Kostnaður við fundaherferðir innan lands á vegum utanríkisráðuneytis

130. fundur
Fimmtudaginn 30. apríl 1992, kl. 11:50:22 (5740)

     Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Sá háttur ráðherra Alþfl. hefur vakið athygli mína og eflaust margra annarra, að efna til fundaherferða um land allt til að kynna pólitíska stefnu sína og vinnu í ráðuneytum og hefur þegar verið svarað fsp. um kostnað vegna herferða hæstv. heilbrrh. sem hefur numið um 4 millj. kr. og auðvitað er skattborgurunum sendur reikningurinn í anda jafnaðarstefnu þeirra sem eru svo lánssamir að eiga vegabréfið inn í 21. öldina. Ég hef því leyft mér að flytja fsp. til hæstv. utanrrh. til að fá fram þennan kostnað á vegum hans ráðuneytis og spyr:
  ,,1. Hver var heildarkostnaður við fundaherferðir og kynningar utanríkisráðherra hér innan lands frá 1. maí 1991 til 1. mars 1992?
    Auk heildarkostnaðar er óskað eftirfarandi sundurliðunar:
    a. Heildarkostnaður við auglýsingar í dagblöðum.
    b. Heildarkostnaður við auglýsingar í útvarpi og sjónvarpi.
    c. Heildarkostnaður við aðrar auglýsingar.
    d. Heildarkostnaður við leigu á fundasölum og annan beinan kostnað við fundahald.
    e. Heildarferðakostnaður utanríkisráðherra, aðstoðarmanns hans og embættismanna.
    f. Annar kostnaður.
    2. Hver var hlutur funda- og kynningarkostnaðar skv. 1. tölul. vegna GATT-samninga í heild og sundurliðaður skv. a--f-liðum 1. tölul.?
    3. Hver var hlutur funda- og kynningarkostnaður skv. 1. tölul. vegna EES-samninga í heild og sundurliðaður skv. a--f-liðum 1. tölul.?``