Atvinnumál á Suðurnesjum

131. fundur
Fimmtudaginn 30. apríl 1992, kl. 13:58:00 (5773)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Mér þykir mjög vænt um að hv. 17. þm. Reykv. upplýsir hér að búið sé að ákveða að brjóta nýsett lög Alþingis sem voru það vitlaus að ekki var hægt að fara eftir þeim. Það er út af fyrir sig mjög ánægjulegt og gaman að sjá þá vinnureglu sem þar hefur verið ákveðið að skapa. Ég vænti þess, út á okkar ágæta kunningsskap, að hann útvegi mér eintak af þeirri vinnureglu.
    Ég verð að segja eins og er að það er ömurlegt að horfa upp á það hve stór hluti af þeim erfiðleikum sem á Suðurnesjum eru, stafa af því að við Íslendingar leggjum slíkar hömlur á atvinnustarfsemi þar að með ólíkindum má kalla. Núv. hæstv. utanrrh. framlengir einokunarsamning um afgreiðslu flugvéla á vellinum. Hann kemur í veg fyrir það með þessum vinnubrögðum að með beinu flugi fari ígulker og svil, m.a. til Japans eins og var farið að selja beint frá Keflavíkurflugvelli. Það er búið að biðja um skýrslu um þetta mál fyrir löngu síðan. Ég hef af hógværð spurt eftir því á skjalasafninu hvort skýrslan sé komin. Hún er ekki komin. Hvers vegna sjá menn ekki þessa rosalegu möguleika sem felast í því að gera þennan flugvöll að fragtflugvelli með miklum flutningum? Hvers vegna þurfa bandarískir heildsalar að álykta um það að byggja eigi flugvöll á Grænlandi til þess að taka að sér þetta hlutverk og það þurfi að berast til Íslands með fréttum frá Bandaríkjunum að þeir telja að þetta sé nauðsynlegt? Hvers vegna notum við ekki þá möguleika sem við höfum í þessum efnum?
    Ég vænti þess að hv. 17. þm. Reykv. gerist talsmaður frelsisins í þessum efnum og tryggi það að eðlilegir viðskiptahættir geti átt sér stað á Keflavíkurflugvelli þegar erlendar flugvélar hafa áhuga á að lenda þar og það sé hægt að efla íslenskt atvinnulíf með því.
    Það er hárrétt sem hér kom fram að auðvitað eru það stórkostlegar framfarir ef hægt er að kaupa fisk og rækju af erlendum aðilum. En hugsið ykkur ef það væri hægt að senda hana beint með flugi til Japans. Það er ekki hægt í dag eins og að málunum er staðið. Og það er unnið gegn því leynt og ljóst. Heill blaðabunki sendibréfa sem ég skoðaði í gær voru með fyrirspurnir út í hött frá ,,Money Money`` kafteininum, sendiherranum, sem virðist hafa furðulegustu verkefni innan utanrrn. Ég segi eins og er, það er verk að vinna að hreinsa til og leyfa eðlilega atvinnustarfsemi á þessu svæði.
    Hér kom það fram að á sínum tíma þegar Framkvæmdastofnun fór af stað með Byggðasjóð innan borðs hefði ekki verið lánað til Suðurnesja. Það er rétt. Ég hef alltaf talið að það hafi verið mistök vegna þess að að mínu viti skiptist Reykjaneskjördæmi um Straum. Það sem er þar fyrir sunnan á við sömu byggðavandamál að stríða í mörgum tilfellum og aðrir staðir landsbyggðarinnar. Hins vegar gerðist það svo á sínum tíma, og þarf að koma hér fram sem eðlileg rök til þess að menn sjái þetta í samhengi, að þegar ákvörðun var tekin um uppbyggingu álversins í Straumsvík var litið svo á að verið væri að byggja upp það mörg atvinnutækifæri í Reykjaneskjördæmi að eðlilegt væri að viss hluti af tekjum ríkisins vegna álversins rynnu til Byggðastofnunar og Byggðasjóðs --- Byggðastofnun var ekki til heldur hét það Byggðasjóður --- og þeim fjármunum yrði fyrst og fremst ráðstafað til annarra kjördæma en Reykjavíkur og Reykjaness. Þá hefði átt að skipta Reykjanesi í tvennt og skilgreina þetta eftir því hvort menn voru að tala um Suðurnes eða Hafnarfjörð.
    Hins vegar hefur um alllangt skeið verið staðið á sama hátt að lánveitingum til Suðurnesja og annarra svæða. Þar er í dag sennilega mesta óvissuástandið um atvinnumál á Íslandi vegna þess einfaldlega að sem betur fer eru meiri friðartímar nú en oft áður og enginn veit hvaða umsvif verða á Keflavíkurflugvelli. Þess vegna hlýtur það að verða enn þá nauðsynlegra að menn hafi augun opin og meti hvað hægt er að gera. Ég hygg að allir staðnæmist þá m.a. við það hvað hægt er að auka umsvifin á Keflavíkurflugvelli gagnvart vörufluginu. Hér fljúga yfir flugvélar á hverjum degi, hverri klukkustund trúlega, sem gætu lent á Keflavíkurflugvelli og tekið þar 10 tonn af vörum vegna þess að þær eru búnar að eyða bensíni á leiðinni yfir hafið og þær eru reiðubúnar að koma niður þótt það séu ekki nema 10 tonn sem þær eiga að taka ef eðlileg gjöld eru greidd fyrir lendingu. En að taka sama lendingargjaldið þegar menn lesta slíka vél með 7 eða 10 tonnum af varningi og þegar Júmbó-þota af með farþegum lendir er náttúrlega gjörsamlega út í hött.
    Ég verð að segja eins og er að það kom mér dálítið illilega á óvart þegar heilbrigðisfulltrúi á Suðurnesjum sá sérstaka ástæðu til að gera athugasemdir við stöðu mála hjá Bláa lóninu með því að koma þeim

athugasemdum á framfæri til fjölmiðla á þann veg að það gat leitt til þess að rýra það álit sem menn höfðu á því að þar væri hægt að byggja upp heilsugæsluaðstöðu. Í hvaða tilgangi er þetta gert? Auðvitað þarf þjóðin að standa saman í því að byggja upp sín atvinnutækifæri og trúlega eru verulegir möguleikar í því sambandi vegna psoriasis-sjúklinga í Bláa lóninu.
    Ræðutími er takmarkaður, ég er ekki vanur að misnota það. Ég stóð upp til að lýsa yfir stuðningi við tillöguna. Ég held það megi vera ærið umhugsunarefni að 1% í atvinnuleysi kostar milli 600--700 millj. í beinum greiðslum. Það er betra að verja meiru fé til atvinnuuppbyggingar og minnu í hreinar bótagreiðslur sem kemur þannig út að verið er að brjóta fólk niður andlega sem ekki á möguleika á því að fá vinnu.