Þróunarátak í skipasmíðaiðnaði

131. fundur
Fimmtudaginn 30. apríl 1992, kl. 14:25:30 (5778)

     Flm. (Svavar Gestsson) :
    Herra forseti. Ásamt hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og Jóhanni Ársælssyni flyt ég hér frv. til laga um þriggja ára þróunarátak í skipasmíðum, nýsmíðum og skipaviðgerðum. Flm. eru með öðrum orðum fulltrúar Alþb. í iðnn. og sjútvn. þingsins.
    Í frv. er kveðið á um þriggja ára þróunarátak í íslenskum skipasmíðaiðnaði, nýsmíði og viðgerðum og tilgangur laganna, ef frv. verður samþykkt, er að auka samkeppnishæfni íslenska skipasmíðaiðnaðarins til lengri tíma litið.
    Í grg. með frv. eru raktar nokkrar ástæður fyrir því að frv. er flutt en það er vegna þess vanda sem blasir við íslenskum skipasmíðaiðnaði. Í ályktun aðalfundar Félags dráttarbrauta og skipasmiðja árið 1991 segir m.a., með leyfi forseta: ,,Staða íslensks skipasmíðaiðnaðar hefur aldrei verið verri en nú.`` Það er því ljóst að grípa verður til sérstakra björgunaraðgerða eigi skipasmíðar og skipaviðgerðir á Íslandi ekki að leggjast af og um það fjallar frv. Nauðsynlegt er að hafa í huga að vandinn snýst ekki einungis um skipasmíðaiðnaðinn í þrengstu merkingu. Afleidd störf, sem svo eru kölluð, skipta hundruðum. Við teljum einnig mikilvægt að hafa í huga að skipasmíðastöðvarnar hafa verið mjög mikilvægur verkmenntastaður fyrir skipasmiði, málmiðnaðarmenn og rafvirkja. Það hefur því augljóslega fjölþætt og háskaleg áhrif ef skipasmíðaiðnaðurinn leggst alveg af sem gæti orðið ef svo fer fram sem horfir í dag.
    Þá er auðvitað nauðsynlegt í þessu sambandi, virðulegi forseti, áður en lengra er haldið að minna á mikilvægi þess fyrir fiskveiðiþjóð umfram aðrar þjóðir að hafa góðan og öflugan skipasmíðaiðnað. Það er beinlínis mikilvægt sjálfstæðismál að við eigum hér öflugan skipasmíðaiðnað og þessi grein fái að þróast og dafna.
    Hér á landi er mikil verkþekking í skipasmíðum og skipaviðgerðum og þessi iðngrein getur því með markvissum ráðstöfunum orðið samkeppnisfær við skipasmíðar í grannlöndum okkar. Til þess að svo megi verða þarf hins vegar skýra stefnu í stað stefnuleysis undanfarinna ára.
    Ástæður vandans eru að mati okkar flm. ekki síst þær að ekki hefur verið tekið heilstætt á málefnum skipasmíðaiðnaðarins á undanförnum árum. Þess vegna hefur greinin að mörgu leyti grotnað niður og stendur nú frammi fyrir því að leggjast af á næstu tveimur til fjórum missirum að mati þeirra sem starfa í skipasmíðaiðnaði hér á landi.
    Í frv. því sem hér er mælt fyrir er lagt til að gripið verði til heildaraðgerða til að koma í veg fyrir að skipasmíðaiðnaður leggist af á Íslandi. Ákveðið verði að efna til tímabundins þróunarátaks í íslenskum skipasmíðaiðnaði og er gert ráð fyrir að átakið standi yfir í þrjú ár. Rökin fyrir tímabundnu átaki eru m.a. þau að ríkisstyrkir hljóti að fara minnkandi á komandi árum. Þegar ríkisstyrkir og niðurgreiðslur opinberra aðila í samkeppnislöndum okkar eru felld niður verður íslenskur skipasmíðaiðnaður að fullu samkeppnisfær. Verði hins vegar ekki gripið til aðgerða af því tagi sem hér er gert ráð fyrir mun skipasmíðaiðnaður lognast út af og enginn verður til þess að taka við iðngreininni þegar ríkisstyrkjakerfi samkeppnislandanna er aflagt og eðlileg samkeppnisskilyrði hafa myndast.
    Í 1. gr. frv. er kveðið á um þetta þriggja ára átak og skýrður tilgangur frv.
    Í 2. gr. er gert ráð fyrir breytingum á lögum um Fiskveiðasjóð en í greininni segir:
    ,,Þrátt fyrir ákvæði laga um Fiskveiðasjóð Íslands skal frá og með árinu 1992 til ársloka 1995 aldrei veita hærra lán til smíða eða viðgerða á fiskiskipi erlendis en sem nemur 40% af verði skipsins. Hámarkslán til skipasmíði innan lands skal nema 75%.``
    Hér er gerð tillaga um að koma til móts við mjög mikilvæga kröfu skipasmíðaiðnaðarins á Íslandi sem flutt hefur verið aftur og aftur undanfarin ár.
    Í 3. gr. er um að ræða nýmæli sem ekki hefur verið gerð tillaga um á Alþingi áður en þar er gert ráð fyrir því að þegar skip er tekið til úreldingar á móti nýju skipi verði dregin 20% frá stærð skipsins sem úrelt er ef nýja skipið er smíðað erlendis. Þetta þýðir með öðrum orðum það að ef um er að ræða að úrelda skip sem er 100 tonn eða svo og ef smíðað er á móti skipinu erlendis, þá verði hver 100 tonn tekin sem 80 tonn o.s.frv. Þetta er auðvitað gert til þess að styrkja samkeppnisstöðu íslenska skipasmíðaiðnaðarins.
    Í 4. gr. er einnig um að ræða nýmæli sem aldrei hefur áður verið gerð tillaga um á Alþingi og nauðsynlegt er að fá nokkra umræðu um. En greinin hljóðar svo:
    ,,Áður en samningur er gerður um smíði eða viðgerðir á skipi erlendis skal kanna hvort um er að ræða beina eða óbeina ríkisstyrki eða niðurgreiðslur til viðkomandi skipasmíðastöðvar. Leiði könnunin það í ljós að um opinberar stuðningsaðgerðir sé að ræða getur fjmrh. lagt jöfnunargjald á samningsverðið sem nemur allt að 6%.``
    Hér er sem sagt gert ráð fyrir því að fjmrh. verði heimilt, ef um niðurboð og niðurgreiðslur er að ræða, að leggja á innflutt skip allt að 6% sem er auðvitað liður í því að treysta samkeppnisstöðu okkar skipasmíðaiðnaðar. Sem dæmi er það nefnt í greinargerð frv. að í Noregi eru nú í smíðum fimm skip fyrir íslenskan markað og er talið að þau kosti 3,1 milljarð kr. Þessi 6% jöfnunartollur sem hér er verið að tala um gæfi um 180 millj. kr. af þessum skipum en það er talið að í Noregi sé um að ræða 12% ríkisstyrki til skipasmíðastöðvanna. Með 6% jöfnunargjaldi, eins og hér er gerð tillaga um, er aðeins verið að vega upp helminginn af þeim niðurgreiðslum sem eiga sér stað í Noregi.
    Í 5. gr. frv. er kveðið á um það að ef lagt er á jöfnunargjald skv. 4. gr. skuli fjármununum varið til þróunarverkefna í skipasmíðaiðnaði eftir nánari reglum sem tilgreindar verða í reglugerð. Hér er auðvitað um mjög mikilvægt ákvæði að ræða vegna þess að eitt af því sem þarf að gerast er auðvitað að það verði tekið heildstætt á skipulagsmálum skipasmíðaiðnaðarins og málmiðnaðarins í landinu og hér eru skapaðir möguleikar til fjármuna í því skyni. Ég tel að frv. sé ekki síst mikilvægt út frá þeirri forsendu.
    Í 6. gr. frv. er kveðið á um það að áður en gerður er samningur um nýsmíði á fiskiskipi erlendis eða samningur um meiri háttar viðgerð á skipi erlendis skuli ævinlega fara fram útboð sem íslenskar skipasmíðastöðvar geta tekið þátt í samkvæmt reglum sem settar verða að tillögu stjórnar skv. 7. gr. þessa frv.
    Í 7. gr. er kveðið á um fimm manna þróunarstjórn, sem hafi með þetta þróunarátak að gera, en þar segir:
    ,,Til þess að stuðla að samstarfi þeirra aðila sem í hlut eiga samkvæmt lögum þessum skipar iðnrh. fimm manna þróunarstjórn sem fylgist með framkvæmd laganna. Stjórnin er skipuð einum manni frá Fiskveiðasjóði, einum manni sem tilnefndur er af sjútvrh., einum fulltrúa sem tilnefndur er af samtökum launafólks í greininni, einum manni sem tilnefndur er af atvinnurekendum í greininni og einum manni sem tilnefndur er af iðnrh. og er hann formaður nefndarinnar.``
    Í 8. gr. segir svo:
    ,,Stjórnin, skv. 7. gr., beitir sér fyrir samstarfi þeirra aðila sem mestu skipta um þróun skipasmíðaiðnaðarins, bæði fulltrúa launafólks í greininni og atvinnurekenda, fulltrúa rannsóknastofnana ekki síst og ráðuneyta. Stjórnin skal sérstaklega beita sér fyrir markaðssetningu á vörum og þjónustu íslenska skipasmíðaiðnaðarins.``
    Í þessu frv. er hreyft allmörgum hugmyndum skipasmíðaiðnaðarins sem ekki hafa áður komið í frumvarpsformi inn á Alþingi. Það er nauðsynlegt og æskilegt að fá afstöðu Alþingis og ríkisstjórnar til þeirra hugmynda sem hér er hreyft í einstökum atriðum og ég vil þakka hæstv. iðnrh. fyrir að vera viðstaddur þessa umræðu þannig að það væri hægt að heyra hans sjónarmið til þeirra hugmynda sem fram koma í frv. en það má í grófum dráttum segja að það séu fimm nýjar hugmyndir sem settar eru fram: Í fyrsta lagi um breyttar lánareglur Fiskveiðasjóðs. Í öðru lagi um aðra aðferð við úreldingu skipa þegar á móti úreltu skipi er smíðað erlendis. Í þriðja lagi tillagan um jöfnunargjald sem lagt yrði á. Í fjórða lagi er það tillagan um að jöfnunargjaldinu yrði varið til þróunarverkefna. Og í fimmta lagi er það hugmyndin um að skipuð verði þróunarstjórn og að efnt verði til þróunarátaks til þriggja ára til þess að varðveita skipasmíðagreinina þangað til menn eru búnir að taka niður styrkina í samkeppnislöndum okkar í skipasmíðum, en það er auðvitað ljóst að þeir styrkir og þær niðurgreiðslur, t.d. í Noregi, eru svo að segja alveg að drepa niður okkar skipasmíðaiðnað.
    Hvernig stendur þetta núna? Þetta frv. var flutt í nóvember ef ég man rétt, í febrúar í vetur fékk ég yfirlit um það frá Landssambandi iðnaðarmanna hvað er verið að smíða af skipum, bæði hér og erlendis og ég ætla að fara aðeins yfir það, með leyfi forseta. Það er þá verið að smíða innan lands sýnist mér fimm skip að mati Landssambands iðnaðarmanna. Þetta eru litlir bátar alveg niður í 9 tonn í Skipavík í Stykkishólmi. Það er verið að smíða 140 tonna skip í Skipasmíðastöð Njarðvíkur, það eru skráð 500 tonn á Slippstöðina á Akureyri og önnur 500 tonn á Slippstöðina á Akureyri í hennar eigu sem menn kannast við hvernig hefur farið með og svo 22 tonna bátur í Skipabrautinni sf. í Njarðvíkum. Þetta er allt sem er talið upp þá í yfirliti Landssambands iðnaðarmanna sem sé í gangi á Íslandi.
    Síðan er það sem verið er að smíða í skipasmíðastöðvum erlendis. Það eru sjö skip og þau eru upp í 2.100 brúttótonn. Það er 262 tonna skip í Portúgal fyrir Borg hf., 3.800 tonna skip fyrir Herjólf hf., 1.700 tonna skip fyrir Samherja hf. í Flekkefjord, 2.100 tonna skip fyrir Ögurvík hf. í Flekkefjord, 2.000 tonna skip fyrir Skagstrending hf. í Bergen, 700 tonna skip fyrir Kristján Guðmundsson í Tomrefjord og 700 tonna skip í Tomrefjord líka fyrir Kristján Guðmundsson. Hér er með öðrum orðum um það að ræða að það eru stórfelld smíðaverkefni í gangi erlendis fyrir íslenska útgerðaraðila upp á fleiri þúsund tonn á sama tíma og heildin sem Landssamband iðnaðarmanna telur fram í símbréfi til mín í febrúar, mér sýnist að hún sé eitthvað um 1.100 tonn. Það er því alveg augljóst mál að eins og staðan er núna er skipasmíðaiðnaður að leggjast af á Íslandi og á sama tíma er það auðvitað alveg ljóst að við verðum að eiga okkar skipasmíðar hér á landi vegna þess að við erum einfaldlega fiskveiðiþjóð og þurfum á því að halda að gera við skip og smíða skip. Og það er líka ljóst sem hvert barn sér að með því að skipasmíðarnar leggjast af, þá náttúrlega leggst líka af grundvöllur fyrir viðgerðirnar vegna þess að þetta hangir saman og þegar við erum hættir að geta gert við okkar skip, hvar stöndum við þá? Erum við þá fiskveiðiþjóð sem rís undir nafni? Auðvitað ekki.
    Í símbréfi til mín frá Landssambandi iðnaðarmanna í febrúarmánuði sl. er komist þannig að orði um verkefnastöðu fyrirtækja í Félagi dráttarbrauta og skipasmiðja í febrúar 1992, með leyfi forseta:
    ,,Nú um miðjan febrúar gerði Félag dráttarbrauta og skipasmiðja lauslega könnun á verkefnastöðu félagsmanna. Í könnuninni náðist í 14 af 16 félagsmönnum. Í ljós kom að staðan er almennt mjög slæm þó að einstakar stöðvar standi sæmilega. Talsvert ber á aukaverkefnum, t.d. smáverk í landi eða verkefni í tengslum við vinnslulínur og fiskvinnsluvélar. Almennt er mikil óvissa með verkefni í náinni framtíð. Nokkuð sem veldur erfiðleikum í skipulagningu hjá stöðvunum. Sumar stöðvar eru algerlega verkefnalausar og hafa sagt upp mannskap af þeim sökum. Dauft er yfir útboðsmarkaðnum og virðast útgerðarmenn halda að sér höndum. Forráðamenn sumra stöðvanna kvörtuðu undan því að farið væri af stað með útboð án þess að ákveðið væri að ráðast í framkvæmdir, þ.e. að útgerðarmenn væru að gera eins konar verðkannanir. Einnig finnst mörgum að leikreglur séu oft ekki virtar í útboðum. Þetta er afar slæmt þó svo ástandið sé reyndar álíka slæmt í öðrum atvinnugreinum.``
    Félag dráttarbrauta og skipasmiðja tók einnig saman fyrir mig yfirlit yfir þróun starfsmannafjölda á undanförnum árum hjá einstökum skipasmíðastöðvum og skipaviðgerðarstöðvum á Íslandi og það kemur fram að um áramótin 1986 og 1987 voru 870 manns í vinnu í þessum fyrirtækjum sem eru innan Félags dráttarbrauta og skipasmiðja en í febrúar sl. voru þessir starfsmenn tæplega 630 og hafði fækkað um 240 á þessum tíma. Og það segir sig sjálft að það munar um þetta í því ástandi sem við erum í núna í efnahags- og atvinnumálum þegar heil grein er svo að segja að fara á hliðina og leggjast af. Ég held að góð stefna í atvinnumálum byggist ekki bara á því að reyna að finna eitthvað nýtt, eins og það er kallað, heldur byggist hún líka á því að halda utan um það sem til er. Það hefur því miður ekki tekist.
    Á þessum tímum, um áramótin 1986--1987, voru mörg lítil fyrirtæki í gangi í skipasmíðum á Íslandi. Mörg þeirra eru núna hætt störfum. Ég ætla að fara yfir þau. Það var t.d. Bátalón hf. sem hafði þá 33 starfsmenn, er núna ekki til, með engan starfsmann. Það var Bátanaust hf. sem hafði þrjá starfsmenn, hefur núna engan. Það var Daníel Þorsteinsson og co. hf. sem hafði 17 starfsmenn, hefur núna 10. Það var Dröfn hf. sem hafði 40 starfsmenn, hefur núna 45 og er eitt fyrirtæki af örfáum sem bætir aðeins við sig. Það var fyrirtækið Naustir hf. sem hafði 5, hefur núna engan. Það var fyrirtækið Nökkvi hf. sem hafði 15 en hefur núna 12. Það var dráttarbraut Síldarvinnslunnar í Neskaupstað sem hafði 30 en hefur 36, bætir þó við sig 6 mönnum. Það var Skipalyftan hf. sem hafði 90 menn en hefur núna 35. Það var Skipasmiðjan Hörður sem hafði 25 menn en hefur núna engan. Skipasmiðja Marsellíusar hf. sem hafði 27, hefur núna 35, bætir við sig. Skipasmíðastöð Njarðvíkur hf. hafði 65, fer niður í 50. Skipaviðgerðir hf. fer úr 17 í 14. Skipavík hf. fer úr 26 í 22. Svo kemur það sem munar mest um, Slippstöðin hf. fer úr 270 í 160. Stálsmiðjan fer úr 20 og bætir við sig á þessum tíma og er núna með skráða menn í verkefnum af þessu tagi um 100. Stálvík hf. fer úr 70 niður í núll. Hún hverfur á þessum tíma. Vélsmiðja Seyðisfjarðar fer úr 20 í 5. Vör hf. skipasmíðastöð fer úr 19 í 24. Þorgeir & Ellert fer úr 110 í 60 á þessum tíma og niðurstaðan er sú að á þessum tíma fækkar starfsmönnum í skipasmíðum á Íslandi um 240 manns. Það munar um minna í þessu landi.

    Menn voru áðan að ræða um atvinnumál á Suðurnesjum. Ég held að menn ættu kannski að skoða þessa hluti í einhverju samhengi og átta sig á því að það getur verið skynsamlegt í atvinnumálastefnu að halda utan um það sem til er líka. Það kemur sem sagt á daginn að á þessum lista, sem ég las upp, eru í raun og veru fjórar skipasmíðastöðvar, að vísu litlar eins og Bátalón, sem eru núna úr sögunni, hafa algerlega verið aflagðar. Flestar hafa í raun og veru lent í því að um er að ræða verulegan samdrátt og örfáar, líklega fjórar, bæta aðeins við sig á þessum tíma.
    Auk þess er það auðvitað alveg ljóst, virðulegi forseti, að ef þessu heldur svona áfram eins og verið hefur, þá mun fækka enn þá í þessum hópi. Það er ekki búið að búa til neina girðingu í þeim efnum þannig að þessi starfsemi haldi áfram svo að ég tel að hreyft sé býsna stóru máli og nauðsynlegt að átta sig á því hvernig hæstv. ríkisstjórn og hv. Alþingi vilja taka á því og þess vegna lagði ég á það áherslu að fá að mæla fyrir þessu frv. hér í dag að það kæmist til nefndar og það yrði sent til umsagnar og menn gætu fengið skoðanir á því í þinginu núna næstu daga.
    Það er auðvitað oft talað þannig í þessari atvinnumálaumræðu og alveg sérstaklega núna að undanförnu eins og allt sé í kaldakoli á Íslandi og það sé óhjákvæmilegt að það sé í kaldakoli. Það sé í raun og veru eins og einhverjar hremmingar sem þjóðin sé dæmd til að taka á sig, að hér sé allt í steik eins og það heitir á nútímaíslensku. En það er bara ekkert endilega þannig, staðreyndin er sú. Þegar við skoðum þá möguleika sem þjóðin á á ýmsum sviðum þá eru þeir margir. Stofnun eins og Þjóðhagsstofnun, sem hæstv. iðnrh. veit að er ekkert sérstaklega ýkin þegar hún er að spá svona inn í framtíðina, hún er vön að vera svona heldur hófleg, ég segi nú ekki meira, hún jafnvel kemst að þeirri niðurstöðu að við getum ágætlega lifað af í þessu landi. Ég hef undir höndum álit Þjóðhagsstofnunar á því hvernig hlutirnir gætu þróast í íslenskum efnahags- og atvinnumálum næstu tvo áratugi eða svo. Þjóðhagsstofnun gerir t.d. ráð fyrir því að á þessum tíma geti útflutningsframleiðsla aukist mjög verulega eða um 70--80% að meðtöldu verulegu magni af áli. Ef við skoðum þessar tölur Þjóðhagsstofnunar kemur það fram að útflutningsframleiðslan núna á árinu 1990 er talin vera 90 milljarðar. En Þjóðhagsstofnun skoðar þetta t.d. miðað við árið 2015 og er þar með töluna 210 milljarða á móti 90 milljörðum. Þjóðhagsstofnun telur að langstærsti hlutinn af þessu komi frá sjávarútveginum, þar geti verið um að ræða aukningu í útflutningsverðmætum úr 68 milljörðum í um 111 milljarða á þessum tíma. Og jafnvel þó að við sleppum algerlega álverksmiðjum út úr þessu dæmi getum við samt sem áður verið með aukningu á útflutningsverðmætum þjóðarinnar á tímanum fram til ársins 2015 að mati Þjóðhagsstofnunar upp á sennilega um það bil 50%.
    Ef við skoðum hvað það er sem Þjóðhagsstofnun er þarna með þá er hún t.d. með á þessum tíma hugmyndir um að útflutningur með raforku með sæstreng geti gefið okkur um 19 milljarða. Hún er með það að tekjur af ferðamönnum muni meira en tvöfaldast á þessum tíma og tekjur af samgöngum muni meira en tvöfaldast á þessum tíma. Það er því alveg ljóst að þó að um sé að ræða að mörgu leyti erfiðan öldudal í efnahagsmálum okkar núna eins og sakir standa þá er engin ástæða til þess fyrir þjóðina að leggja árar í bát, ekki nokkur ástæða til þess. Þvert á móti er hægt að flytja fyrir því fullnægjandi rök að þessi þjóð geti, þegar hún kemur upp úr þessum öldudal, búist við tiltölulega mjög góðum lífskjörum miðað við það sem gerist í kringum okkur. Það er því engin ástæða til þess að leggjast í varanlega svartsýni eða ég tala nú ekki um í ,,Weltschmerz``. Ég vona að menn viti eftir viðtal Matthíasar Johannessen við Halldór Laxness í sjónvarpinu í gærkvöld hvað það orð þýðir. --- Það er engin ástæða til þess að leggjast hér í gróflegan ,,Weltschmerz`` til langs tíma þó að það þrengi dálítið að um þessar mundir. Og þess vegna er þetta frv. um þróunarátak í skipasmíðaiðnaði flutt af okkur sem erum fulltrúar Alþb. í iðnn. og sjútvn. Ég vænti þess að það fái jákvæða umræðu og mér þætti mikilvægt að það lægi fyrir einhver skoðun hæstv. iðnrh., sem hefur auðvitað mikið um þetta mál að segja, á þeim grundvallaratriðum sem hreyft er í þessu frv.
    Ég vil líka taka það fram að þetta er auðvitað ekki hugsað þannig af okkur að við teljum að þetta sé eitthvað óumbreytanlegt og endanlega fullkomið. Það er mjög langt frá því. Við erum tilbúnir til að skoða málið í heild með hliðsjón af öðrum, breyta og laga. Aðalatriðið fyrir okkur er það að Alþingi átti sig í fyrsta lagi á því að ástandið er slæmt og í öðru lagi að það er hægt að bæta það.
    Ég legg svo til að að lokinni þessari umræðu verði frv. þessu vísað til 2. umr. og hv. iðnn.