Málefni menntamálaráðs

132. fundur
Mánudaginn 04. maí 1992, kl. 15:39:45 (5843)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Málið snýst um tvennt, annars vegar um stöðu menntamálaráðs og hins vegar um Menningarsjóð.
    Varðandi það síðarnefnda vil ég segja að ég tel algerlega fráleitt að taka um einhliða ákvörðun að leggja Menningarsjóð og menntamálaráð niður. Ég tel að það sé ekki á færi ráðherra. Ég bendi á í þessu sambandi að á síðasta kjörtímabili náðist samstaða milli þáverandi stjórnarflokka, Alþb., Framsfl. og Alþfl. um að fram færi endurskipulagning á útgáfustarfsemi ríkisins þar sem kæmu til sögunnar Menningarsjóður og menntamálaráð, útgáfustarfsemi Árnastofnunar, Þjóðminjasafns, útgáfa dansk-íslenskrar orðabókar, fransk-íslenskrar orðabókar, útgáfa Háskóla Íslands og einnig fleiri slíkir þættir. Ríkið leggur ekki bara til árlega 6 eða 7 millj. kr. til útgáfu á bókum heldur sennilega um 30 millj. kr. Þess vegna er algerlega fráleitt og engin lausn á nokkru vandamáli að taka einhliða ákvörðun um að leggja Menningarsjóð niður eins og hæstv. menntmrh. hefur tekið ákvörðun um auk þess sem það stenst ekki lög landsins eins og staðið er að málum af hálfu hæstv. ráðherra. Ég tel að hinn nýi meiri hluti í menntamálaráði hafi haldið óvenjulega skörulega á þessu máli og er ástæða til þess fyrir Alþingi að þakka fyrir það þegar nefndir kosnar af Alþingi vinna með jafnskörulegum hætti.
    Ég tel að taka eigi ákvörðun um Menningarsjóð og endurreisn hans. Stofna þarf menningarsjóð, sem styður við bókaútgáfu metnaðarmikilla verka, sem finna ekki útgefendur á hinum svokallaða frjálsa markaði.
    Ég bendi á að á síðasta kjörtímabili var þetta sjónarmið ekki aðeins stutt af Alþb. og Framsfl. heldur líka af Alþfl. Nú virðist Alþfl. hins vegar hafa snúið við blaðinu. Það álit sem Guðmundur Einarsson stóð að á síðasta kjörtímabili virðist að engu orðið. Alþfl. tekur þátt í einkavæðingaræði Sjálfstfl. með þessum hætti og ætlar að ryðja þessari merku menningarstarfsemi um koll.
    Hitt atriðið sem er uppi núna, virðulegi forseti, er svo sú skoðanakúgun sem á að fara að praktisera í Alþfl. og er afar athyglisvert mál og þarf auðvitað að ræða sérstaklega en þess er ekki kostur í ræðu minni. Ég tel að tvennt komi til greina, virðulegi forseti. Í fyrsta lagi að mörkuð verði heildarstefna í útgáfumálum ríkisins yfirleitt og í öðru lagi að menntmn. Alþingis taki þetta mál í sínar hendur með sjálfstæðum hætti skv. 26. gr. þingskapa og rannsaki þau vinnubrögð og þann aðdraganda sem liggur fyrir af niðurstöðu þessa máls eins og það stendur í dag.