Málefni menntamálaráðs

132. fundur
Mánudaginn 04. maí 1992, kl. 15:54:08 (5848)


     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það fer ekki á milli mála að stefna núv. ríkisstjórnar er að leggja niður Menningarsjóð. Það er hins vegar alveg ljóst að menn afnema ekki lög nema með lögum og lög um Menningarsjóð hafa ekki verið afnumin þannig að það er tómt mál að tala um að einhver aðili innan framkvæmdarvaldsins geti tekið þá ákvörðun og fyrirskipað þingkjörinni stjórn að leggja niður sjóðinn.
    Í öðru lagi hefur nokkuð verið deilt um það hvort varamaður hafi rétt til að sitja sem aðalmaður að aðalmönnum varanlega forfölluðum. Um það gilda engin sérstök lög hér á landi svo að mér sé kunnugt um svo það eina sem menn geta haft sér til halds og trausts eru lög um kosningar til Alþingis. Þar er svo kveðið á, eftir því sem ég best veit um, að ef alþingismaður deyr tekur varamaður við. Það er ekki kosið að nýju um það þingsæti. Út frá lagalegu sjónarmiði er það eina sem menn hafa í þá áttina að staða varamanns er sú að hann gengur að fullu í stöðu aðalmanns enda tók ég eftir því að hv. þm. Össur Skarphéðinsson talaði ekki um lög, hann talaði um reglu. Ég vil gjarnan fá upplýsingar um það hver hefur samið þá reglu og hvaða lagagildi hún hefur.
    Það kom mér nokkuð spánskt fyrir sjónir að heyra þau orð hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar að ríkið ætti ekki standa fyrir útgáfu bóka af því að það hefði verið tap á Menningarsjóði. Menningarsjóður gefur út bækur sem óvíst er um hagnað af þannig að þess má vænta að öllu jöfnu að tap verði á útgáfu þeirra bóka, a.m.k. ef tekið er tillit til ársins en það er hins vegar óvíst að tap verði á útgáfu einstakra verka. Mér er t.d. til efs að tap sé á útgáfu Íslenskra sjávarhátta jafnvel þótt tekjurnar komi inn á fleiri árum en kostnaðurinn féll til en mér er líka til efs að nokkur annar hefði fengist til að gefa út það merka rit á sínum tíma.