Áhrif EES-samnings á innflutning og sölu áfengis

130. fundur
Fimmtudaginn 30. apríl 1992, kl. 11:13:04 (5724)


     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir svör hans. Ég er hins vegar ekki viss um að það mat sem íslensk stjórnvöld og stjórnvöld á Norðurlöndum hafa lagt fram varðandi þetta mál fái staðist. Ég vísa til þess að það eru miklar efasemdir uppi af mönnum sem hafa verið að meta þetta mál með tilliti til EB-réttarins, Rómarsamningsins sjálfs, og dóma sem fallið hafa. Ég held að stjórnvöld hér þurfi að fara miklu betur ofan í saumana á þessu áður en tekið er svo fortakslaust til orða eins og hæstv. ráðherra gerði hér.
    Ég spyr hæstv. ráðherra: Hefur farið fram á vegum dómsmrn. sjálfstæð athugun og mat á þessu efni? Ráðherrann vísaði til viðskiptaskrifstofu utanrrn. og til fjmrn. Ég leyfi mér að efast um að þessir aðilar hafi farið ofan í saumana á málinu. Nú kunna að vera skiptar skoðanir um það hvað sé æskilegt í þessum efnum. Ég er ekki að spyrja um þetta mál á þeim forsendum heldur að menn gangi með opin augun fram í sambandi við þennan þátt málsins sem lýtur að ríkiseinkasölu. Ég vísa til svars sem liggur fyrir frá hæstv. heilbrrh. varðandi Lyfjaverslun ríkisins. Þar er ekki kveðið fortakslaust að orði varðandi einkasölu Lyfjaverslunar ríkisins. Þvert á móti er gefið í skyn að svo kunni að fara vegna samkeppnisreglna samkvæmt EES-samningi að það þurfi að afnema þá einkasölu.
    Það er ekki deilt um það sem ráðherrann sagði réttilega og ég er á sama máli að auðvitað má ekki mismuna varðandi innflutning á tegundum. Allir eiga að hafa sömu möguleika og Áfengisverslunin verður að tryggja framboð eftir því sem óskir eru um. En spurningin er um heildsölu hér innan lands, hvort einkaleyfið hér innan lands fær staðist og einnig um smásöluna. Um það snýst málið. Ég held að stjórnvöld ættu að fara varlega í að fullyrða mikið um þessi efni nema fara ofan í saumana á málinu, m.a. á þeim dómum sem fallið hafa um þessi atriði. Og því ítreka ég spurningu mína til hæstv. ráðherra og um leið hvatningu til þess að hann láti kanna þetta mál mun gaumgæfilegar en dæma má af svari hans þar sem vísað var til annarra aðila en hans eigin ráðuneytis að þessu leyti.