Lánasjóður íslenskra námsmanna

129. fundur
Miðvikudaginn 29. apríl 1992, kl. 21:25:40 (5683)


     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Það má segja að það séu einkenni á stefnu þessarar ríkisstjórnar að á öllum sviðum grípur hún til mjög sértækra aðgerða og þær eru svo sértækar að ríkisstjórnin leitast við að elta uppi alveg sérstaka hópa í þjóðfélaginu. Af þessu höfum við auðvitað reynslu, finnum og vitum hvernig þetta var gert með lagasetningunni um ráðstafanir í ríkisfjármálum fyrir árið 1992 þegar öryrkjarnir voru skattlagðir með tekjutengingu, þegar sjúklingarnir voru skattlagðir með lyfjaskatti, sem reyndar gerðist löngu áður, ellilífeyrisþegarnir voru sérstaklega skattlagðir með tekjutengingu, sjómennirnir voru sviptir að hluta til sjómannaafslættinum, fjölskyldurnar voru skertar í tekjum með því að barnabæturnar voru lækkaðar, á námsmenn voru lögð skólagjöld og nú er enn ein aðförin að námsmönnum sem á að verða í gegnum Lánasjóð ísl. námsmanna. En staðreyndin er bara sú að þetta er ekki aðeins aðför að námsmönnum, þetta er nefnilega aðför að fjölskyldunum í landinu. Fjölskyldunum sem hafa ekki haft og hafa ekki efni á ef lánasjóðurinn er ekki til staðar að kosta börn sín til náms. Og það sem ég er hræddur við að ef þetta frv. sem hérna liggur nú fyrir í 2. umr., eftir endurskoðun menntmn., nær fram að ganga þá muni þessi staða hugsanlega koma upp. Það verði margir sem verði bæði að hverfa frá námi og ekki komast í nám af þeirri ástæðu að lánasjóðurinn getur ekki stutt við bakið á þeim eins og hann gerði áður.
    Ég vil þó taka fram að mér finnst að eftir 2. umr. og skoðun menntmn. á frv. að það hafi tekið verulegum stakkaskiptum til hins betra. Það verður auðvitað að viðurkennast að það eru ýmsar breytingar sem þarna eru boðaðar í brtt. frá meiri hluta nefndarinnar sem eru til bóta. Ég vil kannski sérstaklega þakka hæstv. menntmrh. fyrir það af þeirri ástæðu að hann lýsti því yfir við 1. umr. málsins að hann væri tilbúinn til í samvinnu við menntmn. að líta til ýmissa þátta við endurskoðunina áður en málið kæmi hingað inn til 2. umr.
    En fram til þessa eða frá árinu 1982 má eiginlega segja að það hafi ríkt þjóðarsátt um Lánasjóð ísl. námsmanna. Lögin frá 1982 voru samningur milli námsmanna og ríkisvaldsins og í raun og veru við þingið líka. Það voru allir stjórnmálaflokkar, námsmenn og á síðustu stigum í meðferð þess frv. menntmn. þingsins sem stóðu að vinnslu málsins þannig að þarna náðist samstaða um það hvernig þau lög skyldu líta út. Um þau lög hefur verið góð samstaða fram undir þetta þó svo að margsinnis á árunum 1983--1987 eða 1988 hafi menntmrh. Sjálfstfl. ítrekað reynt að ná fram breytingum á gildandi lögum og hafa lagt í þeirri stjórnartíð, sem við framsóknarmenn vorum með þeim, mjög hart að Framsfl. að standa að slíkum lagabreytingum. Þetta reyndu hv. menntamálaráðherrar eins og Sverrir Hermannsson, Birgir Ísl. Gunnarsson og Ragnhildur Helgadóttir. Staðreyndin var hins vegar sú að Framsfl. var ekki tilbúinn til þess á þeim tíma og er ekki tilbúinn til þess enn að standa að slíkum breytingum af þeirri ástæðu að í raun og veru er ekki komin reynsla á lögin þó svo að þau séu 10 ára gömul. Og það var ekki búist við því þegar menn gerðu þetta samkomulag 1982 að það væri komin fullkominn reynsla á þessi lög fyrr en eftir aldamót. Á fyrsta til fimmta ári eftir aldamót. En þá var líka gengið út frá því að lánasjóðurinn hefði ákveðið ríkisframlag á ári hverju fram til þessa tíma. Staðreyndin er hins vegar sú að það hefur aldrei verið staðið við það af hálfu ríkisvaldsins að ríkisframlagið væri að fullu greitt og alveg sama hvaða flokkar hafa setið í ríkisstjórn á þessum tíma. Sjóðnum hefur ávallt verið vísað á lánamarkaðinn hvort sem það hefur verið til erlendrar lántöku eða lántöku hér innan lands til að geta staðið undir þeim skuldbindingum sem honum voru lagðar á herðar. Eins og ég sagði áðan þá var ítrekað reynt af hálfu Sjálfstfl. að ná fram breytingum á þessum lögum sem núna eru í gildi en það tókst ekki

og þar stóðum við framsóknarmenn á móti.
    Nú er hins vegar önnur staða uppi. Sjálfstfl. fer með menntamálin í þessari ríkisstjórn og er í samstarfi með stjórnmálaflokki sem er svo ístöðulaus og svo metnaðarlaus fyrir hönd þess fólks sem kaus hann í síðustu kosningum að hann stendur ekki og treystir sér ekki til að standa gegn þeim breytingum sem hérna eru boðaðar og kem ég aðeins að því á eftir.
    Það var ítrekað reynt af menntmrh. Sjálfstfl. á árunum 1983--1987 að ná fram breytingum á lögunum. Það gekk ekki en þá fóru þeir þá leið að breyta sífellt reglugerðunum. Þar er nú til sorgarsaga sem lýsir því hvernig að þeim hlutum öllum var staðið. Alþfl. hefur heldur ekki treyst sér til að standa á móti slíkum breytingum og hefur ekki sýnt neina tilburði til þess. Strax sl. haust eftir að ríkisstjórnin var tiltölulega nýtekin við voru námslánin skert um 16,7%. (Gripið fram í.) Alþfl. er ekkert í þessum sal og treystir sér auðvitað ekki til þess að sitja hérna inni þegar svona mál eru til umræðu. Vegna þess að það er auðvitað sárt að sitja undir því að vera bæði metnaðarlaus og ístöðulítill flokkur og treysta sér ekki til að standa með því fólki sem lagði traust sitt á hann í síðustu kosningum. Þó hafa ungir jafnaðarmenn gert heiðarlegar tilraunir til að fá þingflokk sinn til að standa gegn og leiðrétta lítils háttar af þeim ógæfuverkum sem nú er verið að vinna á lögunum um lánasjóðinn. Hér er ég með í höndunum frá Sambandi ungra jafnaðarmanna tillögu að áskorun til þingflokksins. Þessi tillaga sem samþykkt var í flokksstjórn Alþfl. hljóðar svo, með leyfi forseta: ,,Flokksstjórn skorar á þingflokk Alþfl. að beita sér fyrir eftirfarandi breytingum á frv. til Alþingis um Lánasjóð ísl. námsmanna.`` Hér hefur nú eitthvað skolast til í textanum. ( Gripið fram í: Þeir eru svona.) Þeir eru svona, já. En þeir leggja til að breyting verði gerð á 6. gr. Sá málsliður, að námslán skuli aldrei veitt fyrr en námsmaður hefur skilað vottorði um tilskylda skólasókn og námsárangur, falli brott. Og í stað þess komi: ,,Fyrsta námsaðstoð skal aldrei veitt fyrr en námsmaður hefur skilað vottorði um tilskylda skólasókn og námsárangur á yfirstandandi skólaári.``
    Auðvitað er þarna alveg gríðarlegur munur á. En þingflokkur Alþfl., sem ungir jafnaðarmenn að mér sýnist með þessari ályktun hafi verið að leggja traust sitt á og trúað að mundi beita sér fyrir því hér á Alþingi að þetta næði fram að ganga, hefur í raun og veru hafnað þessu eða a.m.k. kom ekkert fram um það hjá hv. 11. þm. Reykn. áðan að það væru tilburðir uppi hjá Alþfl. til að berjast fyrir að koma þessari breytingu á. Því fyrir utan þær grundvallarbreytingar sem er verið að gera á námslánakerfinu þá er þetta kannski það atriði sem erfiðast verður fyrir námsmenn í framtíðinni að búa við. En ég skil það í sjálfu sér hvað það er sem ríkisstjórnin er að gera. Hún er einfaldlega að fara þá leið að sýnast. Að sýnast í því á næsta ári að menn hafi skorið niður kannski á bilinu 800--1.200 millj. kr. við lánasjóðinn með því að fresta þessum greiðslum aðeins í eitt ár. Þarna er í raun um mjög svipaða aðgerð að ræða og þegar menn lifðu hér skattlausa árið svokallaða. Þetta er engin framtíðarlausn á málefnum lánasjóðsins, síður en svo. Árið 1982 voru allir stjórnmálaflokkar sammála um þau meginmarkmið sem lögð voru til með lögunum sem þá voru samþykkt. Ég ætla aðeins að fara yfir hver þessi markmið voru. Og ræða síðan örlítið um þær breytingar sem núna er verið að gera á lánasjóðnum út frá þeim markmiðum sem þá voru lögð til og allir stjórnmálaflokkar stóðu að og sýna fram á þá grundvallarbreytingu sem nú er verið að gera á þessum sjóði námsmanna sem á að vera til þess að tryggja að það ríki fullkomið jafnrétti til náms.
    Fyrsta markmiðið var þetta: Að ná því fram að það væri fullkomið jafnrétti til náms milli allra námsmanna.
    Í öðru lagi. Það átti að taka tillit til aðstæðna námsmanna meðan á námi stæði.
    Í þriðja lagi. Lánin áttu að vera vaxtalaus.
    Í fjórða lagi. Endurgreiðsla lánanna átti að vera tekjutengd.
    Í fimmta lagi var stefnt að því að ná sem allra hæstu endurheimtuhlutfalli fyrir sjóðinn aftur af þeim fjármunum sem lánað var út úr sjóðnum. Hins vegar hefur það ekki tekist og ég kem inn á það síðar. Ekki vegna þess að kerfið hafi bilað heldur vegna þess að ríkisstjórnir --- hvaða ríkisstjórnir sem hafa verið --- hafa farið þá leið að auka lántökur

sjóðsins, auka þar af leiðandi vaxtamuninn og útgjöld sjóðsins og það er meginástæðan fyrir því að endurheimturnar hafa ekki náðst.
    Lítum á fyrsta og annað markmiðið í sameiningu sem eru jafnrétti til náms og það að taka tillit til aðstæðna námsmanna á meðan á námi stendur. Til þess að þetta sé í raun og veru hægt, að taka tillit til aðstæðnanna og að tryggja jafnrétti, þarf að vera skýrt ákveðið í lögunum og ekki neinar loðnar yfirlýsingar um það eins og nú er í þessu frv. að stjórn lánasjóðsins skuli síðan ákveða hvað það skuli vera sem leggja skuli til grundvallar þegar ákveða á hvernig lánin eigi að greiðast og hver upphæð þeirra eigi að vera. Það á að taka tillit til tekna námsmanna. Það á að taka tillit til tekna, það á að taka tillit til fjölskyldustærðar námsmanna, það á að taka tillit til framfærslukostnaðar námsmanna á þeim stað þar sem þeir stunda nám og það á að taka tillit til námstímans. Ekkert af þessu er inni í frv. eins og það var fyrst kynnt hér af hálfu menntmrh. Nú er hins vegar gert ráð fyrir því í brtt. að það verði tekið tillit til fjölskyldustærðar þegar framfærsla námsmannsins er ákveðin. En hvað segir það? Það segir afskaplega lítið vegna þess að ekki á að taka tillit til framfærslukostnaðar. Það á heldur ekki að taka tillit til tekna og þannig mætti lengi telja. Þess vegna er til einskis að setja þetta eina orð þarna inn, sem er fallegt á pappír og ekkert annað. Það mun engu breyta um að stjórn sjóðsins hefur eftir sem áður öll tök á því að standa að öllum þeim skerðingum sem menntmrh. leggur henni á herðar hverju sinni ef henni sýnist svo. Þannig má segja að frv. kollvarpi í raun öllu því sem menn stefndu að með því að taka tillit til aðstæðna námsmanna og að tryggja jafnrétti til náms ef þetta nær fram að ganga óbreytt.
    Ef ég man rétt hefur það heyrst, reyndar ekki haft eftir hæstv. menntmrh. heldur aðstoðarmanni hans, ég fann þetta reyndar ekki í dag þegar ég var að leita að því, að það standi til að draga úr tekjutilliti í úthlutunarreglum sem núna eru í smíðum. Ég vil því spyrja hæstv. menntmrh., hefur hann gert sér grein fyrir því hvað það í raun og veru þýðir að draga úr tekjutillitinu? Það þýðir einfaldlega að verið er að opna sjóðinn fyrir fleirum. Það er verið að opna möguleika fyrir þá sem hafa verulegar tekjur og búa við góðar aðstæður til þess að taka lán. Lánin verða með 1% vöxtum en þeir munu ekki hindra námsmenn í að taka slík lán hvort sem þeir þurfa á þeim að halda eða ekki vegna þess að 1% vextir eru mjög hagstæðir. Námsmenn munu auðvitað fara með þessa fjármuni út á markaðinn og ávaxta þá miklu betur og ekki trúi ég því að sá sé tilgangurinn.
    Fullyrðingar menntmrh. um að jafnrétti til náms verði aðeins tryggt með því að breyta lögunum um lánasjóðinn því annars verði hann gjaldþrota og þá ekki um neina aðstoð að ræða eru að mínu viti fjarstæða. Þegar ég held því fram vil ég vitna, með leyfi forseta, í greinargerð Ríkisendurskoðunar um fjárhagsstöðu Lánasjóðs ísl. námsmanna frá því í apríl 1991. Þar segir:
    ,,Lánþegar lánasjóðsins eru tæplega 24 þús. Útistandandi námslán nema um 25 milljörðum kr. En sú fjárhæð hefur verið færð niður um 3,9 milljarða kr. í ársreikningi vegna lána sem ekki munu innheimtast að fullu vegna þeirra takmarkana sem eru á endurgreiðslu námslánanna. Útlán sjóðsins dreifast þannig að um 60% lántakenda skulda innan við 1 millj. kr. Aðeins um 1% lántakenda skulda 5 millj. kr. eða meira. Ríkisframlög til sjóðsins hafa verið nokkuð sveiflukennd á undanförnum árum. Á sl. áratug hefur hlutfall ríkisframlags í fjármögnun sjóðsins sveiflast frá 50--90%. Sveiflur þýða í raun að á sumum árum hefur verið greitt meira en sem svarar kostnaði við námslánakerfið og önnur ár hefur verið greitt minna. Helstu niðurstöður um fjárhagsstöðu lánasjóðsins og kostnaður við námsaðstoð eru eftirfarandi,`` og vil ég bara vitna í fyrsta atriði Ríkisendurskoðunar:
    ,,Lánasjóðurinn getur staðið undir öllum núverandi skuldbindingum með eigin fé sínu. Ef sjóðnum hefði verið lokað í árslok 1990 gæti hann staðið við allar sínar skuldbindingar án þess að þurfa á frekari ríkisframlögum að halda. Þar að auki gæti sjóðurinn endurgreitt ríkissjóði að nafnverði rúmlega 9 milljarða af eigin fé sínu sem var rúmlega 13 milljarðar kr. um síðustu áramót. Ef þessir 9 milljarðar eru færðir til núvirðis miðað við 6% ávöxtunarkröfu verður útkoman 3 milljarðar kr.``
    Það er auðvitað ekki hægt að halda því fram, hæstv. menntmrh., að sjóður sem býr

við slíka fjárhagsstöðu sé gjaldþrota, að námslánakerfið sé að hrynja og ef ekki verði gripið til róttækra aðgerða til að breyta lögunum um Lánasjóð ísl. námsmanna sé jafnrétti til náms horfið út í veður og vind af því að Lánasjóður ísl. námsmanna sé gjaldþrota. Slíkar fullyrðingar geta auðvitað ekki staðist. Ég geri mér hins vegar fullkomna grein fyrir því að Lánasjóður ísl. námsmanna á í greiðsluerfiðleikum en það eru leiðir til þess að bæta greiðslustöðu hans og kem ég inn á þær hér á eftir.
    Eitt atriði enn tel ég að skipti verulega miklu máli ef við ætlum í raun að tryggja það að námsmenn geti búið við bærilegar aðstæður á námstímanum hvað varðar það að ekki sé sífellt verið að hringla í framfærslunni. Það kom fram í máli hæstv. menntmrh. í fyrradag þegar rætt var um svokallaða framfærslunefnd, eins og hún var kölluð, en það er nefnd sem hefur það hlutverk skv. 3. gr. laganna að finna út ef óskir koma fram um breytingar á framfærslunni, hvort þær breytingar séu á rökum reistar. Ástæðan fyrir því að þetta er komið inn í lögin er sú að í maí 1990 voru samþykkt lög frá þinginu sem var breyting á gildandi lögum um námslán og námsaðstoð og fólu það í sér að framfærslunefnd var komið á fót. Hæstv. menntmrh. sagði að það væri alveg óþarfi að vera að útbúa eina nefndina enn. Hér er auðvitað ekki verið að útbúa neina nefnd. Þessi nefnd er til staðar, hún er í gildandi lögum en það er verið að fella hana á brott í því frv. sem núna liggur fyrir þinginu.
    Hvers vegna skyldi hafa verið nauðsynlegt að koma þessu ákvæði inn í lögin? Ég held að hæstv. menntmrh. hefði gott af því að hlusta á hvaða ástæður lágu þar að baki.
    Þegar lögin um lánasjóðinn höfðu verið samþykkt í maí 1982, var sett reglugerð á grundvelli laganna. Í þeirri reglugerð eru ákvörðunaratriði um lánsupphæðir, hvernig þær skulu vera með tilliti til þróunar verðlags, gengis og launa. Gert var ráð fyrir að framfærslukostnaður á námsdag breytist að öllu jöfnu með þróun verðlags eða gengis og að stjórn lánasjóðsins skuli fylgjast með því hvernig þessar tölur þróast í samanburði við launatekjur. Á tímabilinu 1982--1987 voru gerðar fimm breytingar á einum staflið 21. gr. reglugerðarinnar. Það sem öllum þessum breytingum var sameiginlegt var að það voru menntmrh. Sjálfstfl. á þessum tíma sem sífellt voru að hringla í framfærslunni. Og hver var niðurstaðan? Niðurstaðan var sú að frv. var flutt á haustþingi 1988 af þeim sem hér stendur og fleiri þingmönnum og samþykkt í maí 1989 og til þess gert að tryggja það að ekki væri verið að hringla með framfærsluna eins og gert var á þessum tíma, en þá var framfærsla námsmanna skorin niður á bilinu 5--20%. Nú segir hæstv. menntmrh.: Ekkert helvítis nefndarfargan. Við skulum sleppa þessu og opna í raun og veru nákvæmlega það sem var eitt mesta vandamál sjóðsins á þeim tíma þegar sjálfstæðismenn fóru með reglugerðarvaldið.
    Þá kem ég að vöxtunum á námslánin. Því hefur verið haldið fram og var gert áðan af hv. 11. þm. Reykn. að formaður Framsfl. hafi við 1. umr. málsins léð máls á því að það ætti að leggja vexti á námslán. Af þessu tilefni las ég yfir ræðu þá sem hann flutti við 1. umr. og þessar fullyrðingar, þær hafa reyndar áður komið fram við umræðuna, eru á misskilningi byggðar. Ég ætla að fá að vitna í það sem hv. 7. þm. Reykn. Steingrímur Hermannsson sagði við 1. umr. þessa máls og um vextina, með leyfi forseta:
    ,,Ég vil segja það sem mína persónulegu skoðun að mér finnst t.d. ofrausn af íslenska ríkinu að kosta menn með námslánum til starfa erlendis, til að setjast að erlendis. Það væri gaman að vita ef hæstv. menntmrh. hefur þær upplýsingar: Hvað eru þeir margir íslenskir námsmenn sem hafa sest að erlendis? Þeim fjölgar eflaust gífurlega á næstunni miðað við þá stefnu sem hér er í atvinnumálum. Ef þeim sem setjast að erlendis væri t.d. gert að greiða vexti og greiða lánið með jöfnum afborgunum á einhverjum ákveðnum og skemmri tíma --- ég segi fyrir mitt leyti að svona hugmyndir gæti ég skoðað og ég er sannfærður um að það mundi spara ríkissjóði stórar upphæðir og þá væri jafnframt hægt að gera betur við þá námsmenn sem ætla sér að nýta sína menntun fyrir íslenska þjóð og það er vitanlega það sem við leggjum höfuðáherslu á.``
    Auðvitað er reginmunur á því hvort menn eru að tala um vexti á lán til þeirra námsmanna sem koma ekki heim að námi loknu eða því hvort menn eru að tala um að

setja vexti almennt á námslánin. Ég ætla að gera örlitla grein fyrir því.
    Af hálfu okkar framsóknarmanna eru rökin fyrir því að vextir á námslán komi ekki til greina þau að sá arfur sem þjóðin hlýtur af menntuninni, sú arðsemi sem þeir skapa fyrir íslenskt þjóðarbú sem afla sér menntunar er svo mikil að það er réttlætanlegt og eðlilegt að menn líti svo á að lánin eigi að vera vaxtalaus og að það sé í raun og veru framlag opinberra aðila til viðkomandi einstaklings og hann sé ekki látinn endurgreiða lánin með vöxtum. Þarna koma vaxtagjöld ríkisins á móti þeim arði sem ríkið og þjóðarbúið fær af menntuninni.
    Hins vegar finnst okkur eðlilegt, það sem formaður Framsfl. sagði í ræðu sinni og ég vitnaði í áðan, að þeir sem aldrei koma heim að námi loknu, greiða alla sína skatta og skyldur erlendis og íslenska þjóðin nýtur aldrei arðsins af þeirri menntun sem þeir hafa fengið fyrir ekki neitt, vaxtalausa og kostuð að hluta til af ríkinu, endurgreiði lán sín með fullum vöxtum. Ef það er ekki gert eins og er núna, getum við litið svo á að vaxtaleysi til þessa hóps séu í raun og veru útflutningsbætur með námsmönnum vegna þess að íslenska ríkið greiðir með þeim af því að enginn arður kemur hingað heim af menntun þeirra.
    Því er haldið fram að 1% vextir á námslán séu hagstæðir. 1% vextir á hvaða lán sem er, er auðvitað hagstætt lán. Að opna þann möguleika í lögunum að setja vexti á lánin, er það sem við framsóknarmenn setjum okkur upp á móti. En það er fráleitt að halda því fram, eins og hv. formaður menntmn. gerði þegar hann mælti fyrir nál. meiri hlutans, að 1% vextir sköpuðu ráðdeild hjá námsmönnum og virðingu fyrir því hvernig þeir ráðstöfuðu sínum lánum og halda það að 1% vextir takmarki einhvern aðgang að námslánakerfinu. Ef menn vita eitthvað hvað er að gerast á fjármagnsmarkaðnum og ef vextirnir einir eiga til að byrja með að vera 1% og vera það stjórntæki sem takmarkar aðgang námsmanna að lánasjóðnum, eru menn á miklum villigötum. Ég er sannfærður um að þá, ef það yrði nú niðurstaðan í úthlutunarreglunum þegar þær verða tilbúnar 1. júní og ef það væri stjórntækið, yrðu útgjöld lánasjóðsins talsvert miklu hærri en menn almennt gerðu sér grein fyrir í upphafi.
    Tekjutengdar endurgreiðslur. Ég fagna því að sú breyting sem gerð er af hálfu meiri hlutans að hverfa frá því atriði sem var í frv. eins og það birtist í 1. umr. Þar var í raun og veru ekki um tekjutengdar endurgreiðslur að ræða. Þar var um þrefaldan námstíma að ræða og það má frekar kalla tekjutengdar endurgreiðslur með þaki. Sem betur fer áttuðu nefndarmenn í menntmn. sig á því að hefði þetta náð fram að ganga, hefði greiðslubyrðin af þeim lánum sem þessi hópur hefði þurft að taka orðið óbærileg. Það sem er alvarlegast í þeim hertu endurgreiðslureglum sem núna eru boðaðar í brtt. og eru verulega hertar frá því sem áður var, er að gert er ráð fyrir því að endurheimtur sjóðsins fari yfir 100%. Auðvitað eru það vextirnir sem gera það að verkum að endurheimtuhlutfallið fer yfir 100%. Námsmenn komu með tillögur um breytt endurgreiðslukerfi og buðu upp á samstarf við menntmrh. um breytt fyrirkomulag sem skilaði lánasjóðnum 400--500 millj. kr. hærra endurheimtuhlutfalli. Hins vegar er ljóst að hertar endurgreiðslureglur nú kalla á auknar kjarakröfur, þ.e. þegar kemur að því að þeir sem lánin taka eiga að fara að endurgreiða þau.
    Vegna þess að hæstv. menntmrh. tók vel í það við 1. umr. að láta kanna sérstaklega tvískipt endurgreiðslufyrirkomulag sem ég ræddi um í 1. umr. vil ég gjarnan spyrja hann hvað tvískipt endurgreiðslukerfi í raun og veru þýddi fyrir lántakendur, þ.e. þannig að 25 fyrstu árin yrðu endurgreiðslurnar tekjutengdar og næstu 15 árin yrðu þannig að þá yrði um jafngreiðslulán að ræða. Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að það mun verulega auka greiðslubyrði þeirra á síðustu 15 árunum. Hins vegar kemur það í ljós í þeim gögnum sem nú liggja fyrir, ég held þau séu frá Ríkisendurskoðun, að innan við 1% námsmanna eða lánþega sjóðsins skulda yfir 5 millj. kr. En ég vildi spyrja menntmrh. hvort þetta var kannað og hvaða áhrif það hafi haft.
    Endurheimtur til sjóðsins. Í upphafi máls míns sagði ég að eitt vandamál blasti við lánasjóðnum og það væri að endurheimtuhlutfallið hefði ekki orðið eins hátt og búist hafði verið við. Ég rakti ákveðnar ástæður fyrir því. Þegar ég fékk í hendur pappíra frá fulltrúa Framsfl. í menntmn. þingsins í gær kom það mér hins vegar á óvart að samkvæmt núverandi kerfi eru endurheimtur sjóðsins í kringum 91%. Því hefur lengi verið haldið fram að þær væru mun lægri, á bilinu 80--85%. Ég vil undirstrika að í rauninni er ekki farið að reyna á lögin sem samþykkt voru 1982. Hækkandi endurheimtuhlutfall sannfærir mig um það að við erum á réttri leið ef við höldum áfram með núgildandi kerfi. Endurheimtuhlutfallið er að hækka. En það eru auðvitað lántökurnar sem hafa verið á bilinu 50--90% fyrir sjóðinn sem gera það að verkum að endurheimtuhlutfallið er þó þetta lágt sem mörgum hefði þótt ágætt.
    Ég er sannfærður um að þessar hertu endurgreiðslur sem núna eru í tillögum meiri hluta menntmn. munu, þegar fram líða stundir, kalla á verulega auknar kaupkröfur. Því er það svo að þeir sem ætla að bera ábyrgð á þessari lagasetningu á þinginu eru að ýta því vandamáli sem við búum við í dag yfir á framtíðina. Þegar við komum að því að auknar kaupkröfur koma til vegna þess að greiðslubyrðin af lánum lánasjóðsins er óbærileg þá verður það kallaður fortíðarvandi. Þá verður það fortíðarvandi þeirra manna sem ætla sér nú að beita sér fyrir því að fá frv. samþykkt.
    Við þekkjum þennan fortíðarvanda og skal ég nefna tvö dæmi um hvernig menn velta vandamálum líðandi stundar yfir á framtíðina. Það var í fyrirspurnartíma á Alþingi ekki alls fyrir löngu þegar hv. þm. Össur Skarphéðinsson spurði hæstv. heilbr.- og trmrh. um kjör lækna. Þá kom í ljós að 1980--1982 hafði verið samið þannig við lækna að þeir geta starfað að nokkrum hluta í vinnutímanum fyrir utan þær stofnanir sem þeir eru ráðnir á og aflað sér þannig verulegra tekna. Þeir hafa líka rétt til þess að fara í ferðalög, svokallaðar námsferðir. Á þeim tíma er um þetta var samið voru menn að leysa vandamál þess tíma. Hæstv. fjmrh. sem þá var, Ragnar Arnalds, setti aðstoðarmann sinn, Þröst Ólafsson, sem núna vill leysa fortíðarvandann með gjaldþrotum, í að ganga frá þessum kjarasamningum sem auðvitað sköpuðu veruleg framtíðarvandamál og fortíðarvandann sem við búum við núna að hluta til. Það er þetta sem menn þurfa auðvitað að hafa í huga þegar menn ætla að komast létt hjá vandamálunum, eins og menn ætla með þessu frv., og eins og menn eru núna að gera með því að fresta um eitt ár útgjöldum sjóðsins upp á einn milljarð kr.
    Í því skjali sem dreift var í gær til fulltrúa í menntmn. kom fram samanburður á endurheimtuhlutfallinu í gildandi kerfi og svo eftir mismunandi vöxtum og mismunandi tekjutengingu. Þá kemur í ljós að með því fyrirkomulagi sem lagt er til mun endurheimtuhlutfall lánasjóðsins fara talsvert yfir 100%. Sjálfstfl. hefur haldið því mjög á lofti í umræðunni, ég hef reyndar ekki heyrt það af munni hæstv. núv. menntmrh., að það alvarlega við það kerfi sem við búum við í dag sé að nokkur hluti námsmanna taki sér sjálfkrafa námsstyrki. Þetta er í raun og veru rétt. Þeir sem eru komnir með lán upp að ákveðinni upphæð og vita að í framtíðinni muni þeir ekki hafa það háar tekjur að þeir greiði þessi lán til baka álíta kannski að það sé allt í lagi að taka meira einfaldlega vegna þess að þeir muni ekki greiða lánið. Þar er auðvitað um námsstyrki að ræða.
    Þær tillögur sem núna liggja fyrir og eiga að taka á þessu vandamáli gera það alls ekki. Það sjáum við best ef við berum saman og lítum á bls. 14 og bls. 15 í áliti minni hluta menntmn. og berum saman viðskiptafræðinginn og hjúkrunarfræðinginn sem báðir eru einstæðir foreldrar með eitt barn og hafa verið með í meðallán 564.318 kr. Viðskiptafræðingurinn verður búinn að greiða sitt lán upp þegar hann verður 42 ára. En hjúkrunarfræðingurinn skuldar 1,9 millj. kr. þegar hann fer á tekjutengda ellilífeyrinn sem Alþfl. hefur skammtað honum í dag. (Gripið fram í.) Ég er að miða við 3% vexti, hv. þm. Sigríður Anna, vegna þess að ég er alveg sannfærður um að menntamálaráðherratíð núv. menntmrh. verður ekki liðin þegar vextirnir verða orðnir talsvert hærri en 3%. 1% vextir af hálfu ríkisstjórnarinnar í dag er sýndarmennska til þess að friða námsmenn í andstöðu við frv. Það er í raun ekkert annað sem verið er að gera. Það er verið að bjóða 1% vexti og telja mönnum síðan trú um það í umræðunni að þeir muni ekki hækka. En þetta mun líta nákvæmlega eins út þó við skoðum þetta út frá 1% vöxtum. En það undirstrikar það sem ég var að segja áðan að breytingin verður engin. Ákveðinn hópur námsmanna heldur áfram að fá sjálfkrafa námsstyrki. Það markmið sem menn ætluðu að ná, að allir mundu greiða sín lán til baka, og menn gætu ekki sjálfkrafa tekið sér styrkina, næst ekki. Það undirstrika þær tölur sem eru í þeim útreikningum sem minni hluti menntmn. hefur lagt hér fram í þskj. Þetta markmið bregst.
    Ég tek undir það sem kemur fram í áliti minni hluta menntmn. þar sem minni hlutinn telur að fyrir utan þessar grundvallarbreytingar sem er verið að gera á því fyrirkomulagi sem við höfum haft á námsaðstoðinni, sé lúalegasta breytingin sú sem kemur fram í 6. gr. þar sem aldrei er veitt námsaðstoð fyrr en að viðkomandi hefur sýnt fullkominn námsárangur og skilað þar um tilskildum vottorðum. Þetta er rökstutt með því að nú séu 50 millj. kr. útistandandi á einhvern óskilgreindan hóp sem hefur einhverra hluta vegna tekið þessi lán og ekki skilað þeim til baka. Svona aðgerð er auðvitað ekki réttlætanleg til þess eins að ná því markmiði að bæta innheimtuna. Ég spyr hæstv. menntmrh.: Hvernig gengu embættismenn frá málum við þessa einstaklinga þegar þeir greiddu út lán? Hvernig eru ábyrgðirnar sem að baki þessum 50 millj. kr. standa ef ekki er hægt að innheimta þær? Það er auðvitað innheimtukerfið sem á að styrkja þegar svona vandamál koma upp en ekki að láta námsmenn framtíðarinnar gjalda þess --- ég þori ekki að fullyrða það þó --- að slælega sé staðið að innheimtu af hálfu lánasjóðsins. Auðvitað eiga þeir sem hætta námi, og ég tek undir það með menntmrh., en hafa fengið námsaðstoð strax á fyrsta ári og hætt námi að greiða til baka og það á að ganga eftir því við þessa einstaklinga að lánin séu greidd til baka. En það þarf ekki að gera með því að velta vandamálinu yfir á námsmennina sem eiga eftir að koma og þurfa að njóta aðstoðar þessa sjóðs. Hæstv. menntmrh. mótmælti því í umræðunni í fyrradag að þetta þýddi skerðingu á framfærslunni hjá námsmönnum vegna þess að svo lítill hluti námsmanna færi inn í bankakerfið til þess að taka lán til að fjármagna framfærslu sína þar til þeir fengju næst lán. Þarna gætir mikils misskilnings af hálfu ráðherra. Það kann vel að vera að reynslan segi okkur að þeir námsmenn sem hafa ekki fengið lán fyrr en eftir fyrstu önn og hafa þurft að nýta sér bankana séu mjög lítið hlutfall af heildarnámsmönnum á þeirri önn. Það er hins vegar svo að þessi hópur er að koma til náms eftir að hafa verið í fullri vinnu úti á vinnumarkaðinum og haft þar af leiðandi verulegar tekjur og sparað fyrir náminu og ekki þurft á aðstoð sjóðsins að halda. Hins vegar er hér gert ráð fyrir því að sýnd sé eðlileg námsframvinda og gerðar ákveðnar kröfur í þeim efnum. Það verður ákveðið í úthlutunarreglum, sjálfsagt eftir því hvaða menn eru í stjórn sjóðsins hverju sinni. Það þýðir auðvitað að þessir sömu námsmenn geta ekki verið á vinnumarkaðinum á sama tíma til að afla sér tekna og þar af leiðandi hafa þeir ekki haft tekjur og þurfa alltaf árið eftir á aðstoð bankanna að halda til þess að geta framfleytt sér á meðan þeir bíða eftir námsaðstoðinni frá sjóðnum. Það er örugglega ekki ofáætlað að hér gæti verið um 10% skerðingu að ræða til viðbótar við þá 16,7% skerðingu sem varð á framfærslunni á síðasta hausti.
    Þegar ég hef borið saman þau markmið sem lögð voru til grundvallar með lögunum frá 1982 og því sem felst í frv. sem hér liggur fyrir við 2. umr. þá fullyrði ég hiklaust að það frv. eykur á misréttið. Það mun verða til þess að ekki stór, en einhver tiltekinn hluti námsmanna þarf að hætta námi, einhver tiltekinn hluti þeirra sem ljúka stúdentsprófi og hafa hug á háskólanámi mun ekki geta farið í háskólanám.
    Í öðru lagi er hætt að taka tillit til aðstæðna námsmanna og fyrir því gerði ég fulla grein áðan og það er alvarlegur hlutur sem eykur á misréttið. Það eru komnir vextir á lánin og þeir munu hækka smátt og smátt. Ég fullyrði það, því miður, að ríkisstjórn og menntamálaráðherrar í framtíðinni munu sjálfsagt hafa tilhneigingu til þess að bjarga fjárhagsstöðu lánasjóðsins á hverjum tíma með því að hækka vextina smátt og smátt. Þess vegna er það svo alvarlegt að opna fyrir það í þessu lagafrv. að vextir skuli settir á námslánin.
    Í fjórða lagi er verið að tekjutengja endurgreiðsluna og það er verið að velta vanda samtímans yfir á framtíðina.
    Í fimmta lagi er endurheimtuhlutfallið að hækka. Eftir sem áður, þótt endurheimtuhlutfallið hækki, er áfram verið að styrkja sömu hópana, það er enn þá sama fólkið, sömu lánþegarnir, sem hafa þann möguleika að taka sér námsstyrki og ráða sjálfir upphæðinni. Þetta frv., eins og það liggur fyrir, tekur ekki á því vandamáli.