Hagnaður banka og sparisjóða 1991

130. fundur
Fimmtudaginn 30. apríl 1992, kl. 11:35:06 (5732)


     Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. fyrir greinargóð svör en í þeim kom fram að samanlagður hagnaður banka og sparisjóða árið 1991 fyrir skatta, en samtöluna nefndi hann aldrei, var 1.087 millj. kr. en árið 1990 var sambærileg tala, 1.149 millj. kr. Hækkun á hagnaði banka og sparisjóða og Seðlabanka Íslands frá árinu 1990--1991 er 738 millj. kr. eða 1.049 millj. kr. (Gripið fram í.) Ég lagði þessar tölur saman í skyndingu undir ræðu hæstv. ráðherra þar sem voru margar tölur en mér sýnist að hagnaðaraukning bankanna á milli áranna 1990 og 1991 sé um 70%. Það er álitleg breyting á einu ári þegar um er að ræða stofnanir sem á fyrri hluta ársins 1991 töldu að þær væru reknar við þröngan kost en tókst að rétta sig af með vaxtahækkunum á síðari hluta ársins 1991. Niðurstaðan er sú að heildarhagnaður banka og sparisjóða og Seðlabankans hækkar á einu ári, 1990--1991, um u.þ.b. 70%. Það er stórkostlegur bautasteinn yfir stjórn hæstv. viðskrh. á bankakerfinu árið 1991 að ekki sé meira sagt.