Alþjóðleg sjávarútvegsstofnun

130. fundur
Fimmtudaginn 30. apríl 1992, kl. 11:03:23 (5720)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Eins og fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda óskaði ég nýlega eftir því við sjávarútvegsstofnun Háskóla Íslands að hún kannaði með óformlegum hætti möguleika á því að koma á fót alþjóðlegri sjávarútvegsstofnun hér á landi. Ég hef einnig átt nokkrar viðræður við forustumenn Útflutningsráðs um þetta hugsanlega verkefni.
    Hér átti hins vegar fyrst og fremst að vera um forkönnun að ræða þar sem athugað yrði hvort hér gæti verið um að ræða raunhæfan möguleika. Slík forkönnun er nauðsynleg til að hægt sé að meta hvort stjórnvöld eigi að leggja í frekari vinnu og kostnað við markvissa könnun á því hvort um raunhæfan kost sé að ræða. Það er því að mínu mati ekki tímabært að byrja að velta vöngum yfir því á þessu stigi hvar staðsetja ætti slíka stofnun ef það kæmi í ljós að það reyndist skynsamlegt og hyggilegt að setja hana á fót. Málið er einfaldlega á byrjunarreit eins og sakir standa. En þó að slík stofnun yrði sett á fót höfum við ekki séð fyrir okkur að hér yrði um að ræða mikið bákn. Miklu líklegra væri að fyrst og fremst yrði um að ræða umgjörð um þær rannsóknastofnanir og atvinnulífið sem krefðist ekki sérstakrar aðstöðu umfram það sem fyrir hendi er í dag. Hér yrði frekar um að ræða samhæfingu á verkefnum sem við stundum nú þegar í þeim tilgangi að draga til okkar alþjóðlega þekkingu og miðla henni frá Íslandi.
    Af minni hálfu hefur ekkert komið fram um að óskynsamlegt væri að staðsetja þessa stofnun á Akureyri í tengslum við sjávarútvegsdeild Háskólans þar. Mér finnst margt hafa verið vel gert á þeim vettvangi og það er von mín og margra annarra að það merka framtak geti dafnað og orðið íslenskum sjávarútvegi til framdráttar og kemur alveg eins til álita ef af þessu verður að tengsl þessarar stofnunar verði þar. Á þessu stigi er einfaldlega ekki tímabært að fjalla um það efni því að hér er einvörðungu um forkönnun að ræða á þeim möguleikum sem kunna að vera fyrir hendi. En ég tel mjög mikilvægt að við hugum að verkefnum af þessu tagi. Við stöndum frammi fyrir nýjum verkefnum í íslenskum sjávarútvegi. Þekkingin mun ráða miklu um hvernig til tekst í þeim efnum. Við eigum að geta

miðlað öðrum þjóðum af okkar þekkingu og verið í forustu á því sviði. Fyrir þá sök hef ég talið rétt að beita mér fyrir athugun af þessu tagi.