Málefni menntamálaráðs

132. fundur
Mánudaginn 04. maí 1992, kl. 16:02:39 (5851)

     Össur Skarphéðinsson :
    Virðulegi forseti. Ég er einn af þeim sem tel að bæði hv. þm. Ingibjörg Sólrún og hv. þm. Páll Pétursson fari með talsvert mannvit í þessu þingi. Þess vegna hef ég stundum kallað þau mannvitsbrekkur Alþingis. Ég meina það einungis að góðu einu og ég segi það sömuleiðis að lagabrekka er maður sem er mjög djúpur að lagalegu viti og speki. Þess vegna vil ég til samkomulags við þessa ágætu þingmenn reyna að ná um það samstöðu að ég megi kalla prófessorinn mannvitsbrekku.
    Það hefur talsvert verið rætt um nauðsyn þess að hafa Menningarsjóð í gangi til þess að gefa út bækur sem hafa visst gildi fyrir þjóðina sem slíka en e.t.v. mætti ætla að væri erfitt að fá útgefnar. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson gat þessa og sömuleiðis hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir. Þetta er alveg rétt hjá þeim. Það var einmitt eitt af því sem ég sagði í upphafi míns máls að það kynni að vera nauðsynlegt að veita fé í formi beinna styrkja til útgáfu af slíku tagi. Það er nákvæmlega það sem ég held að væri hægt að ná samkomulagi um. Það er einmitt þetta sem á að gera í staðinn fyrir að hafa sérstakan Menningarsjóð sem stendur í afar óvissri bókaútgáfu og vægast mjög óvissar reglur sem ráða útgáfu bóka þar. Ég tel miklu einfaldara og hreinlegra að hafa einfaldlega styrkjaform á þessu.
    Í umræðum um þetta mál hefur það komið fram að nauðsynlegt sé að koma upp aðstöðu fyrir háskólakennara og fræðimenn til þess m.a. að gefa út vísindarit. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson tekur dæmi um Íslenska sjávarhætti, sem ég tel reyndar að hvert einasta forlag hefði verið fullsæmt af að gefa út sjálft. Ég skil þessa röksemd mætavel. Menningarsjóður hefur verið nokkuð notaður á þennan hátt. Ég tel hins vegar að það sé miklu réttara að hlutast til um að það verði sérstakt háskólaforlag til við Háskóla Íslands sem sinni þessari þörf og mér fannst raunar eins og ýmsir þingmenn töluðu í þá veru hér. Það er rétt að það komi fram að nú þegar er vísir að slíku forlagi og það er enn fremur rétt að árétta að sú háskólaútgáfa sem þegar er á fósturskeiði verður að standa undir sjálfri sér, lifa af eigin tekjum. Ég tel að það komi sterklega til greina að hið opinbera aðstoði í einhverjum mæli við að styrkja undirstöðu slíks forlags, e.t.v. með því að láta slíkri útgáfu í té útgáfurétt að einhverju þeirra verka sem Menningarsjóður hefur umráð yfir og slægur er í. Ég nefni t.d. það verk sem hér hefur verið nefnt hin mjólkandi kýr sjóðsins, orðabókina.