Hagnaður banka og sparisjóða 1991

130. fundur
Fimmtudaginn 30. apríl 1992, kl. 11:36:51 (5733)


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil eindregið vara við þeirri túlkun á afkomutölum bankakerfisins sem hv. fyrirspyrjandi, 9. þm. Reykv., fór með í þessum ræðustól rétt áðan. Ég ætla ekki að gera neinar athugasemdir við samlagninguna í því máli sem hann fór með. Ég sé að hv. þm. Kristinn Gunnarsson er að fara yfir hana með honum, ég er viss um að þeir finna rétta svarið í sameiningu.
    Kjarni málsins er að sjálfsögðu þessi: Stofnanirnar sem hv. þm. vitnaði til og taldi að hefðu kvartað yfir lakri afkomu á fyrri hluta ársins, viðskiptabankarnir og sparisjóðirnir, náðu vissulega að rétta nokkuð sinn hlut eftir því sem á árið leið en eru þó í heild, eins og mjög glöggt kom fram í því sem ég sagði hér áðan, með mun lakari afkomu í fyrra en árið áður og lakari afkomu en verið hefur undanfarin ár. Þó er svo fyrir að þakka að hagur íslenskra banka og sparisjóða er og hefur verið á undanförnum árum traustari en fjárhagur hliðstæðra stofnana í nágrannalöndum okkar. Þetta ætlum við ekki að gagnrýna heldur fagna því að innstæðueigendur eiga að sjálfsögðu mikið undir því að þessar stofnanir standi traustum fótum.
    En að blanda saman, eins og gert var í máli hv. fyrirspyrjanda, gengisendurmati á gjaldeyrisvaraforða þeim sem varðveittur er í Seðlabanka og afkomu bankanna er markleysa tóm. Auðvitað er það hluti af ríkinu og almannaeign sem þar er verið að ræða. Breytingarnar verða á gengisviðmiðunum í gjaldeyrisvaraforðanum, sem hafa ekkert með afkomu bankakerfisins að gera og þaðan af síður að það sé á einhvern hátt tekið af hinum almenna manni í landinu. Þvert á móti er þetta mælikvarði á fjárhagslega stöðu ríkisins eða þess hluta þess sem starfar, undir nafninu Seðlabanki Íslands og fjarstæða að halda því fram að þetta sé á nokkurn hátt skattlagning á hinum almenna manni.