Hafnalög

131. fundur
Fimmtudaginn 30. apríl 1992, kl. 17:23:22 (5805)


     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Hér hafa farið fram fróðlegar umræður og að mínu viti gagnlegar og ég lýsi auðvitað ánægju minni yfir því að þeir þingmenn sem til máls hafa tekið eru sammála mér um þá málsmeðferð sem ég hef hér lagt til, þ.e. að frv. verði vísað til samgn. og það síðan sent til umsagnar þeirra sem málið varðar, sveitarfélaga og þeirra sem nota hafnirnar, samtaka útgerðar og sjómanna og vöruflutningaaðila.
    Fyrsta athugasemdin sem hér kom fram var frá hv. 2. þm. Austurl., hann ásamt a.m.k. 2. þm. Vestf. lét í ljósi efasemdir um það hvort rétt væri að gera ráð fyrir því að hafnir gætu verið hlutafélög. Í fyrsta lagi er álitamál hvað er höfn og eru hér við land mikil hafnarmannvirki í eigu einstaklinga eða fyrirtækja sem aldrei hafa notið styrks úr ríkissjóði en eru auðvitað í eigu hlutafélaga. Ég get nefnt sem dæmi hafnarmannvirkin við hvalstöðina til skýringar á þessari staðreynd. Hér er gert ráð fyrir því að hafnir geti verið í eigu sveitarfélaga, þær geti verið hafnasamlög eða hlutafélög. Það er eðlilegt að reyna að hafa rammann sem breiðastan, auðvitað vegna þess að hafnir hafa ekki fram að þessu verið fyrirtæki sem hafa skilað arði til lengri tíma litið. A.m.k. liggur það ljóst fyrir að uppbygging þeirra er mjög kostnaðarsöm og ekki við því að búast að slík fjárfesting gefi fljótt arð en á hinn bóginn geta verið hagsmunir þeirra sem nota hafnirnar að reyna að flýta fyrir framkvæmdum. Af þeim sökum er talið rétt að opna þennan möguleika.
    Þingmenn hafa verið að reyna að snúa út úr því sem stendur í 14. gr., talað er um að tekjum og eignum hafnarsjóðs megi einungis verja í þágu hafnarinnar og talið að það stangist á við það ákvæði að hafnir geti verið hluthafar í fyrirtækjum sem tengjast starfsemi þeirra. Þetta er auðvitað algjör misskilningur. Ef fyrirtæki tengjast starfsemi hafnanna þá skulum við væntanlega búast við því að þau séu líka rekin í þágu viðkomandi hafna. Það sem hér er um að ræða er auðvitað hitt að það er verið að kveða á um að rétt sé að hafa það opið að slík fyrirtæki megi reka með takmarkaðri ábyrgð sem er hugsunin á bak við hlutafélagareksturinn og eins hitt að fleiri aðilar geti komið að þeim þáttum í starfseminni sem hér er höfð í huga. Get ég t.d. tekið fiskmarkaði sem raunar eru nefndir sérstaklega í grg. Við getum líka hugsað okkur sérstakt eignarhaldsfyrirtæki um ýmis flutningamannvirki eða annað því um líkt sem nauðsynlegt er að reka í tengslum við hafnir. Þess vegna er ekki nema til þess að opna nýjan möguleika í rekstir hafnanna sem þetta ákvæði er sett inn og á væntanlega að geta stuðlað að því að meiri samvinna takist um rekstur slíkra hafna og til lengri tíma litið að tryggja að hafnirnar gegni betur hlutverki sínu og geti veitt ódýrari þjónustu.
    Ég held að alveg ástæðulaust sé að halda að þessi ákvæði ýti undir það að hafnargjöld hækki óhæfilega mikið. Hafnir eru í samkeppni hverjar við aðra, þær eru í samkeppni við landflutninga og undir einstökum kringumstæðum í samkeppni við flug. Það er alveg ástæðulaust að ætla að einhverjir eigendur einhverra sérstakra hafna muni gera tilraun til að skera sig úr og leggja miklu þyngri álögur á þá umferð sem um höfnina fer en aðrar hafnir.
    Hitt er svo auðvitað annað mál sem kom fram hjá hv. 3. þm. Vesturl. að undir vissum kringumstæðum auðvitað getur skapað erfiðleika eða verið bagalegt að skylda hafnir til þess að taka aðkomubát eða aðkomuskip til afgreiðslu undir öllum kringumstæðum. Það er ábending sem rétt er að taka til greina. Við vitum það að hafnir hafa undir vissum kringumstæðum neyðst til þess að vísa skipum frá í vondu veðri þannig að þau hafa orðið að leita hafnar annað og það má vera að nauðsynlegt sé að hafa slíka fyrirvara inni í hafnalögum.
    Í ræðu a.m.k. tveggja þingmanna kom fram að þeir efuðust um að sú fullyrðing væri rétt hjá þeirri nefnd, sem þetta frv. samdi, að þegar á heildina sé litið taki ríkissjóður svipaðan þátt í hafnargerðum og verið hefur þrátt fyrir þessar breytingar. Auðvitað er erfitt að slá einhverju algjörlega föstu um það hvernig hafnarframkvæmdir verði á næstu árum. Auðvitað hafa hafnasamlögin mikil áhrif á uppbyggingu hafnanna, en ég get svona sagt rétt sem dæmi að á sl. hausti var gerður samningur um það að flytja kindakjöt til Mexíkó og við þóttumst geta fullyrt það á Íslandi að meðalþungi slíkra skrokka mundi vera í kringum 24 kg. Nú hefur það komið í ljós að þessi áætlun var allt of lág og þessir sérstöku skrokkar sem þangað fóru voru að meðaltali miklu þyngri en þeir skrokkar sem við Íslendingar neytum sjálfir. Það getur því verið erfitt að vera með miklar fullyrðingar um meðaltölu og óorðna hluti. ( Gripið fram í: Eru þetta hafnamál?) Þetta er hafnamál já, þeir fóru um hafnir allir þessir skrokkar sem til Mexíkó fóru. En það sem ræða mín snerist um, það er auðvitað ekki hægt að fullyrða nákvæmlega hvernig þetta kemur út, en það er mat þeirra manna sem að þessari áætlun stóðu og auðvitað hlýtur formaður nefndarinnar, sem á sæti í samgn. að vera reiðubúinn til að gefa samgn. allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru.
    Hv. 2. þm. Austurl. lýsti sig andsnúinn því að festa 25% álag á vörugjald í sessi og taldi að það hækkaði vöruverð á landsbyggðinni, það væri óréttlátt og kæmi misjafnlega niður. Ekki veit ég nákvæmlega hvað hann hefur í huga þegar hann fullyrðir að það sé óréttlátt og komi misjafnlega niður. Samkvæmt því frv., sem hér liggur fyrir, er ekki gert ráð fyrir því að króna renni til þeirrar hafnar sem leggur mest til í hafnarsjóð samkvæmt þessari grein og er ég þá að tala um Reykjavíkurhöfn. Raunar á hið sama við um aðrar helstu vöruhafnir landsins eins og Akureyri eða Hafnarfjörð þannig að mér er ekki alveg ljóst hvað hv. þm. hefur í huga. Hitt held ég að vefjist fyrir honum eins og ýmsum öðrum hv. þingmönnum, ekki aðeins nú á þessu þingi heldur einnig á liðnum árum, með hvaða hætti sé hægt að marka sérstakan tekjustofn til hafnarframkvæmda eins og gert hefur verið bæði í sambandi við framkvæmdir á flugvöllum og vegaframkvæmdir. Það hefur ekki aðeins nú á þessu síðasta ári verið spreytt sig á þessu heldur hafa ýmsir áður komið að því máli, en erfiðleikarnir liggja auðvitað í því að þeir hafnarsjóðir sem veikastir eru og hafa þess vegna þörf fyrir hæst framlag úr ríkissjóði hafa af minnstum sértekjum að státa þannig að erfitt er að skattleggja umferðina um þær hafnir til þess að byggja þær upp og bæta skilyrði á þeim stöðum. Af þeim sökum er sú leið farin að lögfest var nú fyrr í sumar að leggja sérstakt gjald á vöruflutning til þess að styrkja fjáröflun í Hafnabótasjóð. Ég held að það sé mikill misskilningur hjá hv. þm. ef hann heldur að hafnirnar hafi fyrst og fremst hag af því að minni álögur séu á þá umferð sem um þær fer ef það hefur hitt í för með sér að framkvæmdir drabbast niður eða ekki er hægt að bæta skilyrði sem svarar nútímaþörfum í flutningum.
    Ef við horfum til baka hversu miklu fé hefur verið veitt til hafna á undanförnum árum kemur í ljós að það hefur verið fullkomleg ónógt fyrir helstu vöruhafnir landsins og er auðvelt að gera grein fyrir því. Það er líka mjög auðvelt að gera grein fyrir því hversu miklum fjármunum var eytt fyrir fram af þeim ráðherra, sem sat í þeim stól sem ég nú skipa, með loforðum til ýmissa sveitarfélaga um það að þau mættu vinna fyrir sig fram en hins vegar mundi það koma í hlut ríkissjóðs að standa undir fjármagnskostnaði. Líka er öldungis ljóst að við stöndum á þessu ári frammi fyrir feiknarlegum útgjöldum til þess að mæta þeim sérstaka þunga sem fellur á hafnaliðinn vegna kaupa á Herjólfi, bæði í Vestmannaeyjum og eins í Þorlákshöfn og líka vegna þess að gersamlega gleymdist þegar keypt var ferja á Ísafjarðardjúpi að gera ráð fyrir því að hún þyrfti einhvers staðar að leggjast að bryggju. Við höfum því miklar skuldbindingar. Misjafnlega hefur verið staðið að því að hugsa fyrir fram hvernig fjármagn yrði útvegað en á hinn bóginn held ég að við hljótum öll að vera sammála um að til lengri tíma litið hafa sveitarfélögin meiri hag af því að fá heldur minna í sinn hlut til hafnarframkvæmda ef hægt er á hinn bóginn að láta þær ganga hraðar fyrir sig og með því tryggja og treysta góða þjónustu og gott viðhald hafnanna. Samgöngumálin eru eins og nú stendur einhver viðkvæmasti þátturinn í atvinnulífi okkar og auðvitað liggur ljóst fyrir að ef við látum samgönguþáttinn drabbast niður getur það valdið ýmsum fyrirtækjum á einstökum stöðum verulegum og oft ógnarlegum erfiðleikum og á hinn bóginn getur verið erfitt að brúa bilið á nýjan leik og bæta úr þeim vanrækslusyndum sem menn skilja eftir sig. Ég held því að sérstaklega þeir þingmenn, sem eru fulltrúar fyrir kjördæmi þar sem mikið er óunnið í hafnamálum, eigi að hugsa sig tvisvar um áður en þeir lýsa því yfir að þeir séu andvígir því að meiri tekjur komi til hafnarframkvæmda af þeirri umferð sem fer um hafnirnar, áður en þeir lýsa því yfir að þeir séu andvígir því að sú umferð sem fer um helstu vöruhafnir landsins kosti líka að einhverju leyti þá uppbyggingu sem nauðsynleg er á smærri stöðum og áður en þeir lýsa því yfir að þeir séu ófúsir til að varpa meiri ábyrgð á einstakar hafnarstjórnir og einstaka sveitarstjórnir en verið hefur um hríð. Á þetta vil ég leggja sérstaka áherslu í sambandi við þennan þátt. Það kemur raunar líka inn á hitt hvaða reglur nefndin eða ég hafi haft í huga þegar gert er ráð fyrir því í 27. gr. að með reglugerð skuli ákveðið hver greiðsluþátttaka ríkissjóðs í einstökum verkum skuli vera.
    Við gerð þess frv., sem hér liggur fyrir, var vitaskuld haft samband við þá sem viðskipti eiga við hafnirnar og fyrir þeim standa. Á hinn bóginn hefur þótt rétt að ræða einmitt þetta atriði nánar en tími vannst til við sveitarstjórnarmenn og við þá sem þess eru kunnugastir. Um hitt held ég að allir hljóti að geta verið sammála að ekki standa efni til þess nú að veita sérstöku fé til hafnargerðar, t.d. í Reykjavík, vegna þeirra miklu tekna sem hún hefur af viðskiptum sínum. Ég held að menn hljóti líka að gera sér grein fyrir því að um leið og Straumsvíkurhöfn kemur undir Hafnarfjörð þá standa ekki rök fyrir því að ríkissjóður standi öðruvísi að uppbyggingu að höfn þeim megin á höfuðborgarsvæðinu en hér við Sundin. Við hljótum einnig að velta því fyrir okkur varðandi ýmis hafnasamlög, sem við ætlum að stofna, hvort rétt sé í upphafi að gera ráð fyrir því að leggja í sérstaka framkvæmdaáætlun til þess að örva menn til að stofna slík samlög þó þeir geri sér um leið grein fyrir því að síðar meir, eftir að þeirri framkvæmdaáætlun hefur lokið, kunni að koma til þess að úr dragi að þeir eigi sama rétt og áður á framkvæmdum samkvæmt þeim lögum sem við erum nú að ræða um. Auðvitað er þetta allt álitamál, auðvitað er þetta allt viðkvæmt, en ég vil líka leggja áherslu á að ógerningur er að setja atriði af þessu tagi í lög vegna þess að það yrði of þunglamalegt og of margvíslegar ástæður sem fyrir því liggja hvernig niðurstaðan verður að síðustu að ákveða skerðingu hjá einstökum höfnum.
    Hv. 2. þm. Vestf. vék að ýmsum atriðum í frv. sem heyrir undir stíl og málsnilli og ég veit ekki hvort ég á að taka undir þá skoðun hans að ýmislegt í þessu frv., sem orðrétt er tekið upp úr hafnalögum, sé ruglingslegt eða stangist hvað á við annað. ,,Samgrh. skipar hafnaráð sér til ráðuneytis um hafnamál``, þótti gott mál og gilt þegar þau hafnalög voru sett sem nú eru í gildi og eins þau sérstöku ákvæði sem eru um hafnamálastjóra, sömuleiðis það orðalag er mestan part úr gildandi lögum. Kannski vegna þeirrar góðu reynslu sem af þessu orðalagi hefur fengist í tímanna rás er því haldið hér í þessu frv.

    Hitt er auðvitað álitamál eins og hv. 3. þm. Vesturl. kom að áðan hvort rétt sé að fulltrúar samgrh. skuli sitja í hafnaráði jafnlengi honum. Ég tel að rétt sé að hafa það svo. Ein ástæðan fyrir því sem ekki hefur komið fram í umræðum hér sem gerir slíkt æskilegt og kannski nauðsynlegt er það að við ráðherraskipti hér á landi er auðvitað lítil endurnýjun í ráðuneytunum sjálfum af kostnaðarástæðum og af þeim sökum æskilegra en ella að ráðherrar hafi eitthvert svigrúm til þess að eiga fulltrúa í ráðum á borð við hafnaráð, ferðamálaráð, útflutningsráð eða annað slíkt. Auðvitað hlýtur þetta að vera matsatriði en mín skoðun er sú að svo skuli vera og af þeim sökum legg ég þetta hér til. Það þýðir þá auðvitað að ef það kemur í minn hlut að skipa fyrstu tvo fulltrúana samkvæmt þessum lögum, að þeir eiga það ekki víst að sitja þar þá lengur en ég fer með þessa málaflokka. Mér gengur því auðvitað ekki annað til með þessu en að leggja til þá skipan sem ég tel eðlilega og skynsamlega.
    Það er auðvitað rétt líka að það er álitamál hvort hafnamálastjóri skuli skipaður eins og ýmsir aðrir embættismenn, hvort hann skuli skipaður til fimm ára eða sex ára, hvort það megi endurskipa hann einu sinni, tvisvar eða svo oft sem verkast vill. Þetta er álitamál og auðvitað hlýtur það atriði að koma til athugunar í nefndinni. Ég hygg á hinn bóginn rétt að hafnamálastjóri ráði starfsfólk Hafnamálastofnunar enda er það í samræmi við það sem tíðkast í sambærilegum stofnunum.
    Í sambandi við hafnaáætlunina vil ég aðeins segja að það hefur lengi viðgengist, ég skal ekki segja hversu lengi, 20 ár eða 30 ár, guð má vita hvað, að gerðar eru sérstakar hafnaáætlanir sem þingmenn vita að hafa verið marklitlar. Ég vil segja jafnvel marklausar vegna þess að Alþingi hefur ekki fjallað um þær og heldur ekki staðfest þær. Þess vegna hafa þær fyrst og fremst verið lýsing á þeim óskalista sem einstakar hafnarstjórnir eða sveitarstjórnir hafa lagt fram á hverjum tíma en reynslan sýnir að áhersluröð hefur oft og tíðum breyst enda í mörgum tilvikum skýrt að sveitarfélög leggja fyrir fjvn. óskalista, ýmsar þær framkvæmdir sem þær telja sjálfar að ekki sé tímabært að ráðast í vegna þess að þær hafi ekki beinlínis ráð á því eða kjósi að láta annað sitja fyrir. Þær hafa kannski lagt á borð með sér bæði dýpkun, brimgarð, viðlegukant o.s.frv. þó að hugsunin hafi aldrei verið sú að ráðast í allt þetta á næsta ári heldur einungis eina framkvæmd af þessum og kannski einhverja sérstaka framkvæmd. Hafnaáætlun hefur af þessum sökum ekki verið það vinnuplagg, sem vegáætlun hefur verið, sem hefur verið unnið í samráði við þingmenn og samþykkt af Alþingi á hverjum tíma þótt þingið hafi að sjálfsögðu ekki nema í undantekningartilvikum, hugsa ég að ég megi segja, treyst sér til þess að standa við þau fyrirheit sem vegáætlunin hefur gefið þegar hún hefur verið samþykkt. Þá hafa menn verið bjartsýnni á að peningar væru aflögu en síðan hefur reyndin orðið og má raunar segja að hið sama hafi nú ásannast um flugmálaáætlun.
    Að vísu er svo um hafnaáætlun að þar er um samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga að tefla gagnstætt því sem er um vegáætlun eða flugmálaáætlun þannig að það er að því leyti flóknara og erfiðara að gera sér grein fyrir hvernig hún skuli lögð fyrir þingið til samþykktar, synjunar eða breytinga. Ég tek undir með hv. 2. þm. Vestf. að þetta er auðvitað óámælisvert að hafa orðalagið eins og stendur í greininni:
    ,,Áætlunin skal síðan lögð fyrir Alþingi til samþykktar.`` Bæði í vegáætlun og flugmálaáætlun er skýrt tekið fram að það skuli gert í formi þáltill. og verður að reyna að gæta þess þegar málið verður lagt fyrir á þingi komanda að hér standi í staðinn fyrir: ,,Áætlunin skal lögð fyrir Alþingi til samþykktar`` komi: ,,Tillaga til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun hafna skal lögð fyrir Alþingi til samþykktar eða synjunar``. Sú athugasemd er tekin til greina.
    Hv. 1. þm. Norðurl. e. spurði af hvaða sökum ákveðið væri að styrkur úr Hafnabótasjóði skyldi ekki fara fram úr 90% og þóttist muna tilvik þar sem gert væri ráð fyrir 100% framkvæmdakostnaði. Ég þykist að vísu muna að einhvern tíma hafi Hafnabótasjóður greitt að fullu dýpkun í höfninni á Flatey á Skjálfanda af þeim sökum að mönnum þótti ótrúlegt að það mundi þýða að senda Hálshreppi þann reikning. Hins vegar hefur það verið víðtekin venja þegar um slíkt hefur verið að ræða fram að þessu að eins og í Grímsey, Norðurfirði og sennilega Bakkafirði hefur Byggðastofnun lagt fram hluta framkvæmdakostnaðar þegar sérstaklega hefur staðið á. Ég hygg að það sama megi segja um Brjánslæk, þó man ég það ekki. En þetta varð sú niðurstaða sem nefndin komst að og ég er henni út af fyrir sig sammála en það atriði hlýtur auðvitað að vera til athugunar.
    Loks spurði hv. 1. þm. Norðurl. e. hvernig á því stæði að gert væri ráð fyrir því að fjárln. ætti ekki fulltrúa í hafnaráði. Það er ekki svo í lögum nú. Í lögum er heldur ekki svo nú að skylt sé að leggja tillögu um ráðstöfun fjár úr Hafnabótasjóði fyrir fjárln. heldur hefur skapast um það vani eða hefð. Ég lít svo á að um eðlilega skipan sé að ræða þar sem við erum að tala um þátt framkvæmdarvaldsins í stjórn hafnamála og sé ekki ástæðu til þess að breyta þeim ákvæðum.
    Hitt er auðvitað álitamál hvort rétt sé að hafnaáætlun sé send fjárln. eða samgn. til umfjöllunar í samræmi við þá niðurstöðu sem var á þingi í vetur í sambandi við vegáætlun og flugmálaáætlun. Ég tel rétt að slíkri áætlun yrði einnig vísað til samgn. Vona ég að ég hafi svarað þeim spurningum sem voru lagðar fyrir mig.