Verðlagning á veiðireynslu

130. fundur
Fimmtudaginn 30. apríl 1992, kl. 10:56:30 (5716)


     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Þessi fsp. leiðir hugann að hinu almenna stjórnkerfi, sem menn hafa búið við síðan 1984, um fiskveiðar. Það er að sjálfsögðu fullkomlega óeðlilegt að einhverjir aðilar sem teljast þinglýstir eigendur að skipi geti verðlagt sér til handa veiðireynslu, hvort heldur það er af fisktegundum innan kvóta eða utan því þar eru þeir sem verðmætin fá við sölu ekki endilega þeir sömu og þeir sem skópu þau verðmæti. Hagsmunir þeirra, sem eru uppistaðan í því að veiðireynslan er talin vera einhvers virði í þjóðfélagi markaðskerfisins, sjómanna og fiskvinnslufólks, eru fullkomlega fyrir borð bornir. Það vekur athygli mína að hæstv. sjútvrh. skuli ekki geta þessara hagsmuna að neinu þegar hann svarar seinni spurningunni svo það verður ekki öðruvísi skilið en það sé afstaða ráðherra að þessi verðmæti séu og eigi að vera eign hinna örfáu útvöldu í landinu sem eiga skip.