Kostnaður við fundaherferðir innan lands á vegum utanríkisráðuneytis

130. fundur
Fimmtudaginn 30. apríl 1992, kl. 11:56:54 (5743)


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Það er fráleitt og ég vísa því á bug að hér hafi verið um pólitískan áróður að ræða. Þvert á móti. Hér er um að ræða kynningarfundi sem eru opnir öllum almenningi þar sem embættismenn sitja jafnframt fyrir svörum auk ráðherra og þessi kynning var að sjálfsögðu með hlutlægum hætti.
    Ég vil taka það fram að nú um miðjan maí áformar utanrrn. í ljósi þess að nú er það tryggt að samningarnir verða undirritaðir í Oporto 2. maí, þá verður gefinn út almenningur kynningarbæklingur um málið. Ég vil jafnframt láta þess getið að við höfum nýtt tímann að undanförnu til þess af hálfu embættismanna að draga saman upplýsingaefni í upplýsingaörkum sem verða fáanlegar öllum almenningi og þeim aðilum sem hagsmuna eiga að gæta. Þeir munu t.d. fjalla um á vöruviðskiptasviðinu: ríkisstyrki, tolla, tollafgreiðslur, upprunareglur, tæknilegar viðskiptahindranir, samkeppnisreglur, landbúnað, orkumál, sjávarútvegsmál, lyfjamál, matvæli, opinber innkaup og útboð og hugverkaréttindi. Á þjónustu- og fjármagnsviðskiptasviðinu mun verða fjallað um fjármálaþjónustu, flugmál, skipaflutninga, fjarskiptaþjónustu, útvarp og sjónvarp, enn fremur fjármagnshreyfingar, gjaldeyrismál og fjárfestingar. Á vinnumarkaðssviðinu um atvinnu- og búseturéttindi, almannatryggingar og starfsréttindi. Að því er varðar samstarfsverkefnin á fjórða samningssviði eru þar upplýsingar um menntamál, umhverfismál, félagsmál, lítil og meðalstór fyrirtæki, neytendamál, rannsóknir og þróun, vinnuvernd og félagarétt, auk þess sem fram kemur í hinum almenna bæklingi um sögulega þróun málsins, stofnanir og dómsmál.
    Ég vil láta þess getið að mörg almannasamtök hafa lagt góðan hlut að verki við að kynna málið og því upplýsingaefni hefur verið dreift oft á tíðum á þessum fundum. Þar hafa staðið að verki Alþýðusamband Íslands, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Félag ísl. iðnrekenda, Vinnuveitendasambandið, Iðntæknistofnun, Þjóðhagsstofnun, Seðlabanki, fjmrn. og umhvrn. Það eru áform okkar að meginefni samningsins liggi frammi aðgengilegt fyrir allan almenning. Þannig er ráð fyrir því gert að samningurinn sjálfur með viðaukum ásamt með samningnum í styttri útgáfu, greinargerðin með samningnum og skýrslur utanrrh. til Alþingis liggi frammi á öllum almenningsbókasöfnum og með samkomulagi við dómsmrn. á sýsluskrifstofum þannig að allt sé gert sem unnt er til þess að tryggja að almenningur og þeir aðilar sem hafa sérstakra hagsmuna að gæta hafi í aðgengilegu formi upplýsingar byggðar á staðreyndum, upplýsingar sem hafa hagnýtt gildi að því er varðar allt þetta mál. Þetta er spurning um upplýsingaskyldu stjórnvalda og er þess vegna hið þarfasta verk.
    Óttinn við hið óþekkta er þekkt fyrirbæri. Honum verður ekki mætt nema með hlutlægum upplýsingum. Kynningin er nauðsynleg af þeim ástæðum, snar þáttur málsins sjálfs og ég endurtek, það er mitt mat að því fé sem varið er til þessara mála sé vel varið.