Hafnalög

131. fundur
Fimmtudaginn 30. apríl 1992, kl. 17:10:00 (5804)


     Guðmundur Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Hér er til umræðu afar þýðingarmikið lagafrv., frv. til nýrra hafnalaga, en eins og fram hefur komið bæði hjá hæstv. ráðherra og hv. þm. sem hér hafa talað eru hafnirnar auðvitað lífæðar byggða allt í kringum landið og mikilvægt hvernig staðið er að þessum málaflokki, bæði stjórnun hans, eignarhaldi, uppbyggingu og öðrum þeim þáttum sem kveðið er á um í þessu lagafrv.
    Sveitarfélög eru mjög misjafnlega í stakk búin til þess að takast á við þau kostnaðarsömu mannvirki sem hafnarmannvirki eru víðast hvar og hafnarsjóðir misjafnlega undir það búnir og þess vegna hefur svo verið gegnum tíðina að ríkissjóður hefur staðið undir verulegum hluta af kostnaði við þessar framkvæmdir. Nú eru gerðar tillögur um nokkrar breytingar sem ég vildi sérstaklega gera að umræðuefni í máli mínu en ekki endurtaka mikið af því sem aðrir hv. þm. hafa verið að gera athugasemdir við.
    Í 24. gr. laganna er fjallað um það hvaða hafnarframvæmdir geti notið framlags úr ríkissjóði og ég vil vekja athygli á því og undirstrika það að þar segir: ,,geta notið framlags`` en ekki ,,skulu njóta framlags``. Í 26. gr. er skilgreint nánar hvaða framkvæmdir er um að ræða og hvað styrkveiting af hálfu ríkisins megi vera há og þar segir í öllum þremur töluliðunum: ,,Allt að 100%, allt að 90%, allt að 60%``. Í 27. gr. frv. er síðan kveðið á um það að við mat á greiðsluþátttöku ríkissjóðs skuli skoða fjárhagslega getu hafnarsjóðanna og þar með undirstrikað að ríkisstyrkurinn þurfi ekki endilega að nema þeim hlutföllum sem áður er kveðið á um í 26. gr. Þetta vildi ég aðeins undirstrika og nefna og í framhaldi af því spyrja hæstv. ráðherra hvort einhverjar reglur eru nú þegar í undirbúningi eða hvort þær hafi e.t.v. eitthvað verið hugsaðar af þeirri nefnd sem samdi frv., einhverjar reglur um það hvernig þetta mat á fjárhagsgetu hafnarsjóða skuli unnið, við hvað skuli miðað og hvort menn gera sér þegar ljóst eða eru uppi hugmyndir um það í

ráðuneyti samgöngumála hvernig skerðing komi fram, sem ég geri nú ráð fyrir að menn hugsi þá að geti orðið einhver, kannski í sumum tilfellum veruleg, og hvaða hafnir komi þar e.t.v. sérstaklega til greina.
    Við vitum að það er svo í gildandi hafnalögum að þar eru einnig heimildir til þess að skerða framlög til hafnarsjóða sem vel standa og mig langaði til þess að spyrja hæstv. ráðherra hvort um einhverjar svipaðar hugmyndir væri að ræða. En mig langar líka í tengslum við þetta að spyrja aðeins nánar út í það hvernig nefndin hafi komist að þeirri niðurstöðu sem getið er um í athugasemdum við lagafrv. að þær breytingar sem hér er gert ráð fyrir á kostnaðarþátttöku ríkisins í uppbyggingu hafnanna muni þýða svipað hlutfall ríkissjóðs í framkvæmdum við hafnargerðir eins og þar kemur fram. Þar segir í athugasemdum við frv., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Nefndin telur að þegar á heildina er litið taki ríkissjóður svipaðan þátt í hafnargerðum og verið hefur þrátt fyrir þessar breytingar.``
    Nú álít ég samt að það hljóti að þýða allmikla tilfærslu milli hafna og fróðlegt hefði verið að sjá einhverja töflu í greinargerðinni hvernig sú tilfærsla kemur fram því að vissulega er um allmiklar breytingar að ræða. Jafnframt hefði mig langað til þess að velta upp því sem kom fram í máli hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar hér áðan, hafi það verið hjá öðrum þá biðst ég afsökunar á því, að á þeim stöðum þar sem hafnarskilyrði eru e.t.v. slæm til hafnargerðar hlýtur að vera viss hvati innbyggður í þessar breytingar þegar öll ytri hafnarmannvirki, öldubrjótar og slíkir hafnargarðar eru nú styrktir 90% en voru áður 75%. Nú kann það að vera að það sé svo á ýmsum stöðum að það sé nauðsynlegt að styðja betur við bakið á veikum hafnarsjóðum því þetta eru yfirleitt dýrar framkvæmdir, dýpkunarframkvæmdir, og kostnaðarsamir hafnargarðar sem hér er verið að hækka fjárveitingu ríkisins til, en á móti er hins vegar dregið úr fjárveitingu til annarra styrkhæfra hafnarframkvæmda sem áður voru styrktar 75% og það var lækkað niður í 60%. Hér hlýtur því að vera um tilflutning að ræða og ég álít að nefndin sem undirbjó frv. hafi getað gert sér nokkra grein fyrir þessu með því að skoða þá hafnaáætlun sem fyrir liggur og unnið hefur verið samkvæmt á undanförnum árum og gert er ráð fyrir að vinna samkvæmt á næstu árum. Nokkuð er vitað um hvaða framkvæmdir á að leggja í og fyrir liggja kostnaðarhugmyndir eða kostnaðaráætlanir varðandi þær framkvæmdir. Því hefði verið hægt að sjá þetta og gefa e.t.v. nokkru betri upplýsingar um þetta í grg. en nú er gert.
    Nú vil ég láta það koma fram að ég lýsi ánægju minni með það sem kom fram hjá hæstv. ráðherra að þetta frv. á að fá góða og vandaða meðferð í sumar og leggjast fyrir aftur að hausti, það er ekki gert ráð fyrir því að það verði afgreitt nú í vor. Því er auðvitað tími til þess að skoða þessi mál betur og fá nánari upplýsingar og leggja þá slíkar ítarlegar upplýsingar um kostnað og kostnaðaráhrif fram með frv. að nýju á haustdögum eða á nýju þingi.
    Mig langar einnig í sambandi við Hafnabótasjóð og hlutverk hans, sem varðar þátttöku í framkvæmdakostnaði, að spyrja hæstv. ráðherra um það ákvæði að Hafnabótasjóði sé ekki heimilt að styrkja eða lána til hafna meira en svo að sá styrkur og þau lán að viðbættu ríkisframlaginu fari aldrei fram úr 90% af framkvæmdakostnaði. Í athugasemdum við 33. gr. frv. segir að verið sé að lögfesta óskrifaða reglu. Nú þykist ég muna að a.m.k. séu einhver tilvik, þau eru kannski ekki mörg, fyrir hendi um það að styrkir og lán úr Hafnabótasjóði ásamt ríkisframlagi hafi numið allt að 100% af framkvæmdakostnaði í hinum smæstu höfnum þar sem tekjur hafnarsjóða eru mjög litlar og hafnarsjóðirnir ekki burðugir og kannski ekki í neinum færum um það að taka sem neinu nemur þátt í kostnaði við uppbyggingu hafnanna.
    Það getur verið að ekki sé rétt hjá mér að það hafi aldrei numið alveg 100% en ég hygg þó að menn hafi ekki bundið sig alveg í 90%-regluna sem hér er þó talin hafa verið óskrifuð regla.
    Í sambandi við stjórnunarþættina sem fram koma í 2. gr. og 5. gr. og svo reyndar einnig hvað varðar afskipti Alþingis og þeirrar nefndar Alþingis sem hingað til hefur haft með þessi mál að gera, þ.e. fjárveitinganefndarinnar í fyrri tíð og nú fjárln., afskipti hennar af þessum málum, langar mig að spyrja ráðherra einnig að í 2. gr. er rætt um hvernig hafnaráð skuli skipað og þar segir að tveir fulltrúar skuli tilnefndir af Hafnasambandi sem er fjölgun um einn. Áður tilnefndi Hafnasambandið einn fulltrúa samkvæmt athugasemdum í grg. Ég þykist muna að einn fulltrúi hafi áður verið skipaður af fjárln. Alþingis. Það kemur ekki fram en mig langar að spyrja ráðherra hvort það hafi ekki verið svo og hvort hugsun hans og meining sé að draga úr áhrifum og afskiptum Alþingis og ég segi nú aftur þeirrar nefndar, sem afskipti hafa af málunum, því að það þarf ekki endilega að vera fjárln. Nú hefur það t.d. gerst að samgn. þingsins er að fjalla um vegáætlun sem fjárln. gerði áður, eða fjárveitinganefnd í fyrri tíð, og það kann vel að vera að hér ætti eins að vera fulltrúi samgn. þingsins eins og fulltrúi fjárln. þingsins ef það er ekki beinlínis með vilja gert og markviss skoðun hæstv. ráðherra að Alþingi eigi ekki að hafa afskipti af málunum. Þetta kemur fram á öðrum stað í frv., þ.e. varðandi Hafnabótasjóðinn, þar er einnig tekið fram að nú þurfi ekki lengur að bera tillögur um styrki úr Hafnabótasjóði undir fjárln. eins og verið hefur hingað til.
    Ég lít svo á og reyndar blandast engum hugur um það að styrkir úr Hafnabótasjóði eru styrkveitingar úr ríkissjóði og ekki óeðlilegt að Alþingi hafi einhvern umsagnarrétt um það alveg eins og nefndir Alþingis gera tillögur um það hvernig fjárveitingum til hafnarframkvæmda skuli skipt eða varið og Alþingi síðan staðfestir þá finnst mér ekki óeðlilegt að Alþingi, annað hvort fjárln. eða samgn., hafi einnig umsagnarrétt eða einhver afskipti af því hvernig að styrkveitingum úr Hafnabótasjóði er háttað.
    Þetta voru nokkur atriði sem mig langaði til þess að ítreka og koma sérstaklega fram með í umræðunni í viðbót við það sem aðrir hv. þm. voru búnir að láta koma fram. Að öðru leyti ítreka ég það að

ég lýsi ánægju minni með að þetta frv. skuli eiga að fá vandaða og góða meðferð og umfjöllun af hálfu fulltrúa sveitarstjórnanna sem hljóta að hafa skoðanir á því og þurfa að hafa afskipti af því hvernig þessu frv. reiðir af og í hvaða búningi lögin endanlega verða, svo mikilvæg sem þau eru fyrir landsbyggðina alla og reyndar atvinnulíf í landinu í heild. Jafnframt eru ýmsir þættir í þessu frv. sem ég tel til bóta og get lýst stuðningi mínum við en er ekki að lengja umræðuna með því að fara frekar yfir málið að sinni.