Hafnalög

131. fundur
Fimmtudaginn 30. apríl 1992, kl. 16:51:00 (5799)


     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Hér er á ferðinni mikið mál sem vissulega þarf skoðunar við og ég fagna því að þau vinnubrögð skuli viðhöfð að það sé lagt fram núna en ekki ætlast til þess að það komi til afgreiðslu fyrr en á næsta þingi. Hins vegar eru hér ýmsir hlutir sem vekja verulega umhugsun og sumt af því virðist ekki ganga upp því hvað rekst á annars horn. Í 2. gr. er tekið fram: ,,Samgrh. skipar hafnaráð sér til ráðuneytis um hafnamál.``
    Að hafa einhvern sér til ráðuneytis er að hafa einhvern sér til aðstoðar sem lýtur þó í öllu stjórn þess sem völdin hefur. En þegar farið er að skoða þetta betur kemur í ljós að Hafnamálastofnun ríkisins fer með framkvæmd hafnamála á þann hátt sem ákveðið er í lögum þessum. Hafnamálastofnun ríkisins lýtur ekki stjórn ráðherrans heldur hafnamálaráðs. Er það þá orðið nokkuð umhugsunarefni hvor ræður og hvor er ráðgjafinn í því sambandi. Hér er það líka allsérstætt að í 8. gr. stendur: ,,Hafnir geta verið hluthafar í fyrirtækjum sem tengjast starfsemi þeirra.`` En í 14. gr. stendur: ,,Tekjum og eignum hafnarsjóðs má einungis verja í þágu hafnarinnar.`` Þá er það spurning, hvaðan eiga þá þeir peningar að koma sem fara í að kaupa hlutabréfin. Hvaðan eiga þeir að koma? Þeir mega ekki koma sem tekjur frá hafnarsjóðnum, þeir mega ekki koma af eignasölu. Mér sýnist að hér sé í fyrsta lagi girt fyrir kaupréttinn og í annan stað girt fyrir það að það megi greiða arð til þeirra hluthafa sem hafa keypt hlutafé í höfnum.
    Ég tel þess vegna að þarna gæti ýmis ósamræmis í frv. og hygg að það sé verulegt umhugsunarefni hvort sumir hlutir þess stjórnsýslulega séð geti talist eðlilegir. Það er mjög merkileg niðurstaða sem

Sigurður Líndal kemst að þegar hann lýsir því yfir að hann efar það nánast að Alþingi gegni því hlutverki sómasamlega að setja lög og ein af ástæðunum fyrir því er sú að Alþingi sé búið að dreifa því valdi sem því er ætlað með stjórnarskránni út um borg og bæ, eins og sagt er. Fjárveitingavaldið er Alþingis, ekki annarra. Hér er gert ráð fyrir því, eins og þetta er sett upp, að það sé stjórn Hafnamálastofnunar sem fari með verulegt fjárveitingavald. Henni er ætlað að ráðstafa fjármunum sem Hafnarbótasjóður hefur og hér stendur:
    ,,Ráðherra ráðstafar fé Hafnabótasjóðs á eftirgreindan hátt, að fengnum tillögum Hafnamálastofnunar og hafnaráðs.`` Sem sagt, fyrirmælin koma þaðan, enda stendur í 30. gr.: ,,Hafnarbótasjóður er eign ríkisins og fer hafnaráð með stjórn sjóðsins í umboði samgrh.`` Ekki er gert ráð fyrir neitunarvaldi ráðherrans og væri þó nánast lágmark að hann hefði neitunarvald ef honum litist ekki á tillögurnar, þá gæti hann gjarnan sagt nei og þá mundi það liggja óhreyft þar til samkomulag næðist á milli ráðherrans og sjóðstjórnarinnar. Hér er honum nánast bara ætlað að vinna verkið eftir að hafa fengið fyrirmælin að ofan og hlutunum snúið við. Skipi ráðherra þrjá menn, sveitarfélögin tvo og verði svo ráðherraskipti, þá lítur það þannig út að nýr ráðherra situr e.t.v. uppi með hafnaráð sem annar aðili hefur meirihlutastjórn yfir og er ætlað að segja ráðherranum fyrir hvernig eigi að ráðstafa peningunum úr sjóðnum.
    Ég sé nú að hv. 1. þm. Vesturl. hristir höfuðið og hefur greinilega áttað sig á að annað er sett á blað en það sem hann hefur hugsað sér. Mér sýnist að það sé lágmark að gera ráð fyrir því að ráðherrann hafi þarna algert neitunarvald. Svo kann ég dálítið illa við orðalagið í 29. gr. þegar sagt er um áætlunina:
    ,,Hafnamálastofnun skal vinna að gerð áætlana um hafnarframkvæmdir til nokkurra ára í senn, en þó aldrei skemur en til fjögurra ára.`` Svo kemur neðst: ,,Áætlunin skal síðan lögð fyrir Alþingi til samþykktar.`` Hvað gerðist ef Alþingi felldi? Væri það þá að brjóta bara lögin? Yfirleitt er nú svo að ætlast er til að það sé lagt fyrir í frumvarpsformi og Alþingi hafi rétt á að breyta frv. en ef það er sett upp þannig að bara eigi að synja eða samþykkja þá versnar dæmið dálítið. Ég hefði talið að það ætti að færa þetta nær því sem maður kallar eðlilega uppsetningu á þessum hlutum.
    Ég set líka verulegt spurningarmerki við það kerfi sem er upp tekið varðandi ráðningu á starfsmönnum. Þar er fyrst ákvæði um það að ráðherra skipar hafnamálastjóra til fimm ára og geri ég enga athugasemd við það. Það er sagt að það megi skipa hann aftur og aftur og vissulega má þá segja sem svo að fram fari mat á því á fimm ára fresti hvort æskilegt sé að hafa manninn áfram eða skipta um. Persónulega efa ég að það séu neinar nauður sem reki okkur til að hafa það á annan veg. Auðvitað mætti setja þak á þetta og segja að hann mætti vera einhvern ákveðinn tíma en ég ætla ekki að gera slíka tillögu. En svo kemur hér fyrir neðan: ,,Hafnamálastjóri ræður starfsfólk Hafnamálastofnunar með ráðningarsamningi.`` Ef Hafnamálastofnun sem er ríkisstofnun er þannig upp sett að hafnamálastjóri á að ráða fólkið með ráðningarsamningi þá er náttúrlega allt launakerfi ríkisins eins og það er sett upp fyrir bí. Þá er náttúrlega jafnrétt að skólastjórar ráði kennara með ráðningarsamningi og ákveði þar að sjálfsögðu í ráðningarsamningnum kaup og kjör og þar þurfi ekki lengur að semja við opinbera starfsmenn um það kerfi sem er í dag. Þá verða það bara forstjórar ríkisstofnana sem gera ráðningarsamninga við starfslið sitt. Þetta atriði yrði náttúrlega aldrei bara í þessum lögum. Ef þetta kerfi yrði upp tekið mundi það að sjálfsögðu fara inn í öll lög og vera grunnurinn að því sem þar er.
    Ég veit ekki hvort þau atriði sem ég hef talið upp séu á þann veg að menn telji að ég sé andvígur öllu sem í þessu frv. stendur. Það teldi ég vera á miklum misskilningi byggt. Ég tel að eitt og annað sé til bóta í þessu frv. og sé jákvætt. En því kem ég þessu á framfæri að þetta er 1. umr. um málið og rétt að þessir hlutir séu skoðaðir af þinginu í nefnd.
    Ég er þeirrar gerðar að ég vil hafa það nokkuð á hreinu hvernig á að skammta hverju sinni. Eftir að hafa sett ráðherra yfir ákveðinn málaflokk þá vil ég að honum séu ætluð þau völd að hann geti stjórnað þann tíma sem hann er við völd og svo taki nýr ráðherra við og beri ábyrgð á málunum og stjórni meðan hann er við völd. Þess vegna er ég lítill stuðningsmaður þess að efla svo einhver ráð sem sett eru upp að þau þvælist fyrir eðlilegri stjórnun ráðherra. Ég tel þess vegna að það kerfi sem er í Bandaríkjunum sé á margan hátt til fyrirmyndar þar sem er skipt um allt starfslið í Hvíta húsinu við forsetaskipti.
    Nokkuð hefur verið rætt um tekjur í Hafnabótasjóð og honum ætlaðar sértekjur hér í 31. gr. Menn hafa lýst andstöðu við sumt af því sem þar er. Ég held að það sé nú samt svo að annað sé vonlaust en að Hafnabótasjóður hafi ákveðna tekjupósta. Það er samt vissulega umhugsunarefni, sem við könnumst við, að hver ríkisstjórn eftir aðra hefur sett upp það kerfi að koma með langhund þar sem sagt er að ,,þrátt fyrir ákvæði þessara laga skuli ekki varið meiru fé til hinna ýmsu málaflokka en samþykkt er á hverjum tíma í fjárlögum`` og þess vegna veit enginn hvernig svona tekjuákvæði munu halda.
    Ég vil líka segja það að ég held að hafnasamlögin, sem hér er minnst á, séu mjög til bóta hvort menn telja að samlagsorðið sé það rétta yfir það að við reynum að koma höfnum til að vinna meira saman og nýta þannig betur fjármagn. Það er spor sem horfir til framfara. Þó að vissulega eigi að gæta vissrar jöfnunar í stuðningi er aftur á móti umhugsunarefni hvað ríkið á að ganga langt í því að stuðla að því að hafnir séu byggðar þar sem ekki er hagkvæmt að byggja. Mjög víða á Íslandi er hagkvæmt að byggja hafnir frá landfræðilegum aðstæðum en annars staðar er það mjög erfitt nánast af náttúrunnar hendi. Auðvitað er alltaf spurning hvað ríkið á að jafna upp þennan mismun mikið og koma þannig í veg fyrir að náttúrulegar aðstæður njóti sín til þess að hafa áhrif á uppbyggingu hafnanna. Ég játa það vissulega að ég er hlynntur því að ríkið sé þarna með verulega jöfnun eins og hér er lagt til og mér hefði þótt vænt um það ef ráðherra hefði nefnt Blönduós og Skagaströnd í upptalningu um hafnasamlög. Ég veit að hann þekkir þar til og hefur vakið athygli á því að auðvitað er gott samstarf um hafnarmannvirki í Húnavatnssýslu jafnæskilegt og annars staðar á landinu.