Atvinnumál á Suðurnesjum

131. fundur
Fimmtudaginn 30. apríl 1992, kl. 14:06:52 (5774)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Herra forseti. Í upphafi máls míns vil ég geta þess að það er umhugsunarefni fyrir okkur sem sitjum á hinu háa Alþingi hvernig umræður þróast hér. Við erum að ræða tillögu sem lögð var fram í nóvember og um hefur orðið mikil umræða. Það leiðir svo hugann að annarri umræðu sem snertir atvinnumál og er einhvers staðar í miðjum klíðum, þ.e. umræðan um Byggðastofnun. Sú mikla umræða sem orðið hefur um þessi tvö mál sýnir auðvitað hve gífurleg þörf er fyrir það að ræða í mjög víðu samhengi um stöðu atvinnumála hér á landi og hvert skuli haldið í þeim efnum. En það er auðvitað mjög merkilegt hvernig þróunin hefur orðið á Suðurnesjum og hve þau skera sig úr varðandi atvinnuleysi og þá einkum atvinnuleysi kvenna. Samdrátturinn í fiskvinnslu á Suðurnesjum skýrir þennan mun að hluta til en auðvitað kemur fleira þarna inn í.
    Ég hef sannast að segja furðað mig mjög á því hve íslensk stjórnvöld hafa verið andvaralaus varðandi samdrátt sem orðið hefur hjá bandaríska hernum. Það var fyrir séð fyrir nokkrum árum að þar hlyti að verða samdráttur. Þegar stórveldin fóru að semja um afvopnun og ljóst varð að mun friðsamlegar horfði í heiminum var það auðvitað ljóst, eftir þær umræður sem urðu í bandaríska þinginu, að þeir ætluðu sér að fækka herstöðvum og draga mjög úr kostnaði við herstöðvar sínar. Þar af leiðandi var löngu ljóst að þetta hlyti að koma niður hér eins og annars staðar. Þess vegna hefði mér fundist að íslensk stjórnvöld hefðu átt að setjast niður fyrir u.þ.b. þremur árum til að finna leiðir til úrbóta í atvinnumálum á Suðurnesjum.
    Það er auðvitað sláandi að flestar þær tillögur sem menn koma hér með, uppástungur sem koma fram í umræðunni, eru á þann veg að þær munu fyrst og fremst koma körlum til góða. Menn hafa einblínt mjög á byggingu álvers sem hefur ítrekað verið frestað. Það er bent á möguleika varðandi fisklöndun og það er bent á Keflavíkurflugvöll. Auðvitað getur þarna verið að finna störf fyrir konur og ekki síst ef aukin fisklöndun yrði til þess að auka fiskvinnslu. En þetta dugar hvergi nærri til og menn hljóta að verða að setjast niður í alvöru og velta því fyrir sér hvaða leiðir eru færar til að skapa atvinnu, ekki síst á Suðurnesjum. Það á auðvitað við um allt landið þó að vandinn sé meiri á Suðurnesjum en annars staðar. Minn hugur leitar til ferðaþjónustunnar og ferðamannaiðnaðar. Suðurnesin eru um margt sérstök og ég held að þar geti verið um mikla möguleika að ræða í ferðaþjónustu. Það er atvinnugrein sem veitir konum mikla möguleika á vinnu.
    Hv. síðasti ræðumaður gat þess að 1% atvinnuleysi kostaði samfélagið á milli 600--700 millj. kr. Þeim peningum væri betur varið til þess að skapa atvinnu en að láta fólk ganga um verklaust með öll þau vandamál sem því fylgir.
    Ég þarf varla að lýsa því að ég er að sjálfsögðu fylgjandi tillögunni og tek eindregið undir efni hennar en vil í því samhengi benda á að það þarf auðvitað að horfa á þessa stöðu okkar í atvinnumálum í miklu víðara samhengi. Ég verð að segja það að menn hafa verið mjög grandalausir í þessum efnum og horft á töfralausnir. Nú síðast er það hið Evrópska efnahagssvæði sem á að bjarga hér öllum málum. Ef af þeim samningum verður skilar hann sér ekki inn í íslenskt samfélag fyrr en eftir allnokkurn tíma. Þar er auðvitað ekki um neina lausn að ræða fyrir fólk sem nú gengur um atvinnulaust. Það eru engar töfralausnir til í þessum málum. Þetta er spurning um rannsóknir, þróun, tilraunir, sem margar hverjar kalla á langtímaáætlanir, og við verðum einfaldlega að setjast niður og gera þessar áætlanir og láta okkur hafa það þó að hluti þeirra mistakist. Það er einfaldlega hluti af þróuninni að sumt tekst og annað ekki en það er afar brýnt að það verði tekið á þessum málum af alvöru.
    Ég vil ítreka að ég lít ekki þannig á að það sé hlutverk stjórnvalda að bjarga öllu sem snertir atvinnulífið, þar þurfa aðrir að koma til og ekki síst að fólk taki sig saman og reyni ýmsar leiðir í atvinnumálum. En þegar svo alvarlega horfir í samfélaginu sem nú hlýtur það að vera hlutverk stjórnvalda að ýta undir atvinnusköpun, búa atvinnuvegunum þau skilyrði sem gefur þeim möguleika á að blómstra. Ég vona svo sannarlega að sú samstarfsnefnd í atvinnumálum sem fyrirhugað er að setja á laggir, milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar, skili einhverju því sem til bóta horfir en það þarf auðvitað miklu meira.