Hafnalög

131. fundur
Fimmtudaginn 30. apríl 1992, kl. 17:59:34 (5809)


     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Samkvæmt 33. gr. ber ráðherra að ráðstafa fé Hafnabótasjóðs á eftirgreindan hátt að fengnum tilmælum Hafnamálastofnunar og hafnaráðs: Í fyrsta lagi má sjóðurinn veita lán til framkvæmda, í öðru lagi er sjóðnum heimilt að bæta tjón á hafnarmannvirkjum sem skemmst hafa af völdum náttúruhamfara eða öðrum óviðráðanlegum orsökum. Sjóðnum er heimilt að veita lán eða styrk umfram ríkisframlag til nýrra hafnarframkvæmda sem nema allt að 30% af heildarframkvæmdakostnaði til staða sem eiga við verulega örðugleika að stríða vegna dýrrar mannvirkjagerðar, fólksfæðar eða annarra gildra ástæðna. Styrkir mega aldrei nema meira en 15% af heildarframkvæmdakostnaði. Sjóðnum er heimilt að veita sérstaka styrki til að greiða fyrir stofnun hafnasamlaga. Sjóðnum er heimilt að veita hafnarsjóðum lán út á væntanleg ríkisframlög.
    Þetta er í stuttu máli það sem sjóðnum er heimilt að gera. Á hinn bóginn koma tekjurnar fyrst og fremst frá stóru vöruhöfnunum hér á Reykjavíkursvæðinu, Reykjanesi, Ísafirði, Akureyri og er með þessum hætti ráðstafað. Það er því öldungis ljóst að verið er að skattleggja með þessu gjaldi þær hafnir þar sem umferðin er mest til þess að reyna að styrkja stöðuna annars staðar þar sem bolmagnið er minna um leið og sjóðnum er ætlað að bæta tjón sem verður af náttúruhamförum eða að greiða fyrir aukinni hagræðingu í rekstri hafnarmannvirkja.