Lánasjóður íslenskra námsmanna

129. fundur
Miðvikudaginn 29. apríl 1992, kl. 22:38:08 (5695)


     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
    Herra forseti. Hv. 1. þm. Vesturl. finnst að umræðan hér hafi breyst og andstaðan minnkað. Mér finnst hann ekki hafa hlustað vel ef honum finnst það því að í allan dag hafa komið fram mjög hörð rök gegn þessu frv. og brtt. minni hluta menntmn. bera það auðvitað með sér að við erum á engan hátt ánægð með þetta frv. Hins vegar erum við kurteist fólk og málefnalegt og það vantar kannski einhverja sem harðari eru í horn að taka í þeim efnum. En hv. 1. þm. Vesturl. bað um frekari rökstuðning við þeirri fullyrðingu minni að með frv. væri verið að bægja konum frá námi. Það er auðvitað rétt að allir hafa rétt til þess að taka lán. En hins vegar mun fólk standa frammi fyrir því hvernig eigi að greiða lánin. Ég reikna með því að flestir muni kanna það hvernig greiðslum verði háttað, hvað greiðslubyrðin verði mikil. Það má þá verða mikil breyting á námsvali kvenna ef þær eiga að geta staðið undir þessum lánum. Og ég hlýt að spyrja: Er það æskilegt að hrekja konur og aðra sem vilja afla sér menntunar í ýmsum heilbrigðisgreinum eða greinum sem fyrst og fremst beina fólki til kennslustarfa frá námi? Er æskilegt að draga úr ásókn í það nám? Við vitum að fyrir þessi störf er afar illa borgað í okkar samfélagi, því miður. Þetta eru verðmæt og mikilvæg störf en þau eru illa borguð. Ég fæ ekki séð að fólk muni leita áfram í menntun sem miðast við þau störf vegna þess að það verði ekki hægt að borga lánin. Það eru fyrst og fremst konur sem eru í þessum störfum og þess vegna er niðurstaða mín sú að þessar breytingar muni hafa það í för með sér að konur hugsi sig um tvisvar og þrisvar og því miður munu margar þeirra neyðast til að hætta við að fara í það nám sem þær vilja fara í.