Röð mála á dagskrá og viðvera ráðherra og stjórnarþingmanna

131. fundur
Fimmtudaginn 30. apríl 1992, kl. 16:08:00 (5793)


     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Mér þykir leitt að hæstv. samgrh. skuli hafa séð ástæðu til að snúa út úr orðum mínum. Auðvitað var ég ekkert að mótmæla því að hv. 5. þm. Vestf. bæði um að fresta máli sínu. Ekki er þar með sagt þótt þingmaður óski eftir að geyma hluta ræðu sinnar að það þurfi endilega að fresta allri umræðunni. Oft hefur öðrum verið hleypt að um sama mál þrátt fyrir það en umræddur þingmaður síðan haldið áfram máli sínu þegar honum hentaði. En það er ekki það sem ég er að tala um hér. Auðvitað hefur það ævinlega verið gert eins og ég sagði hér áðan að hæstv. ráðherrar hafa haft vissan forgang með mál sín og við því er ekkert að segja. Það hafa allir forsetar viðurkennt og virt.
    Það sem ég var hins vegar að tala um er að þátttaka hv. þm. í þingstörfum í vetur hefur verið með hreinum ólíkindum. T.d. eru núna staddir í húsinu 20 þingmenn af 63. Það er of lítið. Þannig hefur þetta verið dag eftir dag ekki síst þegar umræður hafa farið fram um mál þingmanna og raunar líka málefni hæstv. ráðherra og ríkisstjórnar. Þannig að ef það er hugmynd manna að fólk komi einkum og sér í lagi til að taka þátt í atkvæðagreiðslu en sé svo víðs fjarri allar umræður á hinu háa Alþingi þá þykir mér það ekki gott ástand. Það kemur því auðvitað ekkert við hvort þingið er í einni málstofu eða fleirum. Aðalatriðið er að menn sinni því sem þeim hefur verið falið af kjósendum sínum, að hlýða á mál manna, skiptast á skoðunum, ræða mál og afgreiða þau síðan.
    Ég vil minna hæstv. forseta á að einungis ein tillaga þingmanns hefur hlotið afgreiðslu í vetur. Á sama tíma í fyrra var búið að afgreiða 18 þingmannamál og þar af tvenn lög. Það segir dálítið um það hvaða forgangsröð mál hafa haft í vetur og hvaða röð hér á árum áður. Ég vil biðja hæstv. forseta að taka upp mál okkar stjórnarandstöðuþingmanna í forsætisnefnd þingsins. Ég held að við þetta verði ekki unað.