Þróunarátak í skipasmíðaiðnaði

131. fundur
Fimmtudaginn 30. apríl 1992, kl. 15:33:46 (5783)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegi forseti. Fyrst langar mig að nefna að hæstv. iðnrh. sagði að 7. tilskipunin rynni út í árslok 1993. Það er að vísu rétt. En í yfirlýsingu Evrópubandalagsins um skipasmíðar stendur eftirfarandi, með leyfi forseta: ,,Sjöunda tilskipunin rennur út í árslok 1993. Þegar framkvæmdastjórnin tekur ákvörðun um hvort ný tilskipun er nauðsynleg mun hún kanna samkeppnisaðstöðu skipasmíðaiðnaðarins innan EES í ljósi þess hvernig tekist hefur til við að minnka eða afnema samningsbundna framleiðsluaðstoð.``
    Þetta vildi ég að kæmi hér fram vegna þess að það bendir óneitanlega til þess að stuðningur við skipasmíðaiðnaðinn í EB-löndunum verði ekki endilega liðinn undir lok árið 1993. Það er meira að segja líklegra að þeir hafi verið að búa sig undir að framlengja þetta ástand að einhverju leyti eða alveg með því að hafa þessa yfirlýsingu svona.
    Ég vil svo koma nánar að þeirri hugmynd sem ég nefndi áðan sem kom fram í skýrslunni frá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins um fullnýtingu sjávarafla í vinnsluskipum. Þarna er um að ræða mjög frambærilega hugmynd sem er rökstudd mjög þungum rökum, hagkvæmnisrökum. Þarna segir, ef ég vitna í þessa skýrslu, með leyfi forseta:
    ,,Nærtækast fyrir skipin er að auka aflaverðmætin með afurðaaukningu sem felst í aukinni vinnslunýtingu, bættum gæðum og auknum afköstum. Stækkun minni skipanna er hins vegar forsenda til að koma megi vinnslunni fyrir, þ.e. meiri fullvinnslu skipanna. Þarna er um að ræða 14 skip sem við eigum nú þegar og þarf að lengja til þess að það sé hægt að koma fullvinnslulínunni fyrir í þeim. Ef togbátarnir eru undanskildir er heildarfjárfesting við þessar breytingar 2,7 milljarðar sem skilar 315 millj. í hagnað á ári með 20,2% innri vöxtum. Með því að nýta einnig úrganginn í aukaafurðir og meltu þar sem úrvinnslan færi fram í landi eykst hagnaður um 185 millj. á ári og innri vextir aukast um 2,2%. Heildarfjárfesting yrði þá 3,4 milljarðar sem mundi borga sig upp á tæpum þremur árum með 22,4% innri vöxtum miðað við 10% ávöxtunarkröfu. Hagnaður útgerða yrði 350 millj., hagnaður í úrvinnslu í landi um 150 millj.``
    Ef þetta eru upplýsingar sem hægt er að staðfesta að séu áreiðanlegar er þarna verulega stórt tækifæri til þess að rétta skipasmíðaiðnaðinn við á næstunni, þ.e. fara í þessar aðgerðir og tryggja innlendu skipasmíðastöðvunum þessi verkefni. Ég tel að það væri þarft og gott mál að sameinast um, í framhaldi af öllunum ræðunum í vetur um mikilvægi þess að gera eitthvað fyrir íslenska skipasmíðaiðnaðinn, að skoða þetta mál til enda, skoða það nákvæmlega með hliðsjón af fjármögnun og öðru, tala við allar þær útgerðir sem eiga hlut að máli og athuga hvort það er ekki hægt að koma þessu átaki af stað ef allir vísar benda í sömu átt eins og virðist vera samkvæmt þessari skýrslu.
    Að öðru leyti ætla ég ekki að lengja umræður. Ég vil þakka fyrir þær og vonast sannarlega til að við sjáum einhvern árangur af þeim ræðum sem við höfum haldið í vetur til stuðnings íslenskum skipasmíðum.