Áhrif EES-samnings á innflutning og sölu áfengis

130. fundur
Fimmtudaginn 30. apríl 1992, kl. 11:07:00 (5721)

     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Á þskj. 784 hef ég borið fram svofellda fsp. til hæstv. dómsmrh. um áhrif EES-samnings á innflutning og sölu áfengis:
    ,,Hvaða áhrif mun EES-samningur hafa að mati ríkisstjórnarinnar á núverandi lög og reglur um innflutning, sölu og dreifingu áfengis hér á landi?``
    Í 16. gr. EES-samnings er að finna ákvæði sem varða ríkiseinkasölufyrirtæki. Greinin er svofelld:
  ,,1. Samningsaðilar skulu tryggja breytingar á ríkiseinkasölum í viðskiptum þannig að enginn greinarmunur sé gerður milli ríkisborgara aðildarríkja EB og EFTA-ríkja hvað snertir skilyrði til aðdrátta og markaðssetningar vara.
    2. Ákvæði þessarar greinar gilda um allar stofnanir sem þar til bær yfirvöld samningsaðilanna nota samkvæmt lögum eða í reynd, beint eða óbeint, til að hafa eftirlit með, ráða eða hafa umtalsverð áhrif á inn- eða útflutning milli samningsaðila. Þessi ákvæði gilda einnig um einkasölur sem ríki hefur fengið öðrum í hendur.``
    Í bókun 8 er síðan nánar fjallað um ríkiseinkasölur og þar segir í 2. tölul.:
    ,,Ákvæði 16. gr. gilda einnig um vín (ST-númer 2204).``
    Hér er um að ræða þátt sem er í þessum samningi og varðar m.a. sölu og dreifingu áfengis og einkasölu Áfengisverslunar ríkisins til innflutnings og einnig dreifingar. Ég tel nauðsynlegt að fá það upplýst við meðferð málsins hvernig íslensk stjórnvöld líta á þetta mál og meta stöðu Áfengisverslunar ríkisins að þessu leyti og horfur í sambandi við meðferð málsins að því er snertir innflutning, sölu og dreifingu á áfengi. Því hef ég lagt þessa fsp. fram.
    Mikil umræða hefur farið fram í Noregi um þetta mál þar sem áfengisstefna er meira á dagskrá en hér á landi í hinni almennu umræðu. Þar liggja fyrir ýmis sjónarmið sem varða þetta mál, m.a. tilvitnanir í dóma sem fallið hafa og hljóta að snerta málið. Ég ætla ekki að fara út í þau efni en það er nauðsynlegt fyrir íslensk stjórnvöld að setja sig inn í það hvernig dómar hafa fallið innan Evrópubandalagsins að því er snertir ríkiseinkasölur en þar er það 37. gr. Rómarsamningsins sjálfs sem varðar þetta efni sérstaklega og dómar sem þar hafa verið kveðnir upp, m.a. varðandi tóbakseinkasölu á Ítalíu og leiddu til afnáms á hömlum eða einkasölu erlendis á grundvelli þess dóms sem kveðinn var upp 1974 að mig minnir.