Lóranstöðin á Gufuskálum

130. fundur
Fimmtudaginn 30. apríl 1992, kl. 12:14:04 (5754)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Spurt er: Er afráðið að leggja niður starfsemi Lóranstöðvarinnar á Gufuskálum og hætta þjónustu við skip og báta?
    Bandaríska strandgæslan mun hætta fjármögnun á rekstri Lóranstöðvarinnar á Snæfellsnesi í árslok 1994. Sama gildir um aðrar lóranstöðvar á Norður-Atlantshafi og í Miðjarðarhafi. Ríkisstjórnin tók ákvörðun í desember um að taka ekki þátt í áframhaldandi rekstri né endurbótum á lórankerfinu sem stefnt er að af nokkrum þjóðum í Norður-Evrópu. Þetta var ákveðið eftir að fulltrúar notenda hér á landi töldu sig ekki þurfa á þessu staðarákvörðunarkerfi að halda eftir árslok 1994.
    Spurt er: Hefur verið tryggt að annað sambærilegt staðsetningarkerfi komi í stað lórankerfisins?
    Bandaríski flugherinn hefur komið upp staðsetningarkerfi sem nýtir gervitungl og nefnist það Global Positioning System, GPS, og er það nú þegar notað af mörgum íslenskum skipum. Kerfi þetta nær til stærra svæðis en lóran C en er með rýrari og breytilegri nákvæmni sem gerir það nauðsynlegt að reka sérstakt leiðréttingarkerfi við hliðina á því.
    Skipuð hefur verið nefnd af samgrn. til þess að hanna og gera áætlun um byggingu slíks leiðréttingarkerfis ásamt ýmsu öðru sem er samfara því að hverfa yfir til GPS frá lóran C og eins og ég sagði verður fyrsta verkefni nefndarinnar að gera áætlun um uppsetningu slíks kerfis til þess að ýtrasta nákvæmni náist með GPS-kerfinu þannig að það verði nákvæmara en lórankerfið er nú.
    Stefnt er að því að hefja tilraunir með slíkt kerfi í árslok.
    Spurt er: Hvernig verða mannvirki og byggingar Lóranstöðvarinnar nýttar ef starfsemi stöðvarinnar verður hætt?
    Enn hefur ekkert verið ákveðið um hvernig né hvort mannvirki og byggingar verði nýttar eftir árslok 1994. Ábending hefur þó komið frá Pósti og síma um að nota megi mastursendi stöðvarinnar og sendahús fyrir rekstur nýrrar langbylgjustöðvar útvarps verði tekin ákvörðun um byggingu nýrrar útvarpssendistöðvar.