Atvinnumál á Suðurnesjum

131. fundur
Fimmtudaginn 30. apríl 1992, kl. 13:55:10 (5772)


     Össur Skarphéðinsson :
    Virðulegi forseti. Hér er til umræðu till. til þál. um sérstakt átak í atvinnumálum á Suðurnesjum og aðgerðir vegna mikils atvinnuleysis kvenna þar. Þessi tillaga er tímabær og um hana hafa spunnist ágætar umræður. Á sínum tíma gat ég þess í umræðum um þetta mál að eitt af því sem þyrfti að gera til að efla atvinnumál á Suðurnesjum væri að efla fiskmarkaðina vegna þess að í skjóli þeirra spretta upp fjölmörg smáfyrirtæki sem skapa töluverða atvinnu. Síðan hefur það gerst frá því að við vorum að ræða þessi mál fyrr í vetur að búið er að samþykkja lög um landanir erlendra skipa og í síðustu viku voru gefnar út sérstakar vinnureglur af hálfu sjútvrn. um hvernig þessi lög skulu útfærð. Þá birtist það næsta vel að þarna er um veigamikla breytingu að ræða, breytingu sem gerir það kleift að útlend skip fá löndunarleyfi, til að mynda útlend rækjuskip, sem hafa verið að veiða úthafsrækju á Dorhn-banka úr stofni sem hægt er með

teygjanleika að kalla sameiginlegan stofn en eigi að síður var skilgreindur svo að úr honum mætti landa óheft. Það hefur leitt til þess að til að mynda á Suðurnesjum liggur fyrir að fjöldi erlendra skipa mun koma til að landa.
    Fyrir skömmu var viðtal í sjónvarpinu við norskan rækjuskipstjóra sem gat þess að a.m.k. 10--15 norsk skip mundu reglulega koma til löndunar á Suðurnesjum. Það leiðir til aukinnar atvinnu og í kjölfar þess er ljóst að í gangi eru samningar sem byggja á þessum nýju lögum um að kaupa fisk til landsins, fisk sem er aflað af þýskum togurum við Grænland. Þarna er fyrst og fremst um þorsk að ræða. Það er auðvitað ljóst að þetta mun leiða til þess að fiskmarkaðir eflast og það mun líka leiða til þess að atvinna eykst á Suðurnesjum og kannski ekki síst atvinna kvenna sem hafa verið mjög atkvæðamiklar í fiskvinnslu á Suðurnesjum.
    Ég taldi rétt, virðulegi forseti, að benda á þetta vegna þess að það sýnir að ríkisstjórnin er þrátt fyrir allt að gera ýmsa hluti sem nýtast í atvinnumálum, og ekki síst á Suðurnesjum.