Skipaútgerð ríkisins

131. fundur
Fimmtudaginn 30. apríl 1992, kl. 15:41:03 (5786)


     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil áður en ég ræði um frv. koma því á framfæri að ég óska eftir því að hæstv. fjmrh. verði viðstaddur umræðuna og spyr hæstv. forseta hvort ráðherrann sé í húsinu eða tiltækur. ( Forseti: Forseti mun gera ráðstafanir til þess að kanna það.) Ég þakka forseta fyrir. Ég get í sjálfu sér flutt mína ræðu að mestu leyti en ég hygg að það verði nokkuð erfitt að ljúka henni án þess að hæstv. fjmrh. sé viðstaddur. Fari svo að ráðherrann komi ekki vil ég láta það koma fram að ég tel mig ekki með góðu móti geta lokið minni ræðu nema ráðherrann komi áður en henni lýkur.
    Það frv. sem hér er lagt fram og er til umræðu kemur ekki á óvart í ljósi þess sem á undan er gengið. Það er í rökréttu framhaldi af þeim ákvörðunum sem teknar voru snemma á þessu ári eða um síðustu áramót. Það er þó ástæða til að ræða nokkuð um málaflokkinn sem varðar þessi lög sem lagt er til að felld verði niður. Í fyrsta lagi vil eg nefna að almennt er ástæða að mínu viti til þess að fá upp stefnu stjórnvalda varðandi samgöngur á sjó. Þessi breyting tekur á einum þætti þeirrar stefnu. Breytingin er sú að það er ekki lengur verkefni ríkisins að styrkja eða stuðla að samgöngum á sjó, hvorki með rekstri fyrirtækis né með fjárframlögum. Það þýðir að málin eru að öllu leyti lögð í hendur atvinnulífsins eða þeirra fyrirtækja sem stunda siglingar á sjó og látið skeika að sköpuðu um framvindu mála.
    Nú eru menn að sjálfsögðu ekki sammála um þá stefnumörkun sem núverandi stjórnvöld hafa ákveðið varðandi samgöngur á sjó hér við land en sú stefnumörkun hlýtur að vekja upp spurningar um stefnu stjórnvalda varðandi samgöngur á sjó með flóabátum og innfjarðaferjum. Samkvæmt fjárlögum er verulegu fé varið til þessa málaflokks eftir sem áður og ekki bara verulegu í þeim skilningi að það séu sambærilegar upphæðir og voru árlega veittar til Skipaútgerðar ríkisins heldur er fjárhæðin margfalt hærri og samkvæmt fjárlögum, sérstöku yfirliti, er varið um 300 millj. kr. á þessu ári til þess og að mestu leyti í svokallaða flóabáta.
    Það hefur hingað til verið álitið hlutverk ríkissjóðs að útvega Vestmanneyingum samgöngutæki til að ferðast milli lands og Eyja. Þar nefni ég Herjólf. Það skip mun kosta, ásamt hafnabótum sem gera þarf, verulega peninga, líklega eitthvað um það bil 1.600 millj. eða svo. Felst í þessari stefnu ríkisstjórnarinnar varðandi Skipaútgerð ríkisins samsvarandi breyting á stefnu ríkisstjórnarinnar gagnvart flóabátum? Ef svo er ekki þarfnast málið frekari skýringar því að þá er augljóst ósamræmi þarna á milli sem menn þurfa að ræða um.
    Það hefur reyndar verið boðað af hæstv. samgrh. að yfir málefni flóabáta verði farið og þau skoðuð, væntanlega með nýjar áherslur í huga. Ég leita eftir því við hæstv. samgrh. að hann geri grein fyrir meginþáttum í þeim nýju áherslum sem hann hyggst taka upp varðandi flóabáta.
    Ég vil líka láta koma fram varðandi þennan almenna stefnumarkandi lið að auðvitað geta menn sinnt hlutverkinu með ýmsum hætti. Ég er þeirrar skoðunar og hef verið að ríkið geti ekki umsvifalaust lokið afskiptum af samgöngum á ströndinni innan lands eins og gert hefur verið. Ég er hins vegar ekki þeirrar skoðunar að málin þurfi að vera áfram í óbreyttri mynd frá því sem var og stóð reyndar að tillögu innan stjórnarnefndarinnar um að breyta félaginu yfir í hlutafélag og reyna að þróa málið áfram, ná þannig niður kostnaði en jafnframt þannig að ríkið hefði ákveðnar skuldbindingar um þjónustu við íbúa á landsbyggðinni.
    Það voru mér veruleg vonbrigði þegar hæstv. ráðherra hafnaði þeirri leið að þriðja skipafélagið yrði stofnað og það er út af fyrir sig pólitísk stefna að það skuli einungis vera tvö skipafélög sem keppa innan lands. Ég tel að í ákvörðun hæstv. ráðherra hafi falist sú stefna að koma í veg fyrir að stofnað yrði þriðja skipafélagið sem hefði burði til að geta veitt báðum skipafélögunum, Eimskip og Samskip, verulega samkeppni, ekki aðeins með siglingum innan lands heldur með siglingum milli landa. Það er að mínu viti full þörf á því að brjóta upp það fyrirkomulag sem er í siglingum á milli Íslands og annarra landa. Að mínu viti er fjarri því að vera nægjanleg samkeppni og í öðru lagi of mikill stærðarmunur á þeim aðilum sem þetta stunda. Einn aðilinn sérstaklega hefur þar yfirburðastöðu og hefur nánast framtíð annarra í hendi sér ef honum sýnist svo. Því tel ég það hafa verið ranga ákvörðun að koma í veg fyrir stofnun þriðja skipafélagsins og hún leiði einungis til þess að viðhalda því kerfi sem við höfum búið við nokkuð lengi í siglingum milli landa. Í öðru lagi var sú ákvörðun röng þar sem í henni fólst og var skýrt tekið fram að það væri ekki stefna ríkisvaldsins að styrkja siglingar á milli staða innan lands.
    Nú er framtíðin að vissu leyti nokkuð óljós. Stefnan hefur verið mörkuð og við búum við hana um skamma hríð. Hún er óljós en fyrsta kastið er í gangi veruleg samkeppni milli þessara tveggja skipafélaga um þær siglingar og þá farma sem Skipaútgerð ríkisins hafði áður flutt. Ég tel því að það sé ekki komið það ástand eða sú reynsla sem gefur mönnum tilefni til að draga þá ályktun um þá ákvörðun sem tekin var, að þar hafi verið rétt að verki staðið. Ég tel í raun að þess sé ekki að vænta að við sjáum það ástand sem framtíðin mun leiða í ljós fyrr en eftir eitt ár eða svo. Samkeppnin sem nú er í gangi er að mínu viti tímabundin. Síðan mun draga úr þjónustu þessara fyrirtækja við hafnir hér á landi.
    Það er ljóst og í raun staðreynd að innanlandssiglingar eru að nokkru leyti reknar með tapi. Þau skipafélög sem nú eru að sigla, hvort um sig með þrjú skip, reka hluta af sínum siglingaleiðum með tapi. Ég hygg ómótmæltanlegt að það sé staðreynd og reyndar hef ég fengið það staðfest. ( Forseti: Forseti vill trufla hv. ræðumann og segja frá því að hæstv. fjmrh. er ekki í húsinu og það hefur ekki tekist að ná í hann. Vill forseti að það komi fram.) Ég þakka forseta fyrir hans eftirgrennslan en ég ítreka að ég tel mig ekki geta lokið mínu máli nema geta beint því að nokkru leyti til hæstv. fjmrh. og komi hann ekki til fundar á þessum þingfundi mun ég óska eftir því að fá að fresta ræðu minni. Ég mun þá halda áfram á næsta þingfundi. En ég get þess vegna haldið áfram eitthvað um stund ef forseti vill. ( Forseti: Forseti telur að úr því svo stendur á hjá hv. þm. sé best að ræðunni verði frestað og umræðunni frestað og tekið fyrir næsta mál á dagskrá.) ( GHelg: Ég óska eftir að fá að bera fram eina fyrirspurn. Kemur það að sök áður en umræðunni verður frestað vegna þess að ég tel að það væri mjög ágætt að það komi fram.) ( Forseti: Forseti telur eðlilegast að þar sem hv. þm. er í miðri ræðu verði umræðunni frestað og ræðu hv. 5. þm. Vestf. haldið áfram þegar umræðu verður fram haldið.)