Veiting ríkisborgararéttar

132. fundur
Mánudaginn 04. maí 1992, kl. 18:04:00 (5855)

     Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. allshn. um frv. til laga um veitingu ríkisborgararéttar, sem er 274. mál þingsins, ásamt brtt. á þskj. 818.
    Þetta frv. um veitingu ríkisborgararéttar er hið seinna sem afgreitt er á þessu löggjafarþingi. Hið fyrra var afgreitt á haustþinginu. Hefur sú meginregla gilt við afgreiðslu allshn. á frv. um veitingu ríkisborgararéttar að á haustþingi hafa þær umsóknir verið afgreiddar sem ekki er talið að þoli bið en öll vafamál beðið til vorsins.
    Fyrir nefndinni nú lágu þær umsóknir sem ekki hlutu afgreiðslu á haustþingi og nýjar umsóknir sem bæst höfðu við. Var afgreiðslu nefndarinnar þannig háttað að formanni ásamt einum nefndarmanni, Kristni H. Gunnarssyni, var falið að fara yfir allar umsóknir. Útkoman úr þeirri vinnu var síðan lögð fyrir allshn. Þessi afgreiðsla er svipuð því sem verið hefur.
    Þær reglur sem allsherjarnefndir efri og neðri deildar Alþingis settu á 112. löggjafarþingi, sbr. þskj. 910, voru hafðar að leiðarljósi við afgreiðslu málsins. Ekki hefur unnist tími til að endurskoða þær.
    Í ljósi þeirrar vinnu sem fram hefur farið í nefndinni um frv. er nefndin ásátt um að gera þá brtt. að 50 nöfnum verði bætt við frv. og hljóta þá 62 einstaklingar íslenskan ríkisborgararétt samkvæmt frv. ef það verður að lögum. Allir nefndarmenn allshn. standa að nál. og að brtt.