Þróunarátak í skipasmíðaiðnaði

131. fundur
Fimmtudaginn 30. apríl 1992, kl. 15:27:39 (5782)


     Flm. (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þær umræður sem hafa farið fram um þetta mál. Ég tel að þær hafi í grófum dráttum verið jákvæðar. Ég læt mér í léttu rúmi liggja minni háttar pólitísk skot sem hafa komið fram og sem skipta engu máli í þessu sambandi. Aðalatriðið er að við stöndum frammi fyrir því að það er heil iðngrein að leggja upp laupana. Í henni starfa núna um 600 manns en störfuðu áður um 1.000 manns, og örugglega gætu 1.200--1.500 manns starfað í iðngreininni ef eðlilega væri að hlutunum staðið. Hér er með öðrum orðum um álíka fjölda atvinnutækifæra og yrðu í einu nýju stóru álveri. Hér er því alveg eins mikilvægt verkefni og það að ræða um álver. Ég heyrði ekki betur en hæstv. iðnrh. væri almennt séð jákvæður í sambandi við málið þótt hann hefði að sjálfsögðu talið sér skylt að gera við það ýmsar efnislegar athugasemdir í sinni ræðu áðan.
    Ég vil þá fyrst segja það að formgerð málsins skiptir mig í raun og veru engu máli í þessu sambandi. Aðalatriðið í mínum huga og okkar flm. var að koma þessum málum þannig hér á dagskrá að þau lægju fyrir í samfellu með formlegum hætti og þá er flutningur frv. eina leiðin. Mér þótti líka betra að hafa þetta í frumvarpsformi en sem þáltill. vegna þess að þær eru oft býsna loðnar og lítið afmarkaðar satt best að segja. Við reyndum því að vanda okkur pínulítið við þetta og reyndum að afmarka eins skýrt og við gátum um hvað við erum að tala í þessu efni.
    Ég ætla að víkja að þessum fimm hugmyndum sem ég var með. Ég ætla ekki að halda því fram að þær séu nýrri en ýmislegt annað en þær hafa ekki áður verið settar fram í einu samfelldu lagafrv.
    Ég ætla aðeins að segja það --- af því að ég sé að iðnrh. hefur þrifið tösku sína og er sennilega verið að kalla hann á fund til að undirbúa flokksþing Alþfl., sem er brýnasta verkefni forustumanna ríkisstjórnarinnar um þessar mundir til að bjarga Jóni Baldvini, hæstv. utanrrh. --- ég ætla aðeins að spyrja: Hver hefur verið aðalvandinn í sambandi við skipasmíðaiðnaðinn? Hver hefur hann verið þessi vandi? Hann hefur verið, eins og ráðherrann gat um áðan, vegna stöðunnar í sjávarútveginum almennt en auðvitað líka vegna niðurgreiðslnanna í kringum okkur, það viðurkenna það allir. Af hverju hefur ekki verið gripið til aðgerða til að vega upp þessar niðurgreiðslur? Það er vegna þess að sjávarútvegurinn hefur verið á móti því. Það er svo einfalt. Sjávarútvegurinn hefur sett sig þversum á allar aðgerðir til að lyfta undir íslenska skipasmíðaiðnaðinn ef það gæti orðið til þess að íslenskur sjávarútvegur fengi í skemmri tíma fengi ódýrari skip en ella.
    Ég ætla að segja það sem mína skoðun á þessu máli að ég tel að hér sé um að ræða ótrúlega skammsýni af hálfu sjávarútvegsins sem mun koma í hausinn á honum líka. Þegar menn eru búnir að brjóta

niður skipasmíðar í landinu verður heldur ekki hægt að gera við skip, þau skip sem sjávarútvegurinn er að reyna að halda hér til veiða, sem þýðir aftur á móti að sú almenna þjónusta verður dýrari fyrir sjávarútveginn. Þessi afstaða sem sjávarútvegurinn og sjútvrn. reyndar líka hefur tekið lýsir að mínu mati þröngsýni og skammsýni af hálfu sjávarútvegsins. Það ber að reyna að safna liði allra sæmilegra manna til að horfa yfir þessi mál sem heild og fá sjávarútveginn til að átta sig á því að hann er í raun að vinna gegn sjálfum sér með þessari ofboðslegu þröngsýni sem hann kemur þarna fram með og er að drepa skipasmíðaiðnaðinn. Þessi neikvæða afstaða sumra forustumanna í sjávarútvegi, ég segi samtakanna í sjávarútvegi yfirleitt og reyndar sjútvrn. líka, er algerlega óþolandi.
    Ég tók eftir því að hæstv. iðnrh. og hv. þm. úr stjórnarliðinu sem hér töluðu tóku þessum hugmyndum að mörgu leyti vel og vildu skoða þær nánar. Ég mun beita mér fyrir því í iðnn., þar sem ég á sæti, að þessar hugmyndir fái alvarlega skoðun. Þar á einnig sæti hv. 5. þm. Vesturl., Guðjón Guðmundsson, svo ég geri ráð fyrir að við getum tekið á þessum málum í iðnn. og ætla ekki að þreyta þingheim á því nú með því að fara yfir málið í einstökum atriðum, vil bara leggja á það áherslu að ég kýs að meta það svo að skilningur sé á þessum vanda og vilji til að leysa hann. Þótt menn kunni að hafa ýmsar skoðanir á því hvernig rétt sé að fara í málið formlega, sem ég geri ekkert með satt að segja, þá er hitt aðalatriðið að menn eru greinilega óðum að átta sig á því að á þessum málum verður að taka af myndarskap því við þolum það ekki sem sjálfstæð fiskveiðiþjóð að drepa niður skipasmíðaiðnaðinn í landinu.