Málefni menntamálaráðs

132. fundur
Mánudaginn 04. maí 1992, kl. 15:59:27 (5850)


     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Það hlýtur að vekja undrun þeirra sem hér sitja að hlusta á rök hæstv. menntmrh., hæstv. umhvrh., hv. formanns Alþfl. og formanns menntmn. Alþingis í þessu máli. Hér er ekki um það rætt hvort mönnum finnist að ríkið eigi að reka útgáfu eða ekki. Hér er um það rætt hvernig að málum er staðið. Bókaútgáfa Menningarsjóðs verður ekki lögð niður með fjárlögum. Lögum verður ekki breytt

með fjárlögum. Vilji stjórnvöld leggja Menningarsjóð eða Bókaútgáfu Menningarsjóðs niður, þá breyta þau hlutverki sjóðsins með lögum. Þá gera stjórnarflokkarnir það með því að leggja fram frv. til laga á Alþingi. Í því felst stefnumarkandi vald þessara aðila. Þeir gera það ekki með einhverri handauppréttingu í menntamálaráði. Það er ekki sú umræða sem fer fram hér í dag. Þó að hv. þingflokksformaður Alþfl. sé þeirrar skoðunar að reynslan hafi dæmt Bókaútgáfu Menningarsjóðs úr leik, og það sagði líka hæstv. umhvrh., þá kemur það bara ekki málinu við.
    Mig langar til þess að benda á það að í menntamálaráði var að því er ég held nokkuð víðtæk samstaða um að það þyrfti að breyta Bókaútgáfu Menningarsjóðs. Þar var enginn á móti því að breyta þeirri útgáfu. En það þarf að vinna að því máli eftir réttum leiðum en ekki með þeim gerræðislegu vinnubrögðum sem þar hafa verið tíðkuð.
    Hv. þingflokksformaður Össur Skarphéðinsson sagði að ýmsir hefðu dregið í efa rétt Alþfl. til að kjósa nýjan aðalmann. Þar á meðal nefnd hann mig og, eins og hann sagði, lagabrekkuna Sigurð Líndal. Ég verð að taka undir með þingflokksformanni Framsfl. að mér finnst það mjög svo ósæmilegt af Össuri Skarphéðinssyni að uppnefna Sigurð Líndal vegna þess eins að hann tjáir ekki álit sem þingflokksformanninum er þóknanlegt. Hvers lags vinnubrögð eru þetta? Ég man ekki betur en við Össur Skarphéðinsson stæðum saman að því í borgarstjórn að hneykslast á ummælum núv. forsrh. þegar hann uppnefndi annan lagaprófessor sem gaf álit sem honum var ekki þóknanlegt. Það fannst Össuri Skarphéðinssyni ekki mjög viðunandi þó að hann leiki þennan sama leik núna eftir að hann er kominn inn í ríkisstjórnarsamstarf með Davíð Oddssyni.
    Mig langar til þess að reyna að gera mönnum það ljóst að málið snýst um heiður Alþingis og það snýst um það hvort flokksvaldinu tekst að kúga einstaklinga til hlýðni, einstaklinga sem fylgja sannfæringu sinni og fara að réttum lögum því það hafa fulltrúarnir, sem nú mynda meiri hluta í menntamálaráði, gert. Þeir hafa farið að lögum og þeir hafa farið að sinni sannfæringu. Þetta mál snýst um það hvort flokksræðinu tekst að kúska konurnar, konurnar í menntamálaráði til hlýðni því að fátt er mönnum verr við en konur sem ekki hlýðnast, konur sem ekki láta að vilja þeirra sem ráða. Það er eitur í beinum allra valdamanna.