Fullvinnsla botnfiskafla um borð í veiðiskipum

132. fundur
Mánudaginn 04. maí 1992, kl. 15:04:27 (5832)


     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Við nefndarmenn Alþb. í sjútvn. höfum við frv. fyrirvara en erum á því að það þurfi að setja reglur um þessa hluti svipaðar og hér eru á ferðinni. Þær eru nauðsynlegar upp á framtíðina. Hins vegar vil ég að það komi fram að mín skoðun er að það hefði þurft að taka ákveðnar á þessum málum í upphafi, þ.e. strax í haust. Við lögðum reyndar til í þáltill. í vetur að það yrði gert. Ég tel og það hef ég sagt hér áður að það hefði átt að gefa fiskvinnslunni í landi svigrúm til að mæta þeirri samkeppni sem er komin frá þessari nýju veiðiaðferð og vinnslu sem hefur aukist mjög hratt. Og menn sjá ekki fyrir endann á þessari þróun. Ég held að það séu ekki tiltækar upplýsingar um hvaða fyrirætlanir útgerðarmenn hafa um að bæta við mörgum frystiskipum. Ég veit að það munu vera þó nokkrar útgerðir sem eru að huga að breytingu. Ég ætla út af fyrir sig ekki að áfellast útgerðarmenn fyrir að vilja beina sinni útgerð yfir í þann farveg sem gefur mest af sér en það þarf ekki að vera að sá farvegur sé endilega það besta fyrir þjóðina og það besta fyrir nýtingu á fiskstofnunum. Því miður er það þannig að við vitum þetta ekki. Það hafa ekki verið gerðar á því athuganir eða rannsóknir hvað er heppilegast í þessu efni. Það sjá allir afleiðingarnar af þessari þróun vítt og breitt um landið. Störfum í fiskiðnaði er að fækka og þau færast að hluta til út á sjó en það minnkar verulega það starf sem unnið er við fisk við þessa þróun.
    Hitt verður ekki of oft sagt að það er auðvitað nauðsynlegt að taka á umganginum um lífríkið. Við þurfum að hætta að ganga um fiskimiðin eins og öskuhauga. Eitt frystiskip sem kemur að landi með 150 tonn hefur skilið eftir um 150--200 tonn á fiskislóðinni af fiskúrgangi. Því miður vita menn ekki einu sinni hve mikið getur verið þar á ferðinni. En nýtingin er ekki nema um 50% eða innan við 50% af því sem um borð kemur. Ef menn fleygja svo einhverjum afla þar til viðbótar er óhætt að bæta því við. Það sjá allir að það er býsna mikið sem fer niður á hafsbotninn frá þeim veiðiskipum sem við erum að tala um.
    Það vakti athygli mína að í umsögn LÍÚ um reyndar annað frv., frv. um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra, kom fram sú afstaða að þetta frv. væri óþarft ef hitt yrði samþykkt. Mig langar til að spyrja hæstv. sjútvrh. hvort hann telji að frv. um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra geti komið í staðinn fyrir þetta að öllu leyti og hvers vegna hann hafi ekki sameinað þessi

tvö frv. í eitt ef það er hans hugmynd að hitt frv. fari í gegnum þingið? Ég ætla ekki að tala frekar um þau frv. sem liggja fyrir og eru með frv. um Fiskistofu. Ég hefði gjarnan haft áhuga á að vita hvaða afstöðu sjútvrh. hefur til þessara ummæla LÍÚ.
    Ég held að þær brtt. sem nefndin gerði við frv. séu til bóta. Ég lýsi yfir stuðningi við brtt. hv. þm. Magnúsar Jónssonar. Ég tel að það sé skýrara að hafa þetta klárt í lögunum en að ráðherra verði heimilt að setja um þetta reglur.
    Mér finnst þetta frv. fyrst og fremst snúast um framtíðina. Við erum búnir að fjárfesta í stórum flota af þessum skipum nú þegar og það eru fleiri á leiðinni. Auðvitað verða að vera fullnægjandi reglur um það hvernig þessi skip eiga að umgangast miðin og hvernig á að fara með afla um borð. Það þarf miklu meira eftirlit með þessum skipum en öðrum skipum sem eru á miðunum. Þegar verið var að tala um að færa út landhelgina töldu menn að það væri lífsspursmál að koma hinum svokölluðu ryksuguskipum út úr landhelginni. Hvaða skip voru það? Það voru fullvinnsluskip og þau unnu allan afla sem kom um borð af því að þau voru, eftir því sem mér hefur verið sagt, með verksmiðjur um borð til þess að vinna fiskimjöl úr úrganginum. En við erum með fjölda af skipum á miðunum sem vinna ekki nema helminginn af því sem um borð kemur, hinu fleygja þau út aftur. Það er sannarlega kominn tími til þess að taka á því máli.
    Ég endurtek að ég fagna frv. að því leyti til, eins langt og það nær, en tel að fiskvinnslan hefði þurft að fá tækifæri til þess að átta sig betur á stöðunni og bregðast við. Nú er hún að vísu farin að bregðast við og eftir því sem mér er sagt hefur munurinn á því verði sem fæst fyrir fisk af frystitogurum og því sem frystihúsin fá fyrir sambærilegan fisk unninn í landi, minnkað verulega. Á endanum gæti farið svo að menn fengju a.m.k. sama verð fyrir sambærilegan fisk. En það var ekki í upphafi. Fiskvinnslan þarf að bregðast enn betur við. Hún þarf að gæðamerkja sínar vörur þannig að hægt sé að bjóða kaupendum upp á að velja bestu vöruna úr. Þannig er það ekki. Stór hluti af framleiðslu frystihúsanna í landinu er unninn í pakkningar þar sem öllu er hrært saman hvort sem það er tveggja daga gamall fiskur eða tíu daga. Með því að blanda þannig saman mismunandi góðu hráefni verður ekki keppt við besta hráefnið og kaupendunum ekki einu sinni gefið tækifæri til þess að velja þar á milli.
    Ég vona að framhald verði á aðgerðum, að menn verði tilbúnir til þess að spyrna við fótum áður en það er um seinan. Ég vek athygli á þeirri hugmynd og þeirri skýrslu sem liggur fyrir um það hvað þurfi að gera um borð í fullvinnsluskipunum. Þar væri hægt að gera merkilegt átak, bæði til þess að nýta betur sjávaraflann og til þess að koma til móts við atvinnulífið í landinu, þ.e. skipasmíðarnar í landinu. Ef menn mundu hrinda því átaki af stað, gæti það hleypt nýju lífi í skipasmíðar og þann iðnað sem þeim tengist í landinu, þ.e. stækkanir á þeim skipum sem ekki eru nægilega stór til þess að hægt sé að mynda þá aðstöðu sem þarf um borð til þess að koma til móts við þá kröfu sem við erum að tala um. Ef menn tækju myndarlega á því máli hrintu þeir þessu af stað sem sameiginlegu átaki útgerðarinnar og skipasmíðaiðnaðarins í landinu. Ég hvet menn eindregið til þess að hugleiða það í alvöru hvort stjórnvöld eigi ekki að beita sér fyrir því með einhverjum hætti að þessu átaki verði hrint af stað.