Hagnaður banka og sparisjóða 1991

130. fundur
Fimmtudaginn 30. apríl 1992, kl. 11:27:11 (5730)


     Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að bera fram á þskj. 563 fsp. til hæstv. viðskrh. um hagnað banka og sparisjóða árið 1991. Fsp. er á þessa leið:

    ,,Hverju nemur samkvæmt fyrirliggjandi áætlunum heildarhagnaður banka, þar með taldir Seðlabanki og sparisjóðir, fyrir skatta árið 1991?``
    Við þekkjum það að á síðasta ári er talið að bankarnir hafi verið með rekstur sinn í jafnvægi, sumir segja reyndar að þeir hafi tapað einhverjum fjármunum á fyrri hluta síðasta árs. Þegar stjórnarskipti urðu hófst um leið gullöld og gleðitíð í rekstri bankanna á Íslandi og þeir tóku til sín stóraukna fjármuni á árinu 1991 og nú að undanförnu hafa verið að birtast ársskýrslur bankanna fyrir árið 1991 þar sem það kemur fram að þrátt fyrir eitthvert tap á fyrri hluta ársins 1991 tókst að snúa því tapi í stórfelldan gróða og hundruð millj. kr. hagnað hjá bönkunum samkvæmt þeirra eigin skýrslum þegar þeir eru búnir að leggja verulega fjármuni á afskriftareikninga af ýmsu tagi sem þeir hafa í fórum sínum.
    Það má segja að þessi fsp., virðulegi forseti, sé lík þeirri sem borin var fram áðan um verslunarálagningu þar sem það kom fram að heildarálagning verslunar á Íslandi er 45 milljarðar kr. Það er býsna athyglisverð tala og ég fullyrði að það liggur ekkert fyrir um það að svokallað verslunarfrelsi hafi haft í för með sér lækkun á þessum kostnaði. Ég er ekki með þessu að segja að við eigum að taka upp sama kerfi og var áður varðandi verðlagningu á vörum í smásöluverslun og var um nokkurt skeið. En ég fullyrði að svokallað verslunarfrelsi hefur engum árangri skilað og viðskrh. getur ekki sannað að verslunarfrelsi skili minni kostnaði að þessu leytinu til. Hann hefur engar sannanir í þeim efnum að heildarkostnaður verslunar hafi minnkað á síðustu 10 árum eða svo. Það kom reyndar fram að kostnaður við heildverslunina er um 20 milljarðar á ári. Miðað við þá könnun sem gerð var á vegum Ólafs Jóhannessonar viðskrh. árið 1978 má gera ráð fyrir að sú verslun sé 1,5--2 milljörðum dýrari en hún þyrfti að vera. Eins er með bankana. Þeir eru allt of dýrir. Vaxtastigið er allt of hátt og hagnaður bankanna á síðasta ári er afar athyglisverð heimild í þeim efnum. Því hef ég borið fram þessa fsp. til hæstv. viðskrh.