Hafnalög

131. fundur
Fimmtudaginn 30. apríl 1992, kl. 17:04:58 (5800)



     Sturla Böðvarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Vegna ræðu hv. 2. þm. Vestf. vildi ég vekja athygli hv. þm. á því vegna ummæla hans um skipan hafnaráðs að þarna er um samstarfsvettvang að ræða vegna þess að hafnirnar eru í eigu sveitarfélaganna og ríkisvaldið fer ekki með stjórn hafnanna heldur sérstök stjórn sem sveitarstjórnirnar kjósa. Þess vegna er hafnaráð samstarfsvettvangur eigenda hafnanna og samgrh. fyrir hönd ríkisvaldsins. Þetta tel ég nauðsynlegt að komi fram við umræðuna því að mér heyrðist hv. þm. tala um hafnaráð eins og það væri ríkisvaldið sem réði algerlega og færi með málefni hafnanna.
    Að hinu leytinu vildi ég benda hv. 2. þm. Vestf. á það vegna þess að hann gerði að umtalsefni ráðningu hafnamálastjóra og starfsmanna Hafnamálastofnunar að í grunnskólalögum er það skólastjóri sem ræður kennara og annað starfslið skv. 34. gr. og ætti hv. þm. að þekkja það vel.