Málefni menntamálaráðs

132. fundur
Mánudaginn 04. maí 1992, kl. 15:45:32 (5845)

     Sigríður A. Þórðardóttir :
    Virðulegi forseti. Í úttekt Ríkisendurskoðunar sem gerð var að beiðni fyrrv. menntmrh. haustið 1990 segir svo:
    ,,Fjárhags- og greiðslustaða sjóðsins er komin í eins konar vítahring þar sem ekki er bolmagn til að gefa út bækur sem hugsanlega gætu bætt stöðuna. Ljóst er að ef gera á ráð fyrir áframhaldandi rekstri Bókaútgáfu Menningarsjóðs verður að létta undir með þessari starfsemi og ríkissjóður að taka á sig hluta þeirra skuldbindinga sem sjóðurinn hefur stofnað til.`` Og í lok niðurstaðna segir: ,,Af framansögðu má ljóst vera að eðlilegast er að endurmeta tilverurétt þessarar stofnunar þar sem núverandi form og fyrirkomulag hentar ekki og mætti e.t.v. hugsa sér að ríkisvaldið mundi frekar styrkja útgáfu tiltekinna ritverka hjá bókaforlögum eins og fram kemur í framangreindri áfangaskýrslu sem reyndar er vitnað í hér.``
    Í tengslum við framangreint endurmat er rétt að benda á að fjölmargir opinberir aðilar standa að útgáfu bóka, svo sem Háskóli Íslands og deildir innan hans, Námsgagnastofnun og fleiri.
    Menningarsjóður var stofnaður 1928. Hann hefur gegnt mikilvægu hlutverki í íslenskri menningarsögu með því að styrkja listir og vísindi og þar með talið bókaútgáfu, tónlist og myndlist, eflingu þjóðlegra fræða og athugana á náttúru landsins. Styrkir til listamanna, kynning á íslenskri menningu innan lands og utan og ýmis önnur menningarstarfsemi hefur heyrt undir starfsemi Menningarsjóðs. En það er nú svo að við búum ekki í sama þjóðfélagi og var árið 1928 þegar stofnað var til sjóðsins og Menningarsjóður hefur skilað hlutverki sínu. Á síðustu áratugum hafa aðrar stofnanir yfirtekið hlutverk hans að mestu og ég nefni nokkrar, svo sem Listasafn Íslands, Vísindasjóð, Námsgagnastofnun, Fræðslumyndasafn ríkisins, Menningarsjóð félagsheimila, Kvikmyndasjóð Íslands og fjölmargir aðrir styrktarsjóðir eru einnig til.