Hafnalög

131. fundur
Fimmtudaginn 30. apríl 1992, kl. 16:33:04 (5796)

     Sturla Böðvarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Vegna ræðu hv. 2. þm. Austurl. og þeirra skoðana sem komu fram hjá honum um hið sérstaka álag á vörugjald sem renna á í Hafnabótasjóð vil ég segja það og vekja athygli á því að Hafnabótasjóður hefur í núgildandi lögum og í frv. því sem hér er til umræðu því hlutverki að gegna að styrkja þær hafnir sem eru í sérstaklega erfiðri rekstrarlegri stöðu. Þær hafnir sem hafa einkum fengið styrk úr Hafnabótasjóði eru litlu fiskihafnirnar. Nú hefur það hins vegar verið þannig í gegnum tíðina að tekjur Hafnabótasjóðs hafa ævinlega verið skertar og það hefur alls ekki verið á vísan að róa með tekjur hans. Þess vegna hefur verið mjög erfitt að tryggja að þessar litlu fiskihafnir fengju 15% á móti framlagi ríkisins eins og lög gera ráð fyrir, því miður.
    Með þeim tillögum sem eru í frv. um að tryggja Hafnabótasjóði tekjur af hinu sérstaka álagi á vörugjald tel ég og þeir sem stóðu að gerð frv. að litlu fiskihöfnunum verði betur tryggð framlög með þessum hætti. Ég tel að það sé fyrst og fremst í þágu litlu fiskihafnanna og minni vöruhafnanna að þetta sérstaka álag á vörugjald renni beint í Hafnabótasjóðinn.
    Ég er undrandi á því að hv. 2. þm. Austurl. skuli ætla að leggjast gegn þessu vegna þess að þetta er fyrst og fremst í þágu litlu hafnanna en tekjur þeirra eru mjög takmarkaðar.