Hafnalög

131. fundur
Fimmtudaginn 30. apríl 1992, kl. 18:03:07 (5811)


     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi fagna því sem fram kom í framsöguræðu hæstv. ráðherra að það væri ætlun hans að vinna málið á þann veg að leggja það fram til kynningar á þessu þingi og senda það út til umsagnar en ekki til afgreiðslu. Menn geta þá gefið sér tíma til að fara rækilega yfir það og hlýða á raddir þeirra sem til verður leitað.
    Ég tel að þetta séu prýðileg vinnubrögð. Ekki hef ég alltaf verið sammála þeim vinnubrögðum sem viðhöfð hafa verið í vetur og mér þykir því ástæða til að nefna það þegar svo vill til að mér þykir vel að verki staðið.
    Hvað varðar frv. sjálft þá hef ég ýmsar ábendingar og jafnvel athugasemdir við það sem ég vil rekja hér eina af annarri. Ég vil fyrst nefna og benda á að til eru lög um sveitarfélög. Það verður að mínu viti að lesa saman sérlög, eins og lög um hafnir, við lög um sveitarfélög og hafa í heiðri þau sjónarmið og viðhorf sem fram koma í sveitarstjórnalögum. Ég vil benda á að í 6. gr. sveitarstjórnalaga er tíundað sérstaklega að bygging og viðhald hafna séu verkefni sveitarfélaga. Sérstaklega er kveðið á um það í sömu grein að sveitarfélögum sé skylt að annast þau verkefni sem þeim eru falin í lögum. Samkvæmt sveitarstjórnalögum er sveitarfélögum skylt að reka hafnir. Ég set því spurningarmerki við innskotið í 8. gr. um hlutafélög, þ.e. hvenær það getur átt við. Augsjáanlega getur það ekki átt við í þeim sjávarplássum þar sem menn hafa rekið hafnir og ég átta mig ekki á því undir hvaða kringumstæðum menn gætu stofnað hlutafélög um hafnir og rekstur þeirra og á hvaða stöðum.
    Ég vil líka benda á ákvæði í 6. gr. sveitarstjórnalaga þar sem skýrt er kveðið á um að sveitarfélög skuli hafa sjálfsforræði yfir gjaldskrá eigin fyrirtækja og stofnana til að mæta kostnaði við framkvæmd þeirra verkefna sem þau annast. Hafnamál er eitt af þeim verkefnum sem lögbundið er að sveitarfélög skuli annast. Sveitarstjórnalögin segja að sveitarfélögin eigi að hafa sjálfsforræði yfir gjaldskrá þeirra eins og annarra stofnana sem sveitarfélögin reka. Það var meginstefnan sem sett var upp á sínum tíma í sveitarstjórnarlögum. Því hygg ég, fyrst menn á annað borð eru að endurskoða lög um málefni hafna, að þeir ættu að taka mið af þessum breytingum og þessu viðhorfi og fella saman í þetta frv. sem hér liggur fyrir. Hins vegar beina 11., 12. og 13. gr. málinu í allt annan farveg þar sem gjaldskráin er að mestu leyti lögð í vald ráðherra. Sjálfsforræði sveitarfélaga er því ekki í þessu efni eins og kveður á um í sveitarstjórnarlögum.
    Þá vil ég benda á annað ákvæði í sveitarstjórnarlögum, í IX. kafla, um samvinnu sveitarfélaga. Þar er sérstakur kafli sem gerir sveitarfélögum kleift að standa saman að ákveðnum verkefnum, hafa samvinnu um framkvæmd ýmissa verkefna á vettvangi héraðsnefnda, byggðasamlaga eða í landshlutasamtökum. Er þetta nánar útlistað í 98. gr. sveitarstjórnarlaga. Það eru því í dag fyrir hendi allar þær heimildir sem menn þurfa til að stofna hafnasamlög. Það er engin lagaleg hindrun fyrir því að sveitarstjórnir, tvær eða fleiri, komi sér saman um að reka svokallað hafnasamlag. Af þessum ástæðum má segja að óþarft sé að setja inn í frv. sérstakt ákvæði um að mynda hafnasamlög. Mér finnst einnig ákvæðið í 8. gr. taki ráðin af sveitarfélögunum að nokkru leyti með því að ráðherra ákveður með reglugerð að mynda hafnasamlög. Að vísu er honum skylt að hafa samráð við eigendur viðkomandi hafna. En það kemur ekki fram í textanum að það sé áskilið að það samráð sé þannig að eigendur viðkomandi hafna séu samþykkir því að myndað verði svokallað hafnasamband. Valdið til þess að koma því á er fært í hendur ráðherra og getur hann beitt því, eftir því sem mér sýnist frumvarpstextinn hljóða, hvort heldur menn eru sáttir við það eða ekki. Þetta tel ég óheppilegt og reyndar stangast á við sveitarstjórnalögin þar sem kveðið er skýrt á um sjálfsforræði sveitarfélaga. Það væri mikil afturför ef menn færu þá leið sem gert er ráð fyrir í 8. gr. frv. um hafnasamlög.
    Þá eru einnig spurningar um skipan hafnaráðs. Ég set spurningarmerki við að hafa stjórnkerfisuppbygginguna þannig að hafnaráð heyri undir samgrh. þannig að hann skipi það þremur mönnum og tveir séu tilnefndir til viðbótar af Hafnasambandi sveitarfélaga. Ég vil varpa fram þeirri hugmynd sem mér finnst að mörgu leyti álitlegri að hafa skipulagsmálin með svipuðum hætti og er í flugmálum þar sem er svokallað flugráð sem skipað er fimm mönnum einnig, þrír kosnir af Alþingi og tveir skipaðir af ráðherra. Ég tel að það sé að mörgu leyti mun álitlegri kostur að hafnaráðið verði skipað með þeim hætti að Alþingi skipi þrjá fulltrúa og samgrh. tvo.
    Ég hef líka athugasemdir við ráðstöfun fjár úr Hafnabótasjóði, þ.e. 33. gr. um að ráðherra ráðstafi því fé að fengnum tillögum Hafnamálastofnunar og hafnaráðs eins og hér segir. Ég hygg að ég muni það rétt að í dag séu mál þannig að stjórn Hafnabótasjóðs úthluti þessu fé. Hér er því verið að færa valdið frá þeim aðila til ráðherra. Þó að Hafnamálastofnun og hafnaráð séu tillöguaðilar þá er ekki áskilið í frumvarpstextanum að ráðherra þurfi að fara eftir þeim tillögum. Hann getur því breytt þeim eða synjað eftir atvikum og hugsanlega bætt við. Þetta ákvæði tel ég vera afturför. Í samræmi við þau sjónarmið sem ég setti fram áðan um hvernig ég teldi að mörgu leyti betra að skipa hafnaráð þá væri það í mínum huga sá aðili sem ætti að ráðstafa þessu fé.
    Ég vil leggja nokkuð mikla áherslu á það að menn gæti þess, þegar gengið verður frá frv., hugsanlega síðar á þessu ári, að virða þau ákvæði sem eru í sveitarstjórnarlögum, sérstaklega þau ákvæði sem fjalla um sjálfsforræði sveitarfélaga yfir eigin gjaldskrá, því að hafnamál eru lögbundin verkefni sveitarfélaga sem ég tel óhyggilegt að opna fyrir að aðrir geti tekið að sér og reyndar vafasamt að það standist sveitarstjórnarlög án breytinga.
    Ég vil að lokum minnast á ummæli, sem hæstv. ráðherra viðhafði fyrir nokkru, og vil spyrja forseta hvort hæstv. ráðherra mundi geta skotist inn og hlýtt á mál mitt í lokin því ég vil gjarnan að hann heyri ummælin og eigi þess kost að svara. Það sem ég vil í lokin minnast á er það sem ég sá í Morgunblaðinu fyrir nokkru. Þar var rakið efni ræðu hæstv. samgrh. á ráðstefnu sem haldin var að mig minnir á Hótel Loftleiðum. Þar sagði ráðherra að á tilteknum stað á landinu, nánar tiltekið í Bolungarvík, væru menn að leggja nokkurt fé til þess að endurbyggja höfnina. Á sama tíma vildu menn líka fá fé til þess að gera veginn um Óshlíð betri en hann er eða öllu heldur öruggari en hann er. Það kom fram að ráðherrann taldi að hér væri um of mikið beðið og menn yrðu að velja og hafna. Ég vil inna hann eftir því hvort rétt sé frá greint og hvort það sé í raun hans sjónarmið að það sé fram á of mikið farið að menn í þessu tiltekna byggðarlagi búi við sæmilegt öryggi í hafnamálum og á þeim eina vegi sem tengir byggðarlagið við nærliggjandi staði.