Ráðning skólastjóra Leiklistarskólans

130. fundur
Fimmtudaginn 30. apríl 1992, kl. 10:39:00 (5708)

     Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 629 hef ég borið fram fsp. til hæstv. menntmrh. um ráðningu skólastjóra Leiklistarskólans. Að undanförnu hefur verið nokkuð um það að hæstv. ráðherrar hafa skipað eða sett menn í forustustöður hjá ýmsum stofnunum ríkisins án þess að virða eða taka tillit til vilja þeirra aðila sem hafa oft samkvæmt lögum það hlutverk að vera ráðgefandi eða gera beinar tillögur til ráðherra um viðkomandi stöðuveitingar. Eitt nýlegasta dæmið er skipun skólastjóra Leiklistarskólans þar sem ráðinn var til starfa einstaklingur sem samkvæmt heimildum fjölmiðla hafði ekki meirihlutastuðning skólanefndar Leiklistarskólans, nemenda eða kennara. Þó hlýtur álit viðkomandi skólanefndar sem á að vinna náið með skólastjóranum að skipta verulegu máli auk þess sem hún á að vera ráðgefandi fyrir ráðuneytið.
    Þetta er því miður, virðulegi forseti, ekki eina dæmið innan ríkiskerfisins þar sem skipað er í stöður þvert á vilja þeirra aðila sem þekkja það starf sem ráðið er í hverju sinni og eiga að meta hvaða eiginleikum umsækjandi um viðkomandi stöðu þarf að vera búinn. Ég segi þetta ekki hér til að lasta þann ákveðna einstakling sem ráðinn var í þá stöðu sem fsp. fjallar um heldur vegna þess að mér finnst sú aðferð sem viðhöfð var við ráðningu í stöðuna ekki rétt. Því spyr ég hæstv. ráðherra:
    1. Hvers vegna hafnaði ráðherra tillögum stjórnar Leiklistarskóla ríkisins, sem reyndar á að vera skólanefndar Leiklistarskóla ríkisins, um skólastjóra Leiklistarskólans?
    2. Hvað réð úrslitum um að sá umsækjandi sem var valinn sem stöðuna hlaut?
    3. Telur ráðherra það ekki vera í verkahring skólanefndar að fara yfir umsóknir um skólastjórastöður og taka afstöðu til þeirra?