfræðingurinn 37 ára, hjúkrunarfræðingurinn 67 ára, framhaldsskólakennarinn 56 ára og sálfræðingurinn 52 ára.
    Tökum hliðstætt dæmi nema nú erum við með einstætt foreldri með eitt barn. Árslán eru 648.000, heildarlán rúmlega 2,5 millj. kr. og vextir 3%. Nú kemur það þannig út að viðskiptafræðingurinn endurgreiðir lánið að fullu 45 ára, verkfræðingurinn 42 ára, hjúkrunarfræðingurinn á vangreiddar liðlega 3 millj. kr. 67 ára, framhaldsskólakennarinn á vangreiddar liðlega 1,6 millj. kr. 67 ára og sálfræðingurinn á vangreidda liðlega 1 millj. kr. 67 ára.
    Þá kemur síðasta dæmið sem er það svartasta. Þar erum við með einstætt foreldri með tvö börn. Árslán er 864.000, heildarlán tæplega 3,5 millj. kr. og vextir 3%. Viðskiptafræðingurinn greiðir lánið upp 53 ára, verkfræðingurinn 48 ára, hjúkrunarfræðingurinn á vangreiddar liðlega 6 millj. kr. 67 ára, sem er næstum tvöfaldur höfuðstóll miðað við heildarlán að námi loknu, framhaldsskólakennarinn á vangreiddar liðlega 4,7 millj. 67 ára og sálfræðingurinn á vangreidda liðlega 4,1 millj. 67 ára.
    Þá skal ég ljúka þessum tilvitnunum í töflur, hæstv. forseti. En rétt er að það komi fram að við útreikning á þeim var miðað við meðallaun en ekki taxtalaun. Ef um það verður að ræða á næstunni að þrengi enn að á vinnumarkaðnum og fólk hafi ekki kost á þeirri yfirvinnu sem það hefur þó haft, lítur þetta enn verr út. En ég tek fram aftur að þessi svörtustu dæmi voru miðuð við 3% vexti sem reyndar, miðað við tilkynningu frá ríkisstjórninni, er ekki meiningin að setja á að svo stöddu a.m.k.
    Nú sé ég að klukkan er rétt að verða fjögur, hæstv. forseti, og það er kannski ágætt að ég geri hlé. ( Forseti: Ef það hentar hv. ræðumanni að gera hlé nú væri það vel þegið.) Já, það hentar ágætlega. --- [Fundarhlé.]
    Hæstv. forseti. Ég var þar komin í ræðu minni að ég hafði gert nokkra grein fyrir endurgreiðslum á lánunum og hvernig þær litu út miðað við ýmsar stéttir og hvenær fólk yrði væntanlega búið að greiða upp lán sín. Þess má geta að þar var ekki tekið sem dæmi hvernig grunnskólakennara mundi ganga að endurgreiða lán sitt og er því rétt að taka fram að það verður áreiðanlega ekki létt. Í umsögn frá kennslustjóra og námsráðgjafa Kennaraháskóla Íslands kemur fram að byrjendalaun grunnskólakennara í dag eru 67.398 kr. og eftir 18 ára starf 82.788 kr. Auk þess má geta þess að nú er verið að gera kennaranámið að fjögurra ára námi þannig að byrjendaárslaun grunnskólakennara eru rétt um 800 þús. kr.
    Nú er það svo að þessar starfsgreinar, kennarar og hjúkrunarfræðingar, eru afar mikilvægar í þjóðfélagi okkar. Skyldu hæstv. ráðherrar hafa velt því fyrir sér hvaða þýðingu það hefði fyrir velferðarkerfi okkar ef ungt fólk hætti að stunda nám í þessum greinum? Skyldi það ekki kalla á ýmiss konar vandamál? Mér finnst mjög mikill galli á þessum lögum að það skuli ekki vera ákvæði í þeim þess efnis að við 67 ára aldurinn falli eftirstöðvar niður. Nú veit ég ekki hvað hæstv. ráðherra hugsar sér með reglugerð en skv. 18. gr. frv. er ráðherra heimilað að setja í reglugerð frekari ákvæði um framkvæmd þessara laga. Forvitnilegt væri ef hæstv. ráðherra vildi greina okkur frá því hvar hann er staddur með reglugerðina, hvort hefur eitthvað verið hugað að því eða hvort hann hyggst setja reglugerð eða hvort sjóðstjórnin á að hafa öll völd sem ekki er tekist á um í lögunum.
    Í brtt. minni hlutans er m.a. gert ráð fyrir því að Iðnnemasamband Íslands eigi fulltrúa í stjórn lánasjóðsins. Í máli hæstv. ráðherra kom fram að það væri óþarfi þar sem þeir væru aðilar að Bandalagi ísl. sérskólanema. Af þessu tilefni langar mig til þess að lesa bréf sem Iðnnemasamband Íslands hefur sent þingmönnum, og eftir því sem ég best veit einnig hæstv. ráðherra, en þar kemur mjög greinilega fram að þetta er byggt á misskilningi hjá hæstv. ráðherra að Iðnnemasambandið sé aðili að BÍSN. En bréfið hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Háttvirti alþingismaður. Ástæða þess að þetta bréf er ritað er að vekja athygli á því að frumvarp um Lánasjóð ísl. námsmanna, sem nú er til umræðu á Alþingi, gerir ekki ráð fyrir því að iðnnemar eigi aðild að stjórn Lánasjóðs ísl. námsmanna. Samkvæmt núgildandi lögum eiga þrjár af fjórum námsmannahreyfingum aðild að stjórn lánasjóðsins, þ.e. Bandalag ísl. sérskólanema, Samband ísl. námsmanna erlendis og Stúdentaráð Háskóla Íslands. Iðnnemasamband Íslands, sem eru einu hagsmunasamtök iðn- og verknámsnemenda, eiga enga aðild að stjórn sjóðsins.
    Á yfirstandandi skólaári hafa um 1.400 félagsmenn Iðnnemasambandsins verið á lánum hjá sjóðnum. Það er einnig rétt að vekja athygli á því að þau þrjú námsmannasamtök sem aðild eiga að stjórn sjóðsins eru fyrst og fremst samtök bóknámsnemenda. Iðn- og verknámsnemendur, sem eru félagar í Iðnnemasambandinu og rétt eiga á lánum frá LÍN, stunda nám í eftirtöldum skólum: Iðnskólanum í Reykjavík, Iðnskólanum í Hafnarfirði, Fjölbrautaskólanum í Breiðholti, Hótel- og veitingaskóla Íslands, Fjölbrautaskóla Vesturlands, Akranesi, Iðnskólanum á Ísafirði, Fjölbrautaskólanum á Sauðárkróki, Verkmenntaskóla Akureyrar, Verkmenntaskóla Austurlands, Neskaupstað, Fjölbrautaskóla Suðurlands, Selfossi, Framhaldsskóla Vestmannaeyja og Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Keflavík. Iðn- og verknámsnemendur í þessum skólum eru ekki í neinum þeirra samtaka sem nú eiga aðild að stjórn LÍN. Iðnnemasamband Íslands telur mjög brýnt að iðn- og verknámsnemendur eigi aðild að stjórn LÍN.
    Það hefur sýnt sig í afgreiðslu mála innan stjórnarinnar að vegna vanþekkingar eru hagsmunir þeirra oft fyrir borð bornir. Það er ekki eingöngu skoðun Iðnnemasambands Íslands að samtökin eigi að hafa aðild að stjórn LÍN, heldur er það einnig skoðun Alþýðusambands Íslands, Landssambands iðnaðarmanna og hinna námsmannahreyfinganna eins og sjá má í athugasemdum við frv. til laga um LÍN. Í trausti þess að ekki standi til að skerða námsrétt iðn- og verknámsnemenda hjá LÍN vill Iðnnemasamband Íslands óska eftir þínu liðsinni við að tryggja að samtökin fái aðild að stjórn LÍN sem fulltrúi iðn- og verknámsnemanda.``
    Undir þetta rita Ólafur Þ. Þórðarson og Kristinn H. Einarsson fyrir hönd sambandsins.
    Þetta vildi ég að kæmi fram vegna orða hæstv. ráðherra sl. mánudag og ég geri mér vonir um að hæstv. ráðherra og hv. þm. meiri hlutans taki þetta til athugunar.
    Ég vildi gjarnan koma inn á fleira í sambandi við þær brtt. sem minni hlutinn leggur til á þskj. 790. Þó að hv. 4. þm. Austurl. hafi gert grein fyrir þeim þegar hann mælti fyrir nál. minni hlutans þá langar mig að koma inn á örfá atriði. Það er þá t.d. undir 2. tölul. brtt. við 3. gr. Hæstv. ráðherra taldi ekki ástæðu til þess að gera fleiri breytingar á henni þar sem ,,fjölskyldutillitið`` væri komið inn með brtt. meiri hlutans en ákvæði þess efnis að tekið skuli tillit til tekna námsmanna og maka hans er ekki inni í greininni eins og hún lítur nú út. Þetta tekjutillit er mjög mikilvægt og þróunin hefur verið sú síðustu mánuði og missiri að taka minna tillit til tekna. Þetta teljum við í minni hlutanum að sé hvorki gott né eðlilegt enda er líka mjög óhagstætt fyrir sjóðinn að fólk sem hefur nægar tekjur og þarf ekki á því að halda að taka lán í sjóðnum hafi rétt til þess. Þess vegna verður þetta tekjutillit að vera inn í lögunum að okkar mati.
    Ég var búin að gera grein fyrir Iðnnemasambandinu og eins leggjum við til að einn fulltrúi úr stjórninni sé úr röðum samstarfsnefndar háskólastigsins. Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir hefur gert grein fyrir því frekar og ég ætla ekki að eyða tímanum í það.
    Ég hef kannski ekki hvað minnst gert 6. gr. að umræðuefni en hún snýr að eftirágreiðslunum. Það er einhver almikilvægasta greinin og óásættanlegasta að áliti okkar framsóknarmanna.
    Undir 6. tölul. gerum við brtt. við 8. gr. sem snýr að endurgreiðslunum. Við viljum ekki ganga eins langt og meiri hlutinn hvað snertir upphæð föstu ársgreiðslurnar þar sem við leggjum til 34 þús. kr. sem fasta ársgreiðslu á sama tíma og meiri hlutinn er með 48 þús. kr.
    Ég gat þess áðan að grunnskólakennari, sem er á byrjendalaunum, hefur ekki nema um 800 þús. kr. í árstekjur. Það segir okkur að sú upphæð sem meiri hlutinn vill gera að fastri ársgreiðslu er þó nokkuð yfir 5% af launum og þess vegna er mjög strangt og erfitt fyrir þá sem eru á lægstu laununum að þurfa að sætta sig við þessa háu ársgreiðslu.
    Eins gerum við tillögu um það að hundraðshluti árstekna sé mismunandi eftir því hversu há laun viðkomandi hefur, þ.e. 4% af árstekjum upp að 1,2 millj. en 6% þar yfir. Þetta finnst okkur mikilvægt atriði þar sem þarna er tekið beint tillit til tekna námsmanna að námi loknu þegar þeir endurgreiða lánin. Eins komum við inn á undanþágur sem er hægt að veita við sérstakar aðstæður.

    Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að benda okkur á að þarna hafa orðið á smávægileg mistök við gerð brtt. okkar að okkur hefur láðst að taka út vaxtaákvæðið í 1. mgr. 9. gr. og var það þörf ábending.
    Undir 9. tölul. er mál sem virðist ekki í fljótu bragði stórt mál en skiptir þó þau hagsmunasamtök námsmanna, SÍNE, miklu máli að þau gætu tekið gjald af lánsumsóknum til að reka samtök sín. Það skal tekið fram að samkvæmt þessari tillögu getur námsmaðurinn óskað eftir því að gjaldið sé ekki tekið þannig að þetta er ekki ófrávíkjanlegt. Námsmaðurinn hefur tök á því að óska eftir því að gjaldið sé ekki tekið af láninu þegar hann sækir um í fyrsta sinn.
    Ég lýk brátt máli mínu, hæstv. forseti, en ég vil að síðustu segja þetta. Hér er virkilega stórmál til umræðu. Við framsóknarmenn höfum haldið því fram að ýmsu þurfi að breyta í lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna, enda ekki óeðlilegt þar sem þau eru orðin 10 ára. Það hafa námsmenn sjálfir sagt og þeir vildu taka þátt í að breyta þeim lögum sem hér um ræðir en því samstarfi var hafnað af hæstv. menntmrh. og hans mönnum þegar unnið var að smíðum frv. sem hér liggur fyrir. Í því sambandi verð ég að vitna í sérálit sem birt eru með frv. þessu til staðfestingar þar sem hæstv. ráðherra vildi ekki kannast við það í máli sínu sl. föstudag að um það hefði verið að ræða að þessu samstarfi hefði verið hafnað. Ég vil í fyrsta lagi vitna stuttlega í sérálit fulltrúa samstafsnefndar námsmannahreyfinganna í nefnd um endurskoðun laga um lánasjóðinn. Þar segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Þann 8. nóv. sl. bárust þau skilaboð til samstarfsnefndar námsmannahreyfinganna að henni yrði veittur einn fulltrúi í nefnd sem menntmrh. skipaði til að vinna að endurskoðun laga um Lánasjóð ísl. námsmanna, hér eftir nefndur LÍN. Undirritaður fékk það hlutverk að vera þessi fulltrúi í téðri nefnd. Í þessari skipan litu námsmenn svo á að ætlunin væri að komast að einhvers konar samkomulagi um framtíðarskipan LÍN líkt og gert var 1982 þegar núgildandi lög voru sett um sjóðinn. Ráðherra hafði sagt það opinberlega að fullt tillit yrði tekið til sjónarmiða námsmanna og námsmenn höfðu lagt fram hugmyndir sem umræðugrundvöll en samkvæmt þeim mátti lækka ríkisframlagið til sjóðsins umtalsvert og minnka afföll þau sem eru á endurgreiðslunum. Undirritaður taldi því að út frá þeim hugmyndum yrði unnið í nefndinni auk þeirra hugmynda sem nefnd sem menntmrh. skipaði í sumar um sama mál yrði í umræðunni. Það er skemmst frá því að segja að vinnubrögðin sem viðhöfð voru í nefndinni voru með algerum einsdæmum. Ráðherra menntamála gaf nefndinni 9--10 daga til að hrista fram úr erminni frv. til laga um LÍN. Skal þess hér freistað að gera grein fyrir störfum nefndarinnar.``
    Ég lýk þá beinni tilvitnun en fyrsti fundurinn var haldinn föstudaginn 15. nóv. og fundirnir voru fimm, sá síðasti fimm dögum síðar og vitna ég þá beint í textann, með leyfi forseta:
    ,,Þar [á þessum fimmta fundi] voru lögð fram drög að frv. en endanleg útgáfa var þó ekki tilbúin þrátt fyrir að til stæði að leggja frv. fyrir ríkisstjórn daginn eftir. Þessi hefur sem sagt verið gangur málsins síðan nefndin var skipuð. Undirritaður fór að sjálfsögðu ítrekað fram á það að nefndin fengi lengri tíma en að sögn formanns var ráðherra ekki tilbúinn til að veita hann. Vegna þessa reyndi aldrei á það hvort hægt hefði verið að ná einhvers konar málamiðlun innan nefndarinnar þannig að hún hefði getað sameinast um eitt álit. Eiginlegar samningaviðræður fóru ekki fram. Hér er undirritaður þó ekki að setja út á samnefndarmenn heldur þann æðibunugang sem ráðherra og aðstoðarmaður hans hafa sýnt í málinu.``
    Lýkur þá tilvitnun í þennan texta en undirritaður sem hér um getur er Pétur Þ. Óskarsson, núv. formaður Stúdentaráðs.
    Ég ætla einnig, hæstv. forseti, aðeins að vitna í annað sérálit sem fylgir frv. sem er undirritað af Elsu B. Valsdóttur sem ég álít að muni hafa verð fulltrúi Vöku í títtnefndri nefnd en þar segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Þann 8. nóvember skipaði menntmrh. nefnd til að endurskoða lög um Lánasjóð ísl. námsmanna. Undirritaðri bauðst óvænt sæti í þeirri nefnd sem ég þáði í þeirri trú að hlutverk nefndarinnar væri að reyna að sætta þau sjónarmið sem fram höfðu komið um breytingar á sjóðnum frá áður skipaðri ráðherranefnd annars vegar og námsmönnum hins vegar. Sú trú reyndist á misskilningi byggð. Í stuttu máli sagt var lítið sem ekkert tillit tekið til hugmynda námsmanna og það frv. sem meiri hluti hennar stendur að er að mestu óbreytt frá hugmyndum fyrri nefndarinnar. Af þeim sökum sé ég mér ekki fært að standa að því frv. og skila því þessu séráliti.`` Lýkur þá tilvitnun í sérálit Elsu B. Valsdóttur. Það liggur því alveg fyrir, hæstv. forseti, að þetta samráð var ekki haft meðan málið var í undirbúningi og meðan unnið var að samningu þessa frv. Nú er mér ekki kunnugt um hversu mikið samráð hefur verið haft við námsmannahreyfingarnar á meðan þetta frv. hefur verið í menntmn. Vel má vera að einhverjir fundir hafi farið fram milli ráðherra og þessara fulltrúa eða meirihlutamanna og þessara fulltrúa sem hæstv. ráðherra er að vitna til þegar hann talar um að það hafi verið haft mikið samstarf við þá. Það væri fróðlegt að fá það fram í umræðunni. En eftir því sem ég best veit eru fulltrúar námsmannahreyfinganna andvígir því frv. sem nú liggur fyrir og er til 2. umr.
    Fjárhagserfiðleikar lánasjóðsins eru ekki nýtilkomnir. Að hluta til er um svipaða erfiðleika að etja og í fleiri sjóðum. Við lánuðum út óverðtrtryggða peninga og verðbólgan var há. Þeir sem fengu lán á þeim tímum greiddu lánin ekki til baka. Nú ætlar sú kynslóð sem ekki greiddi til baka lán sín úr lánasjóðnum að setja lög á Alþingi og gera þeim sem nú eru í námi að greiða þann vanda. Er ekki eitthvað athugavert við slík vinnubrögð? Við framsóknarmenn viljum fyrst og fremst reyna að láta gott af okkur leiða í þessu máli sem öðrum. Ég útiloka ekki enn þá, ég er nú svo bjartsýn, að við munum geta staðið að samþykkt þessa frv. ef það verður tekið til nefndar milli 2. og 3. umr. og þar verði reynt að ná saman um einhverja málamiðlun til þess að forða stórslysi. Ég get sagt að þær brtt. sem minni hlutinn leggur fram eru mismikilvægar að mínu áliti og ég væri fyrir hönd míns þingflokks til með að versla við meiri hlutann ef um það væri að ræða, en kannski er það alls ekki. Kannski er þetta algjörlega endanlegt og þá munum við framsóknarmenn ekki standa að samþykkt þessa frv., það liggur alveg fyrir því að það er stórslys að samþykkja það eins og það liggur nú fyrir.
    En ég skora á hv. stjórnarsinna að skoða þetta mál vel áður en þeir styðja á græna hnappinn á hv. Alþingi til samþykktar þessu frv. og þá alveg sérstaklega hvað snertir eftirágreiðslurnar. Það er ekki bara harður kostur eins og formaður menntmn. kallar það gjarnan að setja slíkt kerfi á, það er afleitur kostur.