Ráðning skólastjóra Leiklistarskólans

130. fundur
Fimmtudaginn 30. apríl 1992, kl. 10:48:36 (5713)


     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hér á sér stað. Það er verulegt umhugsunarefni hvernig staðið er að stöðuveitingum hér á landi og það á ekki eingöngu við um stöður á vegum menntmrn. Það hafa oft og iðulega komið upp umræður um það hvernig pólitísku valdi er beitt til þess að koma fólki í stöður án þess að maður sjái að viðkomandi eigi beinlínis erindi í starfið. Ég vil meina að þessi háttur, sem hér hefur verið hafður á allt frá því að Íslendingar fengu heimastjórn, ég hef kynnt mér þetta sérstaklega, hafi að ýmsu leyti valdið okkur miklu tjóni.
    Ég vil taka undir það sem fram kom í máli hv. þm. Svavars Gestssonar að stofnanir eigi að hafa sem mest sjálfstæði til þess að ráða sjálfar sínum málum og hverjir þar stýra verki en auðvitað eru undantekningar á og ég held að þetta eigi sérstaklega við um skóla og menningarstofnanir þar sem eru mjög fjölmennir vinnustaðir, þá sé það til bóta að þeir sem þar starfa ráði sem mestu um sín mál.