Lánasjóður íslenskra námsmanna

129. fundur
Miðvikudaginn 29. apríl 1992, kl. 22:33:28 (5691)



     Valgerður Sverrisdóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég var að lesa ræðu hv. 1. þm. Vesturl. sem hann hélt við 1. umr. Þá áttaði ég mig á því að hv. þm. var mjög ánægður með frv. eins og það var lagt fram. Hann hafði að vísu smávægilegar athugasemdir fram að færa en honum fannst þetta nokkuð gott frv. Mér finnst því ekki mikið þótt hann sé ánægður með það núna. Við í stjórnarandstöðunni erum ekki svo blind og ómálefnaleg að við viðurkennum ekki að þær brtt. sem lagðar eru fram af meiri hluta nefndarinnar eru til bóta, svo sannarlega eru þær allar til bóta. En þær ganga samt ekki nógu langt. Við getum ekki staðið að samþykkt frv. eins og það liggur fyrir frá nefndinni.
    Það var eitt sem ég ætla að nefna til viðbótar, hæstv. forseti. Hv. þm. nefndi það í ræðu sinni að honum fyndist ástæða til að taka meira tillit til búsetu námsmanna og ferðakostnaðar. Hvar sér hv. þm., sem taldi þó heyrðist mér að tekið hefði verið tillit til hans sjónarmiða í meðferð í nefnd, tekið á þeim málum í frv. eins og það lítur út núna?