Skýrsla Sameinuðu þjóðanna um stöðu kvenna í heiminum

130. fundur
Fimmtudaginn 30. apríl 1992, kl. 12:05:00 (5750)

     Fyrirspyrjandi (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Þau orð hafa oft verið látin falla að nú sé nóg komið af rannsóknum, skýrslum og nefndastörfum um kvenfrelsis- og jafnréttismál og nú sé kominn tími til að grípa til aðgerða. Engu að síður er það staðreynd að orð eru til alls fyrst og stundum þarf orð á blaði til að sannfæra menn um að ástæða sé til að grípa til aðgerða. Ekki er ég ein um þessa skoðun því að Pérez de Cuellar, fyrrv. framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hefur látið svipuð orð falla eins og ég kem raunar að á eftir.
    Á vegum Sameinuðu þjóðanna flæðir mikill pappír og misjafnlega merkilegur. Í umhverfismálum hefur verið gefin út metnaðarfull skýrsla á vegum Sameinuðu þjóðanna, Caring for the Earth, og hafa íslensk stjórnvöld séð sóma sinn í að láta þýða hana á íslensku og er það vel. Í ljósi þess langar mig að leyfa mér að óska þess að önnur skýrsla, ekki síður merkileg, sem einnig kom út á sl. ári verði einnig þýdd á íslensku áður en langt um líður.
    Þessi skýrsla fjallar um stöðu kvenna í heiminum á árunum 1970--1990 og í henni er að finna mikilvægar upplýsingar sem eiga brýnt erindi við Íslendinga eins og aðra. Þessa skýrslu bar oft á góma í umfjöllun um stöðu kvenna í heiminum í nefnd Sameinuðu þjóðanna sem fjallar um félags-, mannúðar- og menningarmál. Nefndin hélt fund í október sl. og var ég þar stödd. Skýrslan er hafsjór af mikilvægum fróðleik um stöðu kvenna og barna víða um heim. Í formála Pérez de Cuellar, fyrrum aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, segir m.a. í lauslegri þýðingu minni, en þessi skýrsla er ekki til þýdd, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Þessi bók endurspeglar vinnu ýmissa stofnana Sameinuðu þjóðanna, ekki einungis með því að safna saman tölfræði um konur heldur með því að koma þeim á framfæri og túlka þær á þann hátt að stjórnmálamenn og fólk víðs vegar um heiminn geti notað þær til að bæta stöðu kvenna með löggjöf, þróunaráætlun og virkum þrýstingi. Upplýsingarnar sem hér er að finna ættu að vera ómetanleg tæki til að koma á jafnstöðu og breyta afstöðu manna til vinnu kvenna, mats á konum og ábyrgð þeirra. Upplýsingarnar og þær ályktanir sem af þeim má draga sýna svo að ekki verður um villst að þótt staða kvenna hafi batnað að einhverju leyti sl. 20 ár er þorri kvenna enn langt frá því að hafa þau völd, auð og tækifæri sem karlar hafa. Upplýsinga er þörf til að vekja menn til umhugsunar um ástandið eins og það er nú til leiðbeiningar og til að gripið verði til aðgerða til að koma á framförum og endurbótum.``

    Ég bið menn um að hafa þetta í huga um leið og ég ber fram fsp. mína til hæstv. utanrrh.:
    ,,Hefur utanrrh. í hyggju að láta þýða á vegum ráðuneytisins skýrslu Sameinuðu þjóðanna við ,,The World's Women Trends and Statistics 1970--1990`` sem út kom á sl. ári og hefur að geyma yfirgripsmiklar upplýsingar um stöðu kvenna í heiminum?``
    Ég biðst velvirðingar á að það er rangt skýrsluheiti á þingskjalinu. Það er bæði á minni ábyrgð og skrifstofu Alþingis að hér er um vinnuheiti að ræða sem ég notaði en ég vona að hafi ekki valdið misskilningi.